Efnilegir knattspyrnumenn í leikskólanum.

Í byrjun vikunnar fékk ég góða og skemmtilega heimsókn. Á skrifstofu bæjarstjórans komu sex ungir drengir sem eru nemendur í leikskólanum Gefnarborg. Þeir afhentu bæjarstjóranum bréf sem þeir höfðu sjálfir samið, með smá aðstoð.  Í bréfinu kemur meðal annars fram að bæjarstjórinn er beðinn um að laga fótboltavöllinn á leikskólalóðinni, þar sem aðstæður til knattspyrnuiðkunar eru ekki nógu góðar.  Þá var líka bent á að laga þarf ýmislegt annað á leikskólalóðinni.

Það var gaman að fá þessa ungu drengi í heimsókn og þeir gerðu vel grein fyrir sínu erindi.  Við töluðum að sjálfsögðu mest um fótboltann og komumst að því hver heldur með hvaða liði í enska boltanum. Þeir voru vel með á nótunum í þeim efnum og fylgjast greinilega vel með.  Í ljós kom að nokkrir í hópnum eru stuðningsmenn sama liðs og bæjarstjórinn, en það lið klæðist rauðu og á heimavöll í Manchester.  Í þessum hópi drengja leynast eflaust framtíðar liðsmenn Víðis og aldrei að vita nema einhverjir þeirra eigi glæsta framtíð og góðan frama í fótboltanum í framtíðinni.

Drengirnir buðu bæjarstjóranum í heimsókn á leikskólann til þess að skoða aðstæður. Þeir tóku sérstaklega fram að best væri að bæjarstjórinn komi í heimsókn þegar það er rigning, því þá eru aðstæður á fótboltavellinum verstar.  Heimboðið verður þegið næst þegar rignir hressilega !

Bæjarstjórinn mun að sjálfsögðu taka erindi drengjanna alvarlega og leita leiða til þess að verða við því sem fyrst, enda hefur bæjarstjórinn fullan skilning á því að aðstaða til knattspyrnuiðkunar þarf að vera eins góð og mögulegt er !

Efnilegir knattspyrnumenn úr leikskólanum í heimsókn hjá bæjarstjóra.
Efnilegir knattspyrnumenn úr leikskólanum í heimsókn hjá bæjarstjóra.
Facebooktwittergoogle_plusmail