16. vika 2015.

Skólabörnin í Garði 

Vikan heilsaði með góðri og skemmtilegri heimsókn, þegar ungir og efnilegir Garðbúar af leikskólanum Gefnarborg komu á skrifstofu bæjarstjórans og ráku sitt erindi.  Frá því var greint nánar í síðasta mola.

Í gær, fimmtudag var opinn dagur í Gerðaskóla.  Foreldrar nemenda, vinir og velunnarar heimsóttu skólann og fengu kynningu á því sem nemendur og starfsfólk fást við í skólanum. Það var ánægjulegt að heimsækja skólann, þar fer fram myndarlegt og gott starf og mega Garðbúar vera stoltir af sínum skóla og því öfluga starfi sem þar fer fram.

Það er ljóst af samskiptum við skólabörn í Garði, hvort sem er í Gerðaskóla eða Gefnarborg, að framtíðin er björt.  Börnin taka virkan þátt og stunda nám og starf af miklum áhuga.  Ein af forsendum þess er að sjálfsögðu gott framlag starfsfólks skólanna, sem bera uppi skólastarfið af áhuga og alúð. Fyrir þetta allt ber að þakka.

Björgunarsveitin Ægir

Fundur var í bæjarráði í vikunni.  Meðal mála sem þar voru til umfjöllunar er samstarfssamningur við Björgunarsveitina Ægir.  Sveitarfélagið og Ægir hafa átt gott samstarf í langan tíma, enda er öflug og vel búin björgunarsveit mikilvæg í okkar samfélagi.  Fjölmörg dæmi sanna það.  Það er í raun ótrúlegt hvað við eigum öflugar björgunar-og hjálparsveitir í landinu, sem byggjast nánast alfarið á sjálfboðaliðastarfi fjölmargra einstaklinga sem þær skipa.  Í samstarfssamningnum við Ægir felast m.a. ýmis verkefni sem Ægir tekur að sér að sinna fyrir sveitarfélagið og í sveitarfélaginu, en sveitarfélagið leggur Ægi til fjármagn til starfseminnar.  Sem gamall björgunarsveitarmaður er bæjarstjórinn ánægður með gott samstarf við Björgunarsveitina Ægir í Garði.

Bsv. Ægir Garði

Víðismenn undirbúa sig fyrir sumarið

Knattspyrnulið Víðis er komið heim úr æfingabúðum á Spáni.  Leikmenn eru sólbrúnir og sællegir, undirbúa sig af kappi fyrir deildarkeppnina sem hefst um miðjan maí.  Það verður spennandi að fylgjast með Víði í sumar, en á síðustu leiktíð voru þeir mjög nálægt því að vinna sér sæti í 2. deild. Víðir á langa og merkilega sögu í íslenskri knattspyrnu, léku um tíma í efstu deild og komust í úrslitaleik bikarkeppninnar eitt árið.  Í liði Víðis í dag eru leikmenn sem eru afkomendur gamalla kempa úr Víði, víst er að þeir vilja ekki vera eftirbátar þeirra sem gerðu garðinn frægan með Víði hér áður fyrr.  Það er mikill metnaður í félaginu, meðal leikmanna og ekki síður hjá þeim sem bera félagsstarfið uppi með miklum myndarbrag. Garðbúar hvetja leikmenn Víðis til glæsilegra dáða á komandi leiktíð !

Víðir í Garði

Landsþing sveitarfélaga

Í dag, föstudag er Landsþing sveitarfélaga í Salnum í Kópavogi.  Þar eiga fulltrúar allra sveitarfélaga sæti.  Að þessu sinni verður sérstaklega fjallað um svæðasamvinnu sveitarfélaga og þjónustu við fatlað fólk.  Þá mun Gunnar Helgi Kristinsson prófessor fjalla um eflingu sveitarstjórnarstigsins, en hann hefur nýlega gefið út bók með rannsóknum sínum um sveitarstjórnarstigið. Loks verður fjallað um kosningalöggjöfina í stefnumörkun Sambands íslenskra sveitarfélaga.  Að loknu Landsþingi verður aðalfundur Lánasjóðs sveitarfélaga.  Landsþing sveitarfélaga er mikilvægur vettvangur þar sem jafnan er fjallað um helstu hagsmunamál sveitarfélaga hverju sinni.  Ekki síður er mikilvægt fyrir sveitarstjórnarmenn að hittast og stinga saman nefjum óformlega um einstök mál.  Reynslan er sú að af því má mikið læra og við það vakna oft upp góðar hugmyndir.

Umhverfisdagar í maí

Í maí munu sveitarfélögin á Suðurnesjum, í samstarfi við Sorpeyðingarstöð Suðurnesja, standa fyrir umhverfisdögum.  Á síðasta ári stóðu þessir aðilar fyrir umhverfisdögum og þótti takast vel til. Út frá reynslunni frá síðasta ári verður þetta með eitthvað öðrum hætti í ár og verður það kynnt rækilega á næstunni.  Markmiðið er að auðvelda íbúum sveitarfélaganna vorverkin og koma frá sér alls kyns úrgangi. Með samstilltu átaki allra munum við bæta ásýnd sveitarfélaganna og gera umhverfið snyrtilegra.  Sveitarfélögin og Sorpeyðingarstöðin munu kynna verkefnið fyrir íbúunum með góðum fyrirvara.  Við hvetjum íbúa og lóðaeigendur til að taka til hendi og taka öflugan þátt í því að gera umhverfi sitt og okkar allra snyrtilegt fyrir sumarið.

Vorið er komið 

Nokkuð hefur verið fjallað um veðrið í molunum undanfarnar vikur.  Oftar en ekki hefur verið kvartað yfir veðurfarinu, en nú er nokkuð ljóst að vorið er gengið í garð og því ber að fagna. Góður sólardagur var í gær, fimmtudag og verða vonandi sem flestir á næstunni. Á ferð minni á Garðskaga fyrir nokkru sá ég nokkrar lóur á vappi á grassvæðinu við Garðskagavita.  Það var heldur kuldalegt þann daginn, en afar ánægjulegt að sjá að vorboðinn var mættur í Garðinn.

Lóan er komin.
Lóan er komin.

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail