15. vika 2015.

Páskahelgin er að baki, með öllum frídögum þeirra sem höfðu ekki vinnuskyldu að gegna.  Bæjarstjórinn naut ánægjulegrar samveru með nánustu fjölskyldu í Garðinum.  Við nutum m.a. útiveru á Garðskaga og fjörunum við hann, Garðskagi er einstök náttúruperla sem margir heimsækja og njóta. Það eru mjög margir sem finna hjá sér þörf til þess að koma oft og reglulega á Garðskaga og njóta náttúrunnar og umhverfisins þar, sem ber í sér einhverja óskilgreinda töfra.

Þessa stuttu viku er óvenju lítið um fundahöld sem bæjarstjórinn hefur tekið þátt í. Ég sat fund með góðum hópi manna í Almannavarnanefnd Suðurnesja í vikunni.  Þar er fjallað um áætlanir og aðgerðir til að viðbragðsaðilar séu jafnan sem best búnir undir atburði þar sem tryggja þarf öryggi og hagsmuni fólks á svæðinu.  Um þessi mál er eðlilega fjallað af fullri alvöru og við búum svo vel að þeir aðilar sem koma að þessum málum hafa mikla reynslu og þekkingu, sem skiptir miklu máli þegar litið er til öryggis hagsmuna fólks almennt.

Skólastarfið.

Nemendur og starfsfólk skólanna mættu til sinna starfa strax að loknu páskaleyfi sl. þriðjudag.  Þótt svo frídagarnir séu gjarnan vel þegnir, þá þykir flestum oftast gott að hefja á ný hið daglega líf með fastmótuðum dagskrám.  Það styttist óðum í lok skólaársins, framundan er vorið og sumarið sem er uppáhalds árstími flestra barna. Á vegum sveitarfélagsins er nú unnið að undirbúningi sumarstarfa, sem felst meðal annars í skipulagningu vinnuskólans sem börnin í Garði taka virkan þátt í.  Það er ekki síður mikilvægt fyrir þau að taka til hendi og læra til verka, vel skipulögðum og stjórnuðum vinnuskóla er einmitt ætlað það hlutverk.  Vinnuskólinn gegnir mikilvægu hlutverki við að hirða og snyrta byggðarlagið yfir sumartímann þannig að íbúum og gestum líði sem best í vel hirtu umhverfi.

Vinnuskóli í Garði
Vinnuskóli í Garði

Golftíðin hafin.

Kylfingar eru fyrir nokkru síðan byrjaðir að leika golf á Sandgerðisvelli.  Um páskahelgina mátti sjá nokkra umferð um golfvöllinn, en fyrir nokkrum vikum var haldið fyrsta golfmót ársins hjá Golfklúbbi Sandgerðis.  Kylfingar í klúbbnum munu án efa koma vel undirbúnir til leiks þegar golftíðin hefst af alvöru, en líklegt er að ekki séu margir aðrir golfvellir á landinu þar sem kylfingar eru byrjaðir að sveifla kylfum sínum.

Golftíðin er hafin !
Golftíðin er hafin !

Góða helgi !

 

Facebooktwittergoogle_plusmail