14. vika 2015.

Dymbilvika.

Nú er Dymbilvika í aðdraganda Páska.  Nemendur og starfsfólk í skólum fóru í páskaleyfi fyrir síðustu helgi, en starfsemi leikskóla fer í páskafrí eftir daginn í dag. Almenn vinnuvika telur þrjá daga, nema hjá starfsfólki í ýmsum þjónustugreinum sem sinnir störfum meira og minna alla páskahátíðina.  Ég sá einhvers staðar umfjöllun um þetta heiti vikunnar, Dymbilvika.  Í umfjölluninni kom ekki fram bein niðurstaða, en ýmsar kenningar um það af hverju þetta heiti er dregið.  Helst virtust menn á því að það mætti rekja til kristinnar trúar og starfsemi kirkjunnar, nefnilega kólfa í kirkjuklukkum.  Ég hef enga kenningu um þetta sjálfur, en heiti vikunnar er ágætt og líklega vita flestir ef ekki allir íslendingar hvaða tímabil ársins Dymbilvika nær yfir.

1. apríl.

Margir bíða yfirleitt spenntir eftir 1. apríl og velta fyrir sér hvaða aprílgabb kemur fram.  Það er gömul hefð að gabba fólk þann 1. apríl.  Fjölmiðlar halda þessa hefð og margir einstaklingar notfæra sér að gabba einhvern á þessum degi.  Margar góðar sögur eru til að aprílgöbbum gegnum tíðina og margir eiga eflaust einhverjar skemmtilegar minningar um slíkt.  Það væri fróðlegt að vita uppruna þessarar hefðar og af hverju það er svona ríkt í okkur að gabba fólk á þessum degi.  Þetta er skemmtileg hefð og margir leggja sig fram um að halda hana í heiðri.  Mest er þó um vert að aprílgabb sé góðlátlegt grín og meiði engan.

Bæjarstjórnarfundur.

Í dag, þann 1. apríl verður fundur í bæjarstjórn Garðs.  Þar verður m.a. fyrri umræða um ársreikning sveitarfélagsins fyrir árið 2014.  Eins og fjallað var um í síðasta pistli, þá er bæjarstjórinn ánægður með niðurstöður ársreikningsins.  Á fundi bæjarstjórnar verður fjallað um fundargerðir og mál frá ýmsum nefndum og af samstarfsvettvangi okkar með öðrum sveitarfélögum.

Byggðasafnið opnar.

Reglulegir opnunartímar Byggðasafnsins á Garðskaga hefjast í dag, 1. apríl. Byggðasafnið verður opið um Páskahelgina, nema Föstudaginn langa og Páskadag verður safnið lokað.

 Páskahelgi framundan.

Þegar undirritaður skrifaði vikupistil fyrir um mánuði síðan var minnst á að þá væri mánuður til Páska og tíminn líði hratt.  Nú er allt í einu komið að því að Páskar eru að ganga í garð, tíminn hefur ekkert hægt á sér !

Páskar eru einn mikilvægasti tími kristinna manna og kirkjustarf tekur almennt mið af því. Krossfesting Jesú á Föstudaginn langa og upprisan á þriðja degi eru meðal grunnstefa í kristinni trú.  Messur verða í Útskálakirkju um páskahátíðina, altarisganga kl. 20:00 á skírdagskvöld og hátíðarmessa kl. 8:00 á páskadag.  Eftir hátíðarmessuna verður morgunverður í Kiwanishúsinu.  Garðbúar og gestir eru hvattir til þess að mæta til messu og njóta friðar og kærleiks.

Útskálakirkja
Útskálakirkja

Í bland við trúarlegt mikilvægi er hin langa páskahelgi jafnan mikil ferðahelgi. Margir leggja land undir fót og leggjast í ferðalög.  Til dvalar í sumarhúsum, heimsókna til fjölskyldna og vina, ásamt því að margir njóta þess að stunda vetraríþróttir og almenna útiveru. Undirritaður hvetur alla ferðalanga til þess að fara varlega í umferðinni, með tillitssemi og umburðarlyndi í huga gagnvart sjálfum sér og öðrum.  Umfram allt eigum við að njóta þessara daga sem framundan eru, í hvaða tilgangi sem á við um hvern og einn.

Gleðilega Páska.

Gleðilega Páska !

Facebooktwittergoogle_plusmail