13. vika 2015.

Líf og fjör í Gerðaskóla.

Í vikunni héldu nemendur Gerðaskóla og leikskólans Gefnarborgar sínar árlegu árshátíðir.  Það var ánægjulegt að vera viðstaddur og upplifa gleðina og sköpunargáfu nemendanna sem stóðu sig frábærlega.  Fjölbreytt atriði og það vakti athygli hve tónlistin var stór hluti af dagskránni, margir hæfileikaríkir nemendur komu fram með tónlistarflutning.  Það er augljóst að tónlistarkennsla í skólunum í sveitarfélaginu er að skila árangri.  Það kom í ljós í gærkvöldi á árshátíð elstu árganganna að það er rík hefð fyrir því að nemendur 10. bekkjar geri létt grín að kennurum og starfsfólki skólans.  Það fór eftirvæntingar kliður um hátt í 300 áhorfendur í salnum þegar atriðið „Kennaragrín“ var kynnt í lok dagskrár.  Nemendurnir skiluðu gríninu frábærlega og það var athyglisvert hvaða augum þau líta starfsfólk skólans.  Kærar þakkir fyrir mjög vel heppnaða og skemmtilega árshátíð.

Árshátíð Gerðaskóla
Árshátíð Gerðaskóla

Bæjarráð í vikunni.

Fundur var í bæjarráði Garðs í vikunni.  Á dagskrá var m.a. umfjöllun um drög að ársreikningi sveitarfélagsins fyrir árið 2014.  Það er alltaf ákveðin spenna og eftirvænting að fá ársreikning í hendur, þá kemur í ljós hvernig gekk að halda utan um fjárhag sveitarfélagsins á árinu.  Bæjarstjórinn var ánægður með niðurstöðurnar, fyrri umræða um ársreikninginn fer fram í bæjarstjórn í næstu viku.  Eftir það verður gerð grein fyrir útkomunni, vonandi verða sem flestir sáttir með hana.

Ánægjuleg heimsókn.

Í vikunni fékk bæjarstjórinn ánægjulega heimsókn, þegar fulltrúar Vinnumálastofnunar, Landssamtakanna Þroskahjálpar og Öryrkjabandalags Íslands komu og ræddu um samstarfsverkefni þessara aðila sem ber heitið „Virkjum hæfileikana – alla hæfileikana“.  Um er að ræða verkefni sem miðar að því að aðstoða fólk með skerta starfsgetu til starfa.  Atvinnuleitendur úr þeirra hópi hafa sína hæfileika eins og allir aðrir og það er mikilvægt fyrir samfélagið að nýta þann mannauð og hæfileika sem þau búa yfir.  Vonandi tekst vel til.  Bæjarstjórinn fékk afhenta skemmtilega gjöf, sem er tákn fyrir þetta verkefni.  Gjöfin er Origami fugl í boxi. Origami er gamalt listform, líklega upphaflega frá Japan og er tákn fyrir þakklæti og á að veita hamingju.  Kærar þakkir fyrir heimsóknina og fallega gjöf.

Virkjum hæfileikana - alla hæfileikana
Virkjum hæfileikana – alla hæfileikana

Vorboðinn.

Í fyrri pistli var fjallað um vorboðana á Garðsjónum, en fjöldi smábáta hefur meira og minna alla vikuna verið í fiskiríi á Garðsjónum utan við stöndina hér í Garði.  Veðrið hefur verið ágætt í vikunni, suma daga hefur það meira að segja verið mjög gott með sól og hægviðri.  Þegar þetta er skrifað á föstudags morgni er hins vegar snjóél og heldur vetrarlegt út að líta.  Skyggni er frekar takmarkað, en milli élja sjást nokkrir bátar úti fyrir ströndinni og virðist sjólagið þokkalegt.  Vorið hefur sannarlega gert vart við sig þessa dagana, sjósókn smábátanna er glöggt merki um að árstíðaskipti eru að verða.

Vetrarfundur sveitarstjórnarmanna.

Í dag verður vetrarfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.  Þar munu kjörnir fulltrúar, auk framkvæmdastjóra sveitarfélaganna á Suðurnesjum koma saman og fara yfir brýn mál.  Að þessu sinni verður sérstaklega fjallað um atvinnumál, málefni aldraðra og Sóknaráætlun Suðurnesja.  Það er alltaf mikilvægt fyrir sveitarstjórnarmenn að koma saman og fjalla um sameiginleg hagsmunamál, þar sem velferð og lífskjör íbúa sveitarfélaganna er grunnstefið.  Þar fyrir utan er ánægjulegt að hitta gott samstarfsfólk og efla tengslin.  Á slíkum samkomum kvikna oft góðar hugmyndir og í þeim felst gjarnan ákveðinn lærdómur.

Dymbilvika og Páskar framundan.

Pálmasunnudagur er á sunnudaginn og í kjölfarið fylgir Dymbilvikan.  Páskafrí hefjast í skólunum í dag og er það langþráð í hugum margra. Páskahátíðin er framundan með sínum frídögum.

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail