12. vika 2015.

Upplestrarkeppni grunnskólanema.

Í lok síðustu viku fór Stóra upplestrarkeppnin fram í Stóru Vogaskóla, þar sem nemendur úr 7. bekkjum grunnskólanna í Garði, Grindavík og Vogum öttu kappi í upplestri.  Það er ánægjulegt að Emilía Ýr Bryngeirsdóttir nemandi Gerðaskóla bar sigur úr býtum í upplestrarkeppninn.  Þá flutti Þorsteinn Helgi Kristjánsson nemandi 6. bekkjar Gerðaskóla tónlistaratriði.  Bæjarstjórinn óskar Emilíu Ýr til hamingju með sigurinn og þakkar Þorsteini Helga fyrir framlag hans.  Fulltrúar Gerðaskóla voru sér og skólanum sínum til mikils sóma í Stóru Vogaskóla sl. fimmtudag.

Emilía Ýr Bryngeirsdóttir sigraði Stóru upplestrarkeppnina.
Emilía Ýr Bryngeirsdóttir sigraði Stóru upplestrarkeppnina.

Samstarf Gerðaskóla og Hollvina Unu.

Í molum bæjarstjórans í síðustu viku var fjallað um Unu Guðmundsdóttur í Sjólyst.  Þar kom fram að Hollvinir Unu hafa umsjón með Sjólyst, húsinu sem Una bjó í lengst af sinni ævi, þar sem haldið er á lofti sögu Unu og heimili hennar varðveitt.  Í byrjun þessarar viku var gengið frá samningi milli Hollvina Unu og Gerðaskóla um samstarf um að fræða nemendur Gerðaskóla um líf og starf Unu Guðmundsdóttur og framlag hennar til heimabyggðarinnar í Garði.  Ágúst Ólason skólastjóri Gerðaskóla og Erna Marsibil Sveinbjarnardóttir formaður Hollvina Unu undirrituðu samninginn.  Það er mikilvægt að halda merkilegri sögu á lofti og uppfræða yngstu kynslóðirnar á hverjum tíma um líf og störf fyrri kynslóða.

Ágúst skólastjóri og Erna formaður Hollvina Unu
Ágúst skólastjóri og Erna formaður Hollvina Unu

Gamli vitinn að fá toppstykkið.

Íslenska vitafélagið hefur unnið að því að koma upp ljóshúsi á gamla vitann á Garðskaga.  Ljóshús var á vitanum meðan hann var í notkun, en eftir að vitinn var lagður niður árið 1944 var ljóshúsið tekið af honum og hefur ekki sést á Garðskaga síðan því það glataðist.  Vitafélagið hefur í nokkurn tíma unnið að málinu og er von til þess að ljóshús verði aftur komið á vitann áður en langt um líður.  Gamli vitinn var byggður á vegum dönsku vitamálastjórnarinnar árið 1897 og var yfirsmiður sá sami og sá um smíði Alþingishússins árin 1881-82.  Þegar vitinn var byggður voru aðeins tveir aðrir vitar fyrir á landinu, Reykjanesviti og Dalatangaviti.  Ljóshúsið á vitanum var 3,6 m. á hæð og var hæð vitans alls 15 m með ljóshúsinu. Upphaflegar teikningar af ljóshúsinu eru til og verður stuðst við þær við endursmíði þess.

Vitinn er nú næst elsti uppistandandi vitinn á landinu.   Hann hefur því mikið menningarsögulegt og umhverfislegt gildi, hann er sterkt og lifandi tákn fyrir Garðskagann og Sveitarfélagið Garð, en vitarnir á Garðskaga eru táknmyndin í bæjarmerki sveitarfélagsins.  Gamli vitinn á Garðskagatá mun fá langþráða „andlitslyftingu“ við að fá aftur á sig toppstykkið.

Gamli vitinn á Garðskaga, með ljóshúsi.
Gamli vitinn á Garðskaga, með ljóshúsi.

Myndin hér að ofan er af gamla vitanum á Garðskaga, á myndinni er vitinn með ljóshúsinu.  Þessi mynd er tekin einhvern tíma fyrir árið 1933, en það á var byggt anddyri framan við innganginn í vitahúsið.

Veðurfar og sólmyrkvi.

Það er væntanlega að bera í bakkafullan lækinn að ræða um veðrið.  Við íslendingar grípum þó oft til þess að tala um veðrið þegar lítið er um spennandi umræðuefni. Eftir enn eina óveðurslægðina sem gekk yfir landið um síðustu helgi brá svo við að sést hefur til sólar í vikunni og meira að segja komu dagar þar sem lognið var kyrrt ! Það styttist í vorið með hverjum deginum, sólardagarnir í vikunni lyftu andanum og færði okkur aftur þá trú að þrátt fyrir allt geti verið mjög gott verður á Íslandi.  Einhvers staðar sá ég á netinu að vorið muni hefji innreið sína undir miðnætti í kvöld, föstudag.  Hversu vísindaleg sú tilgáta er skal ósagt látið, en við tökum vorinu fagnandi þegar að því kemur.

Í dag, föstudag, er jafndægur á vori, dagurinn er orðinn jafn langur nóttu.  Morguninn heilsaði með veðurblíðu og glampandi sól!  Það hafa margir beðið spenntir eftir að upplifa sólmyrkvann í morgun. Í fréttum hefur komið fram að margir erlendir ferðamenn hafi komið til landsins í þeirri von að upplifa sólmyrkvann og margir tilbúnir að leggja mikið fjármagn í þá upplifun, meira að segja að kaupa sér rándýra flugferð til að fljúga upp yfir ský til að hafa meiri von um að sjá fyrirbærið.  Sólmyrkvinn var sjáanlegur héðan úr Garðinum og það var skemmtileg upplifun að fylgjast með honum. Skólabörnin voru með sérstök gleraugu til að horfa á myrkvann, við á bæjarskrifstofunni í Garði vorum svo heppin að hafa rafsuðugler við hendina og með því sáum við sólmyrkvann mjög vel.  Það var víða lítið vinnuframlag á vinnustöðum um kl. 9:30, enda um einstakan viðburð að ræða.

Góða helgi !

 

Facebooktwittergoogle_plusmail