11. vika 2015.

Ungar körfuboltahetjur.

Um síðustu helgi var haldið Nettó mót í körfubolt í Reykjanesbæ og voru þátttakendur á aldrinum 8 – 12 ára, alls staðar að af landinu.  Alls tóku 39 börn úr Garði þátt í mótinu og léku að sjálfsögðu undir merkjum Víðis.  Í aðdraganda mótsins stóð Íþrótta-og æskulýðsnefnd Garðs fyrir sex vikna körfuboltanámskeiði fyrir börnin, til að búa þau undir átökin á Nettó mótinu.  Fulltrúar Víðis stóðu sig með mikilli prýði og voru félagi sínu og heimabæ til mikils sóma.  Foreldrar barnanna tóku virkan þátt, héldu utan um sína leikmenn og stjórnuðu liðum.  Nettó mótið tókst mjög vel, enda var virkjaður samtakamáttur Keflavíkur og Njarðvíkur við undirbúning og framkvæmd mótsins.  Garðbúar óska sínum fulltrúum til hamingju með frábæra frammistöðu á mótinu og þakka aðstandendum Nettó mótsins fyrir vel heppnað mót.

Krakkablak.

Íþrótta-og æskulýðsnefnd lætur ekki deigan síga!  Í framhaldi af körfuboltanámskeiðinu er nú staðið fyrir kynningu á krakkablaki og er það í umsjá blakdeildar Keflavíkur.  Krakkablak er skemmtileg útfærsla á blaki, í bland við aðra leiki.  Von er til þess að börnin sem taka þátt í krakkablakinu fái einhvern tímann í framhaldinu áhuga á blaki, enda er blak mjög vinsæl íþrótt fyrir fólk á öllum aldri, ekki síst hjá fólki á „besta“ aldri.

Sólseturshátíð.

Hin árlega og skemmtilega Sólseturshátíð verður haldin í Garði síðustu helgi júní mánuðar í sumar.  Knattspyrnufélagið Víðir annast undirbúning og framkvæmd hátíðarinnar samkvæmt samningi þar um við sveitarfélagið.  Þrátt fyrir að allar vetrarlægðirnar sem skella á okkur um þessar mundir minni ekki á sumartímann þegar Sólseturshátíðin er haldin, þá er þegar hafinn undirbúningur fyrir hátíðina.  Hinir kraftmiklu félagar í Víði eru byrjaðir að leggja drög að skipulagi næstu hátíðar, vonandi hjálpar það einhverjum þeirra að þrauka þessa óskemmtilegu veðurtíð með því að sjá fyrir sér sumartíðina þegar Sólseturshátíðin stendur yfir.

Gestastofa Reykjanes jarðvangs.

Í dag, föstudag, var formlega opnuð gestastofa Reykjanes jarðvangs í Duus húsum í Reykjanesbæ.  Sveitarfélagið Garður er aðili að jarðvangnum, sem er áhugavert verkefni og er til þess að kynna fjölbreytileika mannlífs, náttúru og jarðfræði Reykjaness.  Jarðvangar eru þekktir víða um heim og fjölsóttir af ferðafólki sem vill heimsækja og kynna sér mannlíf, náttúru og jarðfræði viðkomandi svæða.  Í vor verður Jarðvangsvika með sérstakri dagskrá, þar sem lögð verður áhersla á ýmis sérkenni Suðurnesja.

Safnahelgi framundan.

Safnahelgi á Suðurnesjum er orðinn árviss viðburður um þetta leyti árs og verður hún nú um komandi helgi.  Sveitarfélögin á Suðurnesjum og Menningarráð Suðurnesja hafa unnið að undirbúningi safnahelgarinnar.  Mikil og fjölbreytt dagskrá hefur verið sett saman og auglýst.  Í Garðinum verður Byggðasafnið á Garðskaga opið, einnig gallery í vitavarðarhúsinu. Þá verður ævintýragarðurinn hjá Helga Valdimarssyni að Urðarbraut 4 opinn, sem og Gallery Ársól í Kothúsum.  Loks verður Sjólyst, hús Unu í Garði opið og þar munu Hollvinir Unu verða til staðar og segja frá Unu og Sjólyst.  Undirritaður hvetur sem flesta, bæði Suðurnesjamenn sem og aðra landsmenn til að taka þátt, heimsækja söfn og aðra viðburði um helgina. Það er fjölmargt í boði og um að vera víða á svæðinu og er það til marks um fjölbreytileika mannlífs og athafna á Suðurnesjum.

 

Körfuboltahetjur í Garði æfa fyrir Nettó mót.
Körfuboltahetjur í Garði æfa fyrir Nettó mót.

 

 

Facebooktwittergoogle_plusmail