12. vika 2018.

Árshátíð Gerðaskóla.

Nú í vikunni héldu nemendur Gerðaskóla sína árlegu árshátíð. Nemendur og starfsfólk skólans hafa að undanförnu staðið í ströngu við að undirbúa árshátíðina, sem var að vanda glæsileg og vel heppnuð. Nú eru nemendur og starfsfólk komin í páskafrí og mæta aftur til starfa strax eftir Páska. Vonandi njóta þau þess öll að komast í fríið og hafi það gott um páskahelgina. Myndina hér að neðan tók Guðmundur Sigurðsson af hljómsveitinni 13 nótur, sem er skipuð nemendum Gerðaskóla og hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir flottan tónlistarflutning á ýmis hljóðfæri, sem sum eru óhefðbundin.

Bæjarráð í vikunni.

Nú í vikunni fundaði bæjarráð Garðs og voru ýmis mál á dagskrá, að venju. Sem dæmi um mál sem voru til umfjöllunar er erindi frá Heilbrigðisnefnd Suðurnesja, sem hvetur til þess að fundin verði ný vatnsból til að tryggja vatnsöflun á Suðurnesjum en núverandi vatnsból eru í nágrenni Grindavíkurvegar og ekki þarf að spyrja að áhrifum þess ef vatnsbólin spillast vegna hugsanlegra umhverfisslysa á veginum. Þá var samþykkt erindi frá Knattspyrnufélaginu Víði, sem leggur til að Sólseturshátíðin þetta árið verði undir mánaðamótin maí/júní, en ekki í lok júní eins og verið hefur undanfarin ár. Farið var yfir framkvæmdir og framkvæmdaáætlun ársins og lögð fram drög að ársreikningi sveitarfélagsins fyrir árið 2017. Loks var fjallað um fundargerðir sameiginlegra nefnda sem sveitarfélagið á aðild að, þar á meðal um fundargerðir Stjórnar til undirbúnings sameiningar Garðs og Sandgerðisbæjar. Alltaf nóg um að vera hjá bæjarráði.

Af sameiningarmálum.

Mikil vinna hefur verið í gangi við að undirbúa sameiningu sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðisbæjar. Stjórn til undirbúnings sameiningunni hefur gert skil á öllum formlegheitum til Sveitarstjórnaráðuneytis þannig að ráðuneytið geti auglýst sameininguna í samræmi við sveitarstjórnarlög. Mikil vinna er framundan við alls kyns undirbúning, til þess að sameiningin geti gengið hnökralaust fyrir sig og nýtt sameinað sveitarfélag hefji starfsemi að loknum sveitarstjórnarkosningum 26. maí. Þessa dagana er mest umræða og spenna meðal margra íbúa sveitarfélaganna um það hvað nýtt sveitarfélag muni heita. Ekki síður virðast margir aðilar utan sveitarfélaganna spenntir og forvitnir um nafnið. Sumir fara hamförum í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum og geta greinilega ekki beðið eftir niðurstöðu íbúanna um málið. Framundan er rafræn kosning meðal íbúa sveitarfélaganna, þar sem kosið verður milli tillagna frá nafnanefndinni og munu þær tillögur koma fram fljótlega. Einn gárunginn sagði að spennan hjá sumum vegna nafns á nýtt sveitarfélag minni á spennu barnanna fyrir jólin, þau geti ekki beðið eftir að fá að opna jólapakkana…

Vetrarfundur SSS.

Í dag, föstudag verður vetrarfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum. Á fundinum verður m.a. fjallað um þá athyglisverðu staðreynd að þrátt fyrir gríðarlega fjölgun íbúa í sveitarfélögunum síðustu 2-3 árin, hefur ríkið ekki staðið sig í að fylgja þeirri þróun eftir, t.d. í heilbrigðisþjónustu, menntamálum, löggæslumálum, samgöngumálum o.s.frv. Þar að auki hafa þjónustustofnanir sem ríkið ber ábyrgð á í mjög auknum mæli þurft að sinna þeirri sprengingu sem verið hefur í fjölgun farþega um Keflavíkurflugvöll. Þannig má því segja að álag á þá þjónustu ríkisins hér á svæðinu hafi aukist frá tveimur hliðum, en því miður hefur ríkið ekki séð ástæðu til að styrkja þessa þjónustu með auknum fjárheimildum þrátt fyrir að sveitarstjórnarfólk á Suðurnesjum hafi ítrekað sýnt fram á nauðsyn þess með gögnum og fullgildum rökum. Þá verður eflaust umræða á fundinum í dag um framlög úr ríkiskerfinu til ýmissa verkefna sem tengjast stóraukinni umferð ferðafólks á Suðurnesjum. Þar er allt á sömu bókina lagt, frekar dregið úr en hitt og nýjasta skrautfjöður ríkisins í þeim efnum kom fram við flugeldasýningu tveggja ráðherra í gær, þegar tilkynnt var um framlög úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Allt þetta hvetur sveitarstjórnarfólk til dáða til að berjast af enn meira afli en áður til þess að ríkiskerfið opni augun, átti sig á þróun mála á Suðurnesjum og æpandi þörf fyrir aukna athygli ríkisins þegar kemur að þjónustu við íbúa, atvinnulíf og ferðafólk á svæðinu.

Vorjafndægur.

Sl. þriðjudag þann 20. mars kl. 16:15 var vorjafndægur og eftir það hófst vorið. Á sama tíma var haustjafndægur á suðurhveli jarðar og þar hófst því haustið. Gangur tungls, þ.e. hvenær fullt tungl er og tímasetning vorjafndægurs ræður því hvenær Páskadagur er hverju sinni. Páskasunnudag ber alltaf upp fyrsta sunnudag eftir fyrsta fulla tungl eftir vorjafndægur. Í ár var síðasta fulla tungl fyrir vorjafndægur þann 2. mars. Næsta fulla tungl eftir vorjafndægur verður á morgun, laugardaginn 31. mars. Þar af leiðandi verður Páskadagur sunnudaginn 1. apríl. Þennan fróðleik má m.a. finna á Stjörnufræðivefnum. Þar kemur einnig fram að árið 1582 hafi Gregoríus 13. páfi sett fram tímatalið sem við förum eftir og sú tímatalsregla tryggi að vorjafndægur beri upp á tímabilinu 19. – 21. mars ár hvert. Alltaf fróðlegt að rýna í vísindin, sem í þessu tilfelli sýna fram á að vorið sé hafið 🙂

Góða helgi

 

 

Facebooktwittergoogle_plusmail