11. vika 2018.

Sameining sveitarfélaga.

Mikil vinna er í gangi við undirbúning að sameiningu sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðisbæjar. Stjórn til undirbúnings sameiningunni hefur afgreitt þau formsatriði sem þarf til að sveitarstjórnaráðuneyti geti auglýst sameininguna. Þá er unnið að mörgum öðrum verkefnum til þess að undirbúa það að sameiningin geti gengið hnökralaust fyrir sig. Þar má m.a. nefna starfsmannamálin, samræmingu samþykkta og reglugerða, skjalastjórnun og persónuverndarmál, svo eitthvað sé nefnt. Framundan er svo vinna við að sameina ýmis kerfi og fjárhagsbókhald. Sumir dagar eru þétt bókaðir fyrir ýmsa fundi vegna verkefnisins og má sem dæmi nefna að í dag, föstudag eru ýmsir fundir í gangi hér á bæjarskrifstofunni í Garði, allt frá því snemma morguns og fram á seinnipart dagsins. Allt gengur þetta mjög vel og góður starfsandi svífur yfir verkefninu.

Nýr skólastjóri Gerðaskóla.

Í síðustu viku samþykkti bæjarstjórn að ráða Evu Björk Sveinsdóttur í stöðu skólastjóra Gerðaskóla. Eva mun taka við starfinu þann 1. ágúst. Eva hefur starfað sem aðstoðarskólastjóri við Gerðaskóla í vetur. Um leið og henni er óskað til hamingju með stöðuna væntum við góðs af samstarfi við hana á komandi árum. Þar sem Eva mun láta af starfi aðstoðarskólastjóra, hefur sú staða nú verið auglýst laus til umsóknar á heimasíðu sveitarfélagsins svgardur.is. Áhugasamir eru hvattir til að kynna sér auglýsinguna.

Er vorið að koma ?

Eftir að töluvert snjóaði í Garðinum um síðustu helgi hefur veður snúist í hlýindi og rigningu á köflum. Snjórinn sem féll um síðustu helgi staldraði stutt við og er horfinn. Nú í vikunni sagði einn pottverjinn frá því í heita pottinum snemma morguns að hann hafi séð nokkra Tjalda á vappi á Garðskaga. Taldi hann það augljóst merki um að vorið sé byrjað að færast yfir. Vonandi er það rétt, hver dagur er hænufet inn í vorið og í átt að sumri.

Góða helgi 🙂

 

Facebooktwittergoogle_plusmail