10. vika 2018.

Menningin blómstrar í Garði.

Eins og fram hefur komið hlaut listahátíðin Ferskir viðurkenninguna Eyrarrós fyrir stuttu.  Um síðustu helgi var uppskeruhátíð tónlistarskólanna, Nótan haldin í Hörpu. Þar hlaut rokkhljómsveit frá Tónlistarskólanum í Garði, skipuð fjórum nemendum sérstök Nótuverðlaun fyrir framúrskarandi tónlistarflutning í opnum flokki. Þá voru þeir valdir úr hópi verðlaunahafa til að endurflytja sitt atriði í lok hátíðarinnar. Strákarnir í hljómsveitinni, þeir Alexander, Helgi, Hólmar Ingi og Magnús Fannar og tónlistarskólinn fá hamingjuóskir með þennan frábæra árangur. Hér eru myndir af rokkurunum úr Garði í Hörpu.

Alþjóðleg ráðstefna jarðvanga.

Mikið og gott starf hefur verið unnið undanfarin misseri og ár við að byggja upp og markaðssetja Reykjanesið fyrir ferðamenn. Reykjanes Jarðvangur (Reykjanes Geopark) er viðurkenndur UNESCO Global Geopark, sem á aðild að evrópusamtökum jarðvanga og á alþjóðavísu. Í síðustu viku var alþjóðleg ráðstefna jarðvanga haldin í Keili, þar voru mættir um 70 fulltrúar margra jarðvanga víðs vegar að frá 11 löndum. Ráðstefnan tókst vel og var til fyrirmyndar hvernig starfsfólk Reykjanes Jarðvangs stóð að undirbúningi og framkvæmd ráðstefnunnar.

Fleiri viðurkenningar og tilnefningar.

Á síðasta ári var Reykjanes tilnefnt sem eitt af 100 sjálfbærustu ferðamannasvæðum heimsins, svonefnd Sustainable Global Destinations. Nú í vikunni hlaut Reykjanes þriðju verðlaun af þessum 100 sjálfbærustu svæðum, í flokknum Earth Award. Þessi verðlaun eru veitt fyrir framlag í loftslagsmálum, gegn þeim loftslagsbreytingum sem verið hafa (sjá mynd af viðurkenningarskjali hér fyrir neðan). Þá var markaðsherferð Markaðsstofu Reykjaness, „Reykjanes-við höfum góða sögu að segja“ tilnefnd til árangursverðlauna ÍMARK. Þetta verkefni var unnið í samstarfi við HN-Markaðssamskipti. Þótt svo þessi markaðsherferð hafi ekki hlotið verðlaunin, þá felst mikil viðurkenning í tilnefningunni sem merki um gott og árangursríkt verkefni.

Fundur í bæjarstjórn.

Bæjarstjórn fundaði sl. miðvikudag og voru ýmis mál á dagskrá. Uppistaða í dagskrá bæjarstjórnar eru jafnan fundargerðir nefnda og ráða. Meðal þess sem bæjarstjórn samþykkti á fundinum voru drög að nýrri lögreglusamþykkt fyrir sveitarfélögin í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum. Þá kaus bæjarstjórn fulltrúa í yfirkjörstjórn vegna komandi sveitarstjórnarkosninga.  Við þær kosningar verður kosin bæjarstjórn fyrir nýtt sameinað sveitarfélag, kjördeildir verða í hvoru núverandi sveitarfélaga með tilheyrandi undirkjörstjórnum og því þarf að kjósa yfirkjörstjórn til að annast framkvæmd kosninganna. Þá samþykkti bæjarstjórn að bjóða Evu Björk Sveinsdóttur stöðu skólastjóra Gerðaskóla.

Vorboðinn á Garðsjónum.

Í góða veðrinu nú í vikunni birtist vorboðinn á Garðsjónum. Það eru allir smábátarnir sem voru við veiðar úti fyrir Garði. Það er jafnan ákveðinn vorbragur af því þegar smábátarnir hefja veiðar og sú var upplifunin nú í vikunni. Þegar þetta er skrifað fyrir hádegi á föstudegi, má sjá fjölda smábáta að veiðum úti af Garðinum.

Safnahelgi framundan.

Nú um komandi helgi verður Safnahelgi á Suðurnesjum. Hins ýmsu söfn í öllum sveitarfélögunum á Suðurnesjum verða opin almenningi og ýmsar uppákomur verða. Heimafólk og gestir eru hvattir til að heimsækja söfnin á svæðinu um helgina. Nánari upplýsingar eru á vefnum safnahelgi.is.

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail