10. vika 2015.

Veðurfar.

Veðrið hefur alltaf verið vinsælt umræðuefni meðal okkar íslendinga.  Vikan heilsaði með ágætu veðri og sólin lét meira að segja sjá sig.  Um miðja vikuna fór svo allt í sama horf, veðurguðirnir ákváðu að gera okkur aftur lífið leitt með leiðinda veðri meira og minna út vikuna.  Fram hefur komið að nýliðinn febrúarmánuður hafi verið sá kaldasti í Reykjavík frá árinu 2008, úrkomusamur, sólarlítill og almennt leiðindaveður.  Sólardagar fyrri hluta vikunnar rifjuðu upp að þegar veðurguðirnir eru í góðu skapi þá á það sama við um okkur mannfólkið.  Betri tíð er í vændum!

Ferðaþjónustan.

Undirritaður fór á fund í Duus húsum í vikunni, þar sem fjallað var um Stefnu og framtíðarsýn fyrir ferðaþjónustuna á Íslandi.  Mikilvægt verkefni, sem í raun hefði þurft að vera búið að vinna áður en sprenging varð í fjölgun ferðamanna fyrir nokkrum árum.  Við höfum að mörgu leyti ekki búið okkur undir þessa þróun, m.a. með uppbyggingu innviða og erum að elta þróunina að því leyti.  Ég velti fyrir mér hvort ferðaþjónustan ætti að horfa til þróunar hjá sjávarútvegnum.  Horfa frá magni yfir í aukin verðmæti, því fjöldinn og magnið skilar ekki endilega mestum tekjum og framlegð.  Það sem skiptir megin máli er að nýta auðlindina með sjálfbærni að leiðarljósi og á sem hagkvæmastan hátt.  Aukin framlegð skapar forsendur til að hækka laun.  Það eru allar slíkar forsendur fyrir hendi varðandi ferðaþjónustuna, en til að það geti orðið þarf stefnumótun, aðgerðaáætlun og samvinnu allra aðila sem að málinu koma.  Ég held við séum að fara á rétta leið í þessum málum.

Góður andi í bæjarstjórn.

Bæjarstjórn Garðs fundaði í vikunni.  Það er góður andi í bæjarstjórninni, umræður góðar og nánast öll mál afgreidd samhljóða.  Það er ánægjulegt að starfa við slíkar aðstæður og það mun skila okkur meiri og betri árangri í þágu íbúanna í sveitarfélaginu.

Strætó.

Strætó hækkaði gjaldskrá sína 1. mars.  Sveitarfélagið Garður niðurgreiðir fargjöld barna sem búsett eru í sveitarfélaginu um 80%.  Hækkun á gjaldskrá Strætó hefur ekki áhrif á fargjöld barnanna, þar sem farmiðakort verða seld á „gamla“ verðinu meðan birgðir endast og líklega fram undir árslokin.  Við hvetjum sem flesta að nýta sér almenningssamgöngur, sem eru ódýr og góður kostur.

Eyrarrósin í Garðinn ?

Eyrarrósin er viðurkenning sem veitt er fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni.  Í vikunni var tilkynnt hvaða 10 verkefni eiga möguleika á að hljóta viðurkenninguna í ár.  Eitt af þeim verkefnum er Ferskir vindar í Garði.  Í byrjun apríl mun Dorrit Moussaieff forsetafrúin okkar afhenda Eyrarrósina  því verkefni sem verður fyrir valinu.  Það er ánægjulegt að Ferskir vindar komi til greina að hljóta Eyrarrósina, undirritaður óskar aðstandendum Ferskra vinda til hamingju með það.  Það verður spennandi að fylgjast með því hvort Eyrarrósin kemur í Garðinni, líkt og Edduverðlaunin um daginn.

Eyrarrósin, viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni.

Kvenfélagskonur funda í Garði.

Nú um komandi helgi verður Kvenfélagið Gefn gestgjafi aðalfundar Kvenfélagasambands Gullbringu-og Kjósarsýslu.  Fundurinn verður haldinn í okkar glæsilega sal Miðgarði í Gerðaskóla og er von á um 50 konum frá kvenfélögum innan sambandsins til fundarins.  Um leið og þær eru boðnar velkomnar í Garðinn er vonast til að samvera þeirra verði góð og aðalfundarstörf gangi vel.  Kvenfélögin eiga sér langa og farsæla sögu á Íslandi.  Þau hafa látið sig samfélagsleg verkefni varða og hafa víða verið kjölfesta í sínum samfélögum og skipt miklu máli í félagslífi hvers sveitarfélags.

Tíminn flýgur hratt !

Tíminn flýgur hratt, fyrr en varir kemur vorið.  Áramótin eru nýliðin hjá og nú er aðeins einn mánuður til Páska !

 

Facebooktwittergoogle_plusmail