9. vika 2018.

Ferskir vindar handhafi Eyrarrósarinnar.

Alþjóðlega listahátíðin Ferskir vindar í Garði hlaut í gær Eyrarrósina, sem er viðurkenning sem er afhent á hverju ári fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni. Eliza Reid forsetafrú og verndari Eyrarrósarinnar afhenti Mireyu Samper viðurkenninguna við athöfn á Neskaupstað. Listahátíðin Ferskir vindar hefur verið haldin fimm sinnum í Garði og er samstarfsverkefni sveitarfélagsins og Ferskra vinda. Nú er listahátíðin orðin handhafi Eyrarrósarinnar og er það mikil viðurkenning og heiður fyrir samfélagið í Garði, en ekki síst fyrir Mireyu Samper og hennar samstarfsfólk. Mireya fær innilegar hamingjuóskir með Eyrarrósina, sem er mikil viðurkenning fyrir það menningarstarf sem hún hefur staðið fyrir með Ferskum vindum í Garði undanfarin ár. Einnig fær sveitarfélagið og samfélagið í Garði hamingjuóskir, en listahátíðin Ferskir vindar er ekki síst samfélagslegt verkefni sem margir íbúar og starfsfólk sveitarfélagsins taka þátt í hverju sinni. Hér er Mireya með Eyrarrósina, ásamt Elizu Reid og fulltrúa Listahátíðar í Reykjavík, eftir afhendinguna á Neskaupstað í gær.

Sameining sveitarfélaga.

Undirbúningur að sameiningu sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðisbæjar er í fullum gangi. Sameiningin mun taka gildi eftir sveitarstjórnarkosningar 26. maí, þegar íbúar munu kjósa bæjarstjórn fyrir nýtt sameinað sveitarfélag. Mesta spennan um þessar mundir snýst um það hvað nýtt sveitarfélag muni heita. Eftir að yfir 390 tillögur að nafni bárust, hefur sérstök nafnanefnd farið yfir tillögurnar og valið tillögur í 10 liðum sem Örnefnanefnd hefur nú til umsagnar. Rafræn kosning um tillögur að nafni mun síðan fara fram meðal íbúa upp úr miðjum mars og verður það nánar auglýst síðar. Að öðru leyti gengur vinna við undirbúning sameiningarinnar vel, en þar er í mörg horn að líta.

Síðasta föstudag var sameiginlegur fundur allra starfsmanna beggja sveitarfélaganna. Þar var rýnt til framtíðar og m.a. fjallað um hugmyndir um gildi fyrir nýjan vinnustað, sem er nýtt sveitarfélag. Góður andi var á fundinum, samhljómur og áhugi, sem gefur góð fyrirheit um framhaldið.

Bæjarráð í vikunni.

Nú í vikunni fundaði bæjarráð. Að venju voru ýmis mál á dagskránni. Sem dæmi um mál má nefna nýja lögreglusamþykkt fyrir  öll sveitarfélögin í umdæmi lögreglustjórans á Suðurnesjum. Samþykkt voru drög að nýjum samstarfssamningi við Íþróttafélagið Nes, sem er íþróttafélag fatlaðra á Suðurnesjum. Þá má nefna að fjallað var um vinnustaðagreiningu meðal starfsfólks sveitarfélagsins, fundargerðir stjórnar til undirbúnings sameiningu sveitarfélaganna og ráðningu skólastjóra Gerðaskóla, en bæjarstjórn mun samkvæmt samþykkt um stjórn sveitarfélagsins taka ákvörðun um ráðningu skólastjóra í næstu viku.

Fundir bæjarstjórans í vikunni.

Þessi vika hefur verið annasöm vegna alls kyns funda sem bæjarstjórinn í Garði hefur sótt í vikunni. Sem dæmi má nefna fundi um skipulagsmál, um þarfir vegna fyrirhugaðrar stækkunar leikskóla, viðtöl við umsækjendur um stöðu skólastjóra, fundur í Grindavík um samgöngumál og svo fundur í bæjarráði. Þá var eins dags alþjóðleg ráðstefna um jarðvanga, þar sem Reykjanes Jarðvangur sá um framkvæmd og var í brennidepli, loks voru fundir vegna sameiningar sveitarfélaga. Svona eru sumar vikur í störfum bæjarstjórans, enda í mörg horn að líta.

Veðrið.

Eftir langvarandi leiðindatíð í veðrinu, sunnanáttir með snjógangi og rigningu til skiptis, snerist til norðlægrar áttar um miðja vikuna. Með norðanáttinni birti til en heldur svalara veður. Líkur munu vera á því að hann liggi í norðlægum áttum á næstunni. Einhverjir höfðu á orði nú í vikunni að vart væri við vorkeim í lofti og heyra mætti fuglasöng sem fylgdi vortíðinni. Þó ber að hafa í huga að ennþá er vetur og við megum búast við að vetrartíð skelli yfir okkur næstu vikurnar. En, þrátt fyrir allt styttist í vorið með hverri viku og nú er allt í einu komið fram í marsmánuð.

Góða helgi !

 

Facebooktwittergoogle_plusmail