7. vika 2018

Öskudagur.

Á öskudaginn sl. miðvikudag var að venju mikið um að vera hjá börnunum í Garðinum. Að vísu setti óhagstætt veður smá strik í reikninginn, en hefðbundin öskudagshátíð var í Íþróttamiðstöðinni þar sem fjöldi alls kyns furðuvera mættu. Eins og tilheyrir var „kötturinn“ sleginn úr tunnunni, farið í alls konar leiki og fengið „gott í gogginn“.

Sameining sveitarfélaga.

Vinna við undirbúning sameiningar sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðisbæjar er nú í fullum gangi. Að ýmsu þarf að hyggja og mörg verkefni sem þarf að vinna. Eitt af því mikilvægasta snýr að starfsfólki sveitarfélaganna, m.a. er varðar upplýsingamiðlun og þátttöku starfsfólks við að móta starfsemi í nýju sveitarfélagi. Nú í vikunni var fundur í Vörðunni í Sandgerði þar sem mannauðsráðgjafar hittu hóp starfsfólks til að fara yfir breytingastjórnun og ýmislegt sem hafa þarf í huga. Framundan er frekari vinna með starfsfólki, en mannauður sem felst í starfsfólki sveitarfélaganna er mikill og mikilvægt að unnið sé að sameiningu sveitarfélaganna í samstarfi við starfsfólkið. Hér er mynd af fundinum í Vörðunni.

Ferskir vindar og Eyrarrósin.

Enn á ný er listahátíðin Ferskir vindar í Garði tilnefnd til Eyrarrósarinnar í ár.  Ferskir vindar hafa áður verið tilnefndir til þessarar viðurkenningar, sem er veitt ár hvert fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni. Um leið og Ferskir vindar fá hamingjuóskir með tilnefninguna er vonandi að Ferskir vindar fái þessa viðurkenningu í ár.

 

Fundur um ferðamál.

Í síðustu viku stóðu Reykjanes Jarðvangur og Markaðsstofa Reykjaness fyrir opnum fundi um ferðamál í Lighthouse Inn Hotel í Garðinum. Um 30 manns mættu á fundinn, enda er ferðaþjónustan mjög vaxandi á svæðinu. Góðar umræður urðu á fundinum og er ljóst að mikill áhugi er á þessum málum.

Víkin víkur.

Nú í vikunni var hafist handa við að brjóta niður og fjarlægja húsið Vík, sem undanfarin ár hefur staðið autt og með laskað þak. Þessu framtaki ber að fagna, enda stóð húsið á áberandi stað við aðalgötu bæjarins og af því hefur verið lýti, auk þess sem af því hefur verið fok-og slysahætta. Hér er mynd sem var tekin þegar byrjað var að brjóta húsið niður.

Veðrið.

Að undanförnu hefur verið vetrartíð, með umhleypingum. Snjór hefur verið með mesta móti í Garðinum undanfarnar tvær vikur. Nú um miðja vikuna hlýnaði og hóf að rigna, með tilheyrandi bráðnun. Í febrúar mánuði má alltaf búast við vetrarveðrum, eins og reyndin hefur verið undanfarið, en með hverri vikunni styttist í vorið.

Góða helgi.

Facebooktwittergoogle_plusmail