49. vika 2017.

Nokkuð er síðan Molar úr Garði birstust síðast. Fyrir því eru ýmsar ástæður, m.a. það að bæjarstjórinn fór í stutt frí í nóvember og svo gerðist það að síðan lá niðri vegna bilunar hjá hýsingaraðila. En nú er þráðurinn tekinn upp að nýju.

Aðventan.

Nú er Aðventan gengin í garð og óðum styttist í Jól. Mikið var um að vera í Garði sl. sunnudag, sem var sá fyrsti í Aðventu. Messa var í Útskálakirkju, Kvenfélagið Gefn hélt sinn árlega jólabasar og jólamarkaður var í byggðasafninu á Garðskaga. Góð þátttaka var í öllum viðburðum dagsins, enda alltaf ákveðin hátíðarstemmning þegar Aðventa gengur í garð.

Síðast en ekki síst voru ljósin tendruð á jólatrénu í miðbænum fyrsta sunnudag í Aðventu, samkvæmt venju.  Dagskrá var með hefðbundnu sniði með kærleikshugvekju, söng og jólasveinum. Að venju sá yngsti nemandi Gerðaskóla um að tendra ljósin, að þessu sinni var það hann Magnús Máni Guðnason. Þá buðu drengir í 4. flokki Reynis/Víðis upp á heitt súkkulaði og piparkökur. Fjölmenni mætti, enda var veður einstaklega gott og aðstæður eins og best verður á kosið.

Bæjarstjórn.

Í vikunni var síðasti fundur á þessu ári hjá bæjarstjórn. Fjárhagsáætlun fyrir árið 2018 var afgreidd og tilnefndir voru fulltrúar í stjórn til undirbúnings að stofnun nýs sveitarfélags við sameiningu Garðs og Sandgerðisbæjar. Bæjarstjórn samþykkti verklagsreglur við úthlutun byggðakvóta og auk þess voru ýmsar fundargerðir nefnda, ráða og stjórna á dagskrá. Afgreiðsla bæjarstjórnar á fjárhagsáætlun að þessu sinni markaði nokkur tímamót. Annars vegar er þetta síðasta fjárhagsáætlun sem núverandi bæjarstjórn vinnur og afgreiðir þar sem kjörtímabili bæjarstjórnar lýkur í maí á næsta ári. Hins vegar er þetta síðasta fjárhagsáætlun sem afgreidd er í nafni Sveitarfélagsins Garðs, þar sem sveitarfélagið mun sameinast Sandgerðisbæ við næstu sveitarstjórnarkosningar. Nánari upplýsingar um fjárhagsáætlun eru á heimasíðunni svgardur.is.

Kvenfélagið Gefn 100 ára.

Á morgun, laugardag heldur Kvenfélagið Gefn afmælishátíð í tilefni þess að liðin eru 100 ár frá stofnun kvenfélagsins. Saga kvenfélagsins í 100 ár er um margt merkileg og athyglisverð, félagið hefur allan þennan tíma haldið úti öflugu starfi og lagt mikið af mörkum í þágu samfélagsins og fólksins í Garði. Innilega til hamingju kvenfélagskonur, með þennan merka áfanga í starfi Kvenfélagsins Gefnar.

Hangikjötsveisla Víðis.

Í hádeginu í dag bauð Víðir sínum stuðningsaðilum í hádegismat í Víðishúsinu, þar sem boðið var upp á dýrindis hangikjöt og meðlæti. Fjölmenni mætti og naut matarins, enda býr Víðir vel að mörgum og öflugum stuðningsaðilum. Takk fyrir og áfram Víðir.

Veðrið.

Veðrið undanfarna viku hefur verið með besta móti. Að mestu hægviðri en nokkuð svalt, að vísu kom norðan skot með vindi einn sólarhring. Þegar þetta er skrifað á föstudegi er hægviðri og sól, en frostið er um 6 gráður.

 

 

Facebooktwittergoogle_plusmail