45. vika 2017.

Kosningar um sameiningu sveitarfélaga.

Á morgun laugardaginn 11. nóvember fer fram atkvæðagreiðsla meðal íbúa Garðs og Sandgerðisbæjar, um það hvort sveitarfélögin sameinist. Undanfarna tvo mánuði hefur málið verið kynnt. Ýmsum gögnum og upplýsingum hefur verið komið á framfæri við íbúa, á sérstakri upplýsingasíðu og á heimasíðum sveitarfélaganna, á Facebook síðu, dreift hefur verið kynningarbæklingum og öðru efni í hvert hús, loks voru haldnir íbúafundir í báðum sveitarfélögum í upphafi þessarar viku. Nú er komið að því að íbúarnir taka ákvörðun um hvort af sameiningu verður eða hvort sveitarfélögin halda áfram starfsemi eins og nú er. Kjósendur eru eindregið hvattir til að taka þátt í atkvæðagreiðslunni, það er mikilvægt að sem flestir taki þátt. Kjörfundur í Garði verður í Gerðaskóla milli kl. 9:00 og 22:00 á morgun. Á sama tíma verður kjörfundur í Grunnskólanum í Sandgerði.

Eftir að kjörfundi lýkur kl. 22:00 annað kvöld munu kjörstjórnir á hvorum stað telja atkvæðin. Gert er ráð fyrir að niðurstöður liggi fyrir um eða upp úr kl. 23:00. Formenn kjörstjórna munu síðan tilkynna niðurstöður og verða Víkurfréttir með beina útsendingu frá því á vf.is

Bæjarráð.

Bæjarráð fundaði í vikunni. Fjallað var um fjárhagsáætlun næsta árs og farið yfir framkvæmdir á þessu ári. Í tilefni þess að sl. sunnudag urðu Suðurnesin öll meira og minna rafmagnslaus, ályktaði bæjarráð um óöruggt flutningskerfi raforku á svæðið. Aðeins ein flutningslína sér Suðurnesjum fyrir raforku, sem felur í sér mikið óöryggi enda hefur allt of oft orðið rafmagnslaust á öllum Suðurnesjum þegar bilun verður í þessu einfalda flutningskerfi. Bæjarráð beinir því til stjórnvalda og Landsnets að hið allra fyrsta verði ráðist í framkvæmdir við aðra flutningslínu, svonefnda Suðurnesjalínu 2 enda geta íbúar og atvinnufyrirtæki, þar á meðal alþjóðaflugvöllurinn, ekki búið við þetta óöryggi öllu lengur.

Ný deiliskipulög.

Í byrjun vikunnar voru auglýst tvö deiliskipulög fyrir íbúðarhverfi í Garðinum. Nokkur eftirspurn hefur verið eftir íbúðarlóðum og er von til þess að uppbygging íbúðarhúsnæðis fari á fulla ferð þegar deiliskipulögin hafa verið staðfest og lóðir tilbúnar til úthlutunar.

Herrakvöld Víðis.

Annað kvöld, laugardagskvöld verður herrakvöld Víðis. Þessi herrakvöld eru orðin víðfræg, enda kraftur í Víðismönnum og er víst að á morgun verði mikil gleði og skemmtilegheit á herrakvöldinu.

Handverk í Auðarstofu.

Á morgun laugardag verður handverkssýning og kaffisala í Auðarstofu að Heiðartúni 2, þar sem félagsstarf aldraðra og öryrkja hefur starfsaðstöðu. Opið verður milli kl. 13:00 og 17:00 og eru Garðbúar og gestir hvattir til að líta við í Auðarstofu.

Góða helgi !

 

Facebooktwittergoogle_plusmail