44. vika 2017.

Bæjarstjórn.

Bæjarstjórn fundaði í vikunni og voru að venju mörg og mismunandi mál á dagskrá. Fram fór fyrri umræða um fjárhagsáætlun, en áætlunin hefur ekki tekið á sig endanlega mynd og verður áfram til vinnslu fram að síðari umræðu í byrjun desember. Bæjarstjórn samþykkti húsnæðisáætlun sveitarfélagsins og hefur hún verið birt á heimasíðunni, en Garður er í hópi nokkurra sveitarfélaga sem hafa samþykkt húsnæðisáætlanir. Þá samþykkti bæjarstjórn að auglýsa breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins, sem og breytingu á deiliskipulagi Teiga-og Klapparhverfis og nýtt deiliskipulag íbúðarhverfis sunnan Skagabrautar í Útgarði. Að öðru leyti fjallaði bæjarstjórn um ýmsar fundargerðir nefnda og ráða.

Malbikun Garðvegar.

Slæmt ástand Garðvegar hefur valdið bæjaryfirvöldum og íbúum áhyggum og óþægindum að undanförnu, enda var ástand vegarins beinlínis orðið að slysagildru. Fulltrúar sveitarfélagsins hafa verið í samskiptum við Vegagerðina undanfarin ár vegna þessa og þá sérstaklega nú á þessu ári. Þá hafa íbúar í Garði einnig lagt sitt af mörkum við að vekja athygli á slæmu ástandi vegarins. Það er því fagnaðarefni að nú í vikunni réðst Vegagerðin í að malbika hluta vegarins. Vegagerðin fær þakkir fyrir þetta framtak, nú geta vegfarendur ekið á rennisléttu og nýju malbiki á stórum hluta Garðvegar. Þótt svo vegurinn sé orðinn sléttur og fínn, þá eru vegfarendur hvattir til varúðar í umferðinni.

          

Sameining sveitarfélaga.

Nú líður óðum að atkvæðagreiðslu íbúa þann 11. nóvember, um tillögu um sameiningu Garðs og Sandgerðisbæjar. Nú í vikunni var dreift kynningarefni í öll hús í sveitarfélögunum, viðtal var við forseta bæjarstjórna sveitarfélaganna í Víkurfréttum, í gærkvöldi var kynningarfundur á vegum Ungmennaráðs í Garði og framundan eru íbúafundir um málið. Íbúafundur verður í Gerðaskóla á mánudaginn kl. 20 og í Grunnskólanum í Sandgerði á þriðjudag kl. 20. Þá er sem fyrr kynningarefni og upplýsingar að finna á vefsíðum sveitarfélaganna og á upplýsingasíðunni sameining.silfra.is. Þar að auki er opin síða á Facebook með upplýsingum. Íbúar eru hvattir til að kynna sér málið og umfram allt mæta á kjörstað laugardaginn 11. nóvember og taka þátt í atkvæðagreiðslunni. Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar er hjá sýslumönnum og sendiráðum erlendis.

Snyrstistofan Vallý í Garði.

Fyrir stuttu var opnuð Snyrtistofan Vallý í Sunnubraut 4 í Garði. Snyrtistofan er í eigu Valgerðar Einarsdóttur snyrtifræðings og býður hún upp á ýmiskonar snyrtiþjónustu. Við fögnum opnun nýrrar starfsemi og óskum Vallý góðs gengis.

Framtíðarsýn fyrir Suðurnes.

Nú í vikunni var á vegum Isavia, Kadeco og Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum unnið að framtíðarsýn fyrir Suðurnesin til ársins 2040. Unnið var út frá aðferðafræði sviðsmyndagreininga og var verkefninu stýrt af sérfræðingum KPMG. Svona verkefni eru alltaf áhugaverð og fá þátttakendur til þess að hugsa fram í tímann, velta fyrir sér tækifærum og mögulegri þróun mála til framtíðar ásamt því að opna sýn á hvað þarf að gerast til þess að tilteknar sviðsmyndir verði að veruleika. Mikil og hröð þróun hefur verið á Suðurnesjum síðustu misseri og ár og er líklegt að á því verði framhald næstu árin. Það er því mikilvægt að reyna að sjá ýmsa hluti fyrir og taka ákvarðanir bæði til að bregðast við hraðri þróun og ekki síður til þess að undirbúa að mæta þróuninni. Við á Suðurnesjum stöndum frammi fyrir ögrandi og spennandi verkefnum og þessar framtíðar pælingar eru sannarlega mikilvægar í því samhengi.

Mánaðaskipti.

Nú hefur október runnið sitt skeið á enda og nóvember runninn upp. Árið styttist í annan endann og fyrr en varir renna upp áraskipti. Veðurfarið hefur verið þokkalegt og lítið ennþá farið fyrir kuldatíð sem oft fylgir þessum árstíma. Milt veður hefur komið sér vel varðandi ýmis verkefni og framkvæmdir, sem hefur verið unnið að undanfarið eins og um sumartíma væri að ræða. Sem dæmi um það voru malbikunar framkvæmdir á Garðvegi nú í vikunni.

Góða helgi !

 

Facebooktwittergoogle_plusmail