43. vika 2017.

Bæjarráð

Bæjarráð fundaði í vikunni. Af ýmsum málum sem voru á dagskrá fundarins má nefna að drög að fjárhagsáætlun voru til umfjöllunar, vinnu við fjárhagsáætlun er ekki lokið en hún kemur til fyrri umræðu í bæjarstjórn í næstu viku. Þá ályktaði bæjarráð um mögulega gjaldtöku á áningarstöðum fyrir ferðamenn, mál sem hefur verið til umfjöllunar á vettvangi Reykjanes Jarðvangs. Bæjarráð lítur svo á að gjaldtaka komi til greina en líta þurfi m.a. til eðlilegs aðgengis íbúa ef um er að ræða áningarstaði sem eru hluti af þéttbýli. Loks má nefna að bæjarráð samþykkti samhljóða verkefnaáætlun um samstarfsverkefni sveitarfélaganna Garðs, Sandgerðisbæjar og Reykjanesbæjar með Kadeco og Isavia varðandi atvinnu-og þróunarsvæði á Miðnesheiði í við Keflavíkurflugvöll.

Lýðheilsugöngur

Nú í september stóð Ferðafélag Íslands fyrir lýðheilsugöngum í samstarfi við sveitarfélög í landinu. Dagskráin var í tilefni 90 ára afmælis ferðafélagsins. Ýmsir aðilar og félagasamtök tóku að sér að skipuleggja og leiða fimm lýðheilsugöngur í Garði. Nú í vikunni bauð lýðheilsufulltrúi sveitarfélagsins þessum aðilum í stutta samveru á bæjarskrifstofunni og þakkaði fyrir þeirra þátt í lýðheilsugöngunum, afhenti þakkargjöf frá Ferðafélagi Íslands og tók þessa mynd af því tilefni. Sveitarfélagið þakkar skipuleggjendum og fararstjórum ganganna fyrir þeirra framlag. Einnig er þakkað skemmtilegt frumkvæði Ferðafélags Íslands og samstarf um þessar lýðheilsugöngur, en mjög góð þátttaka var í þeim af íbúum sveitarfélagsins.

Sameining sveitarfélaga – íbúafundir og kynningarefni

Nú eru tvær vikur þar til íbúar sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðisbæjar greiða atkvæði um hvort sveitarfélögin sameinast eða ekki. Í næstu viku verður dreift kynningarefni og upplýsingum í öll hús í sveitarfélögunum báðum. Mánudaginn 6. nóvember verður íbúafundur um málið í Gerðaskóla í Garði og þriðjudaginn 7. nóvember í Grunnskólanum í Sandgerði. Þar verður farið yfir málið og íbúum gefst kostur á að afla sér upplýsinga. Á heimasíðum sveitarfélaganna; svgardur.is og sandgerdi.is má fara inn á upplýsingasíðuna sameining.silfra.is, þar sem eru upplýsingar um málið og þar má finna skýrslu KPMG sem inniheldur miklar upplýsingar. Auk þess er bent á Facebook síðuna Kosningar um sameiningu Sandgerðis og Garðs, þar sem eru einnig ýmsar upplýsingar.  Íbúar eru hvattir til að kynna sér málið og taka þátt í atkvæðagreiðslunni þann 11. nóvember.

Alþingiskosningar á morgun

Á morgun, laugardaginn 28. október fara fram kosningar til Alþingis. Kjósendur eru hvattir til að mæta á sína kjörstaði og njóta þeirra forréttinda að taka þátt í lýðræðislegum kosningum. Vonandi verða niðurstöður kosninganna þjóðinni til heilla.

Október að líða hjá !

Sem fyrr líður tíminn hratt áfram og nú er komið að lokum október mánaðar! Við njótum þess að ennþá hefur lítið borið á haustveðrum og þaðan af síður hefur orðið kuldatíð með éljum og snjókomu, eins og oft hefur verið á þessum árstíma. Víða er ennþá unnið að verkefnum sem að öllu jöfnu tilheyra sumrinu, svo sem jarðvinnu og ýmsum framkvæmdum. Nóvember er handan við hornið og ekki er laust við að einhverjir séu þegar farnir að undirbúa komu Jóla.

Góða kosningahelgi !

 

 

Facebooktwittergoogle_plusmail