42. vika 2017.

Þessi vika einkenndist eins og flestar aðrar vikur hjá bæjarstjóranum af mikilvægum verkefnum á bæjarskrifstofunni, þar sem nú stendur hæst lokasprettur við gerð fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár. Fyrri umræða um fjárhagsáætlun fer fram í bæjarstjórn 1. nóvember. Þá voru í vikunni ýmsir mikilvægir og áhugaverðir fundir, þar sem fjallað var um brýn málefni.

Húsnæðisþing.

Fyrsta Húsnæðisþing Íbúðalánasjóðs var haldið á mánudaginn. Þar voru húsnæðismálin í víðum skilningi til umræðu og var þingið vel heppnað. Meðal annars voru til umfjöllunar húsnæðisáætlanir sveitarfélaga, en við í Garði erum í hópi nokkurra sveitarfélaga sem höfum lokið við vinnslu húsnæðisáætlunar. Undirritaður tók þátt í pallborðsumræðu um húsnæðisáætlanir sveitarfélaga, sem eru gott stjórntæki til stefnumótunar.

Samtök atvinnulífsins.

Á miðvikudag var hádegisfundur Samtaka atvinnulífsins, þar sem farið var yfir vinnumarkaðsmál og efnahagsmál almennt. Við höfum nú lifað eitt lengsta samfellda hagvaxtarskeið í sögu þjóðarinnar og erum líklega á hápunkti hagsveiflunnar. Framundan eru mikilvægar ákvarðanir og kjarasamningar sem munu hafa afgerandi áhrif á efnahag þjóðarinnar næstu misseri og ár. Vonandi tekst vel til í þeim efnum, en hættan er sú að við lendum í enn einni niðursveiflunni með tilheyrandi efnahagslegum áföllum, sem eins og venjulega munu fyrst og fremst bitna á almenningi. Þetta var áhugaverður og upplýsandi fundur.

Sameiningarmál í Auðarstofu.

Það líður óðum að atkvæðagreiðslu íbúa Garðs og Sandgerðis um það hvort sveitarfélögin sameinast. Á miðvikudag var undirritaður á mjög góðum fundi í Auðarstofu, þar sem er félagsstarf aldraðra og  öryrkja. Þar var farið yfir helstu niðurstöður og upplýsingar um hugsanlega sameiningu og urðu góðar og fjörlegar umræður. Fundurinn var góður og málefnalegur, eðlilega eru skiptar skoðanir en aðal málið er að íbúar afli sér upplýsinga, taki afstöðu og taki síðan þátt í atkvæðagreiðslunni 11. nóvember.

Fjárveitingar til stofnana á Reykjanesi.

Að frumkvæði Reykjanesbæjar var áhugaverður fundur á fimmtudag, þar sem farið var yfir fjárveitingar ríkisins til stofnana og þjónustu á Suðurnesjum. Þar komu fram mjög sláandi upplýsingar um það hvað Suðurnesin eru vanhaldin af fjárveitingum miðað við aðra landshluta, sérstaklega ef litið er til þess hvað íbúum á svæðinu hefur fjölgað mikið undanfarin 2-3 ár og hve gríðarleg aukning hefur verið í umferð um Keflavíkurflugvöll. Það er nánast sama hvert er litið í þessum efnum og er alger og skýr krafa um að þetta verði leiðrétt. Íbúar á Suðurnesjum geta ekki lengur búið við það að vera skör lægra settir en samlandar okkar á öðrum landsvæðum. Á fundinum voru mættir frambjóðendur til Alþingis og fengu þessar staðreyndir beint í æð. Þeir sem ná kjöri eiga mikið verk fyrir höndum við að bæta hag Suðurnesjamanna.

Nemendaráð Gerðaskóla.

Eins og alltaf kjósa nemendur Gerðaskóla fulltrúa sína í nemendaráð fyrir skólaárið. Nemendaráðið hefur mikilvægu hlutverki að gegna, sérstaklega varðandi félagslíf nemenda. Hér er mynd af nýju nemendaráði í Gerðaskóla.

Sem fyrr er tíminn fljótur að líða, október mánuður líður hratt og öruggt áfram. Framundan eru alþingiskosningar og síðan atkvæðagreiðsla íbúa sveitarfélagsins 11. nóvember um það hvort verður af sameiningu Garðs og Sandgerðisbæjar. Íbúar eru hvattir til að kynna sér upplýsingar um málið á heimasíðu sveitarfélagsins, svgardur.is.

Góða helgi !

 

 

Facebooktwittergoogle_plusmail