41. vika 2017.

Vinaliðar.

Nú í vikunni fór fram þjálfun nemenda í Gerðaskóla til að vera vinaliðar.  Vinaliðar stjórna m.a. leikjum á skólalóð í frímínútum, með það að markmiði að vinna gegn einelti og bjóða upp á jákvæða afþreyingu á skólalóð í frímínútum. Eitt helsta verkefni vinaliðanna er að hvetja nemendur til þátttöku í leikjum og huga sérstaklega að nemendum sem eru aleinir í frímínútum. Þetta verkefni er að norskri fyrirmynd og í dag eru um 50 grunnskólar í landinu aðilar að verkefninu. Nemendur fá vinaliða þjálfun tvisvar á skólaári, meðan samningur þar um er í gildi milli skólans og vinaliðanna. Frábært framtak sem hefur gengið vel í Gerðaskóla. Hér er mynd frá þjálfun vinaliðanna í vikunni.

   

Starfsgreinakynning.

Í vikunni stóð Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum, ásamt fyrirtækjum og stofnunum á Suðurnesjum, fyrir kynningu á starfsgreinum. Kynningin var ætluð nemendum í 8. – 10. bekkjum grunnskólanna á Suðurnesjum. Þetta verkefni er hluti af Sóknaráætlun Suðurnesja. Meðal þeirra starfsgreina sem voru kynntar eru störf flugmanna, flugreyja, lögreglu og leiðsögumanna. Einnig kennara, slökkviliðsmanna, rafeindafræðinga o.m.fl. Fjöldi ungmenna sóttu kynninguna og var gerður að henni góður rómur.

    

Bæjarráð.

Bæjarráð fundaði í vikunni. Ýmis mál á dagskrá eins og venjulega, en hæst bar að bæjarráð samþykkti að standa að samningi við ríkið um uppgjör á lífeyrisskuldbindingum vegna reksturs hjúkrunarheimila Dvalarheimilis aldraðra á Suðurnesjum. Mikill og góður áfangi að leysa úr þessu máli, sem hefur mjög lengi valdið deilum milli ríkisins og sveitarfélaga sem hafa tekið að sér að reka hjúkrunarheimili aldraðra fyrir ríkið. Þá var fjallað um fjárhagsáætlun næsta árs og samþykkt tillaga um álagningarhlutfall útsvars árið 2018. Loks lá fyrir endanleg tillaga um húsnæðisáætlun fyrir sveitarfélagið og beindi bæjarráð því til bæjarstjórnar að samþykkja húsnæðisáætlunina.

Sameining sveitarfélaga.

Nú styttist óðum í að íbúar Garðs og Sandgerðisbæjar kjósi um hvort sveitarfélögin verði sameinuð, en kosningin fer fram laugardaginn 11. nóvember. Opnuð hefur verið vefsíða þar sem deilt er ýmsum upplýsingum og kynningarefni, ásamt því að þar koma fram svör við ýmsum spurningum sem upp koma varðandi málið. Vefslóðin er sameining.silfra.is, en einnig má fara á síðuna gegnum heimasíður sveitarfélaganna, svgardur.is og sandgerdi.is. Þá hefur verið opnuð Facebook síðan Kosningar um sameiningu Sandgerðis og Garðs, þar sem einnig mun birtast kynningarefni og upplýsingar. Á næstu dögum verður dreift upplýsingabæklingum í öll hús í Garði og Sandgerði. Frekari kynningar verða auglýstar síðar, m.a. íbúafundir um málið.  Íbúar eru hvattir til að kynna sér efnið, taka afstöðu og umfram allt að mæta á kjörstað og taka þátt í kosningunni 11. nóvember.

Víkingarnir slá í gegn.

Söngsveitin Víkingarnir taka þátt í skemmtilegum þætti á Stöð 2, þar sem hinir ýmsu kórar koma fram keppa um framgang. Víkingarnir komu fram í þættinum 24. september, slógu í gegn og áhorfendur kusu þá áfram í keppninni. Þetta er frábær árangur hjá Víkingunum, enda var framlag þeirra í þættinum mjög vel heppnað og þeir flottir karlarnir. Það verður gaman að fylgjast með hvernig þeim gengur í framhaldinu. Til hamingju Söngsveitin Víkingar !

Fjárhagsáætlun.

Nú stendur sem hæst vinna við fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2018 og rammaáætlun fyrir næstu þrjú ár þar á eftir. Fyrri umræða um fjárhagsáætlun fer fram 1. nóvember, en bæjarstjórn þarf síðan að ljúka við afgreiðslu fjárhagsáætlunar fyrir 15. desember. Þrátt fyrir að svo geti farið að sveitarfélagið sameinist Sandgerðisbæ, þá vinna sveitarfélögin sínar fjárhagsáætlanir samkvæmt venju enda mun nýtt sameinað sveitarfélag ekki taka til starfa fyrr en í júní á næsta ári, fari svo að sameining verði samþykkt.

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail