Skagagarðurinn mikli

Það er margt athyglisvert að finna í Garðinum.  Saga búsetu og atvinnulífs nær aftur til landnáms og tengist saga Garðs mjög sjósókn og fiskvinnslu. Hitt er ekki síður merkilegt að heimildir eru um öflugan landbúnað á svæðinu fyrr á öldum, þar á meðal um umfangsmikla kornrækt.  Minjar um mikið mannvirki sem talið er tengjast landbúnaði er að finna í Garðinum og nær það yfir í næsta sveitarfélag, nefnilega Sandgerðisbæ.  Þetta mannvirki er Skagagarðurinn mikli, sem telja má einhverjar merkustu fornminjar landsins, sem gefur vísbendingu um löngu horfna atvinnuhætti.

Skagagarðurinn lá frá bænum Kirkjubóli í Sandgerðisbæ og norður til Útskála í Garði.  Við báða enda garðsins tóku við miklir túngarðar og er talið að þessi mannvirki hafi girt með öllu fyrir skagann.  Talið er að Skagagarður hafi verið um 1500 metra langur, um einn og hálfur metri á hæð og það breiður að talið er að tveir menn hafi getað riðið hestum hlið við hlið ofan á garðinum.  Rannsóknir jarðfræðinga hafa leitt í ljós að garðurinn hafi verið hlaðinn upp um eða fyrir 10. öld.  Talið er að garðinum hafi verið ætlað að halda sauðfé frá kornökrum á norðanverðum skaganum.

Enn má sjá móta fyrir Skagagarði í Garðinum.  Á myndinni hér að neðan er gömul teikning sem sýnir hvernig garðurinn er talinn hafa legið, frá Kirkjubóli og í norð-austur átt að Útskálum í Garði.

 

Skagagarðurinn
Skagagarðurinn

 

 

Facebooktwittergoogle_plusmail