39. vika 2017.

Reykjanes, sjálfbær áfangastaður.

Nú í vikunni var tilkynnt að Reykjanes hafi verið valið einn af 100 sjálfbærustu áfangastöðum í heimi árið 2017. Listi með þessum áfangastöðum var birtur sl. miðvikudag á alþjóðlegum degi ferðaþjónustunnar, en dagurinn í ár er helgaður sjálfbærri ferðaþjónustu. Það eru alþjóðlegu samtökin Green Destinations sem standa að valinu, eins og samtökin hafa gert mörg undanfarin ár. Reykjanes er eini íslenski áfangastaðurinn sem kemst á þennan lista í ár, en meðal áfangastaða á listanum eru Los Angeles, Niagarafossar, Asoreyjar, Höfðaborg, Svalbarði og Ljubliana. Þetta er mikilvæg viðurkenning fyrir Reykjanesið í heild sinni og afar ánægjuleg. Mikið starf hefur verið unnið á undanförnum árum hjá stoðstofnunum, sveitarfélögum og fyrirtækjum í þeim anda sem viðurkenningin felur í sér. Reykjanes Jarðvangur og Markaðsstofa Reykjaness hafa m.a. leitt vinnu við gerð áfangastaðaáætlunar fyrir Reykjanes og er sú vinna lengra komin hér en annars staðar á landinu, m.a. vegna samstöðu sveitarfélaganna um gerð Svæðisskipulags fyrir Suðurnesin.

Þessi viðurkenning mun skila sér í aukinni athygli á Reykjanes í heild og ætti að ýta undir áhuga innlendra og erlendra ferðamanna að heimsækja Reykjanesið og njóta þess sem svæðið býður upp á. Þetta er ekki fyrsta alþjóðlega viðurkenningin sem Reykjanesið fær, en Reykjanes Geopark, eða Reykjanes Jarðvangur hefur hlotið viðurkenningu UNESCO og starfar undir merkinu „Reykjanes Unesco Global Geopark“. Kjartan Már Kjartansson formaður stjórnar Reykjanes Geopark veitti viðurkenningu Green Destinations móttöku í gær, fyrir hönd Reykjanes Geopark. Frekari upplýsingar má vinna á vef samtakanna greendestinations.org/2017, eða hjá Þuríði hjá Markaðsstofu Reykjaness.

Bæjarráð.

Fundur var í bæjarráði í vikunni. Mest fór fyrir fjárhagslegum málefnum á dagskrá fundarins. Þar á meðal var lögð fram útkomuspá um rekstur sveitarfélagsins á þessu ári. Útlit er fyrir að rekstrarniðurstaða verði ekki lakari en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun ársins, þannig að rekstur og fjárhagur sveitarfélagsins stendur áfram á traustum fótum. Þá var fjallað um forsendur fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár, en vinna við gerð fjárhagsáætlunar stendur yfir og mun ljúka með afgreiðslu bæjarstjórnar í byrjun desember. Fjárhagsáætlun fyrir næsta ár er unnin með hefðbundnum hætti, þótt svo framundan séu kosningar meðal íbúanna um hvort sveitarfélagið verði sameinað Sandgerðisbæ. Þá má nefna að bæjarráð samþykkti að vinna með öðrum sveitarfélögum á Suðurnesjum að því að setja samræmda lögreglusamþykkt sem gildi í umdæmi Lögreglustjórans á Suðurnesjum.

Lýðheilsuganga.

Síðasta skipulagða lýðheilsuganga mánaðarins var í mörgum sveitarfélögum landsins sl. miðvikudag. Hér í Garði voru tvær skipulagðar göngur. Annars vegar á vegum Auðarstofu, félagsstarfs aldraðra. Gengið var frá gamla vitanum á Garðskaga og göngustíginn með ströndinni að Útskálakirkju. Ingibjörg og Sigurborg Sólmundardætur forstöðukonur félagsstarfsins leiddu gönguna, en Ásgeir Hjálmarsson sagði m.a. frá síðustu ferð MS Goðafoss sem sökkt var af þýska sjóhernum út af Garðskaga í síðari heimsstyrjöldinni.  Hins vegar var á vegum Hreystihóps eldri borgara gengið frá golfskálanum í Leiru upp að Prestsvörðu í leiðsögn Kristjönu Kjartansdóttur. Þar sagði Kristjana frá sögu Sr. Sigurðar Sívertsen sem hafðist við yfir nótt á þeim stað sem varðan er og lifði af aftakaveður. Góð þátttaka var í báðum göngunum og var veður hið besta, sól og hægviðri. Lýðheilsugöngurnar í Garði hafa tekist vel og þátttaka verið góð. Göngurnar hafa verið með sögulegu ívafi þar sem leiðsögufólk hefur rakið sögu þeirra svæða sem gengið var um. Sveitarfélagið þakkar öllum þeim sem hafa tekið að sér leiðsögn lýðheilsuganganna og öllum þeim sem hafa mætt og tekið þátt. Loks þökkum við Ferðafélagi Íslands fyrir frumkvæðið að lýðheilsugöngunum, sem voru skipulagðar í tilefni 90 ára afmælis félagsins. Til hamingju með afmælið Ferðafélag Íslands !

Hér eru myndir frá báðum göngunum á miðvikudag.

Útsvarið.

Í kvöld, föstudag mun lið Garðs etja kappi við lið Grindavíkur í Útsvari Sjónvarpsins. Við óskum þeim Jóni Bergmann, Aðalbirni Heiðari og Elínu Björk góðs gengis og hvetjum alla Garðbúa fyrr og nú til að senda þeim öfluga strauma. Hér er mynd af liði Garðs, kát og glöð og tilbúin í slaginn. Áfram Garður !

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Nú um helgina verður aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS) haldinn í Fjölbrautarskóla Suðurnesja. Auk venjulegra aðalfundarstarfa verða ýmis málefni til umræðu á fundinum. Aðalfundur SSS er mikilvægur vettvangur fyrir sveitarstjórnarfólk til þess að ræða um sameiginleg hagsmunamál sveitarfélaganna og móta stefnu til framtíðar.

Heilsu-og forvarnavika á Suðurnesjum.

Í næstu viku verður Heilsu- og forvarnavika á Suðurnesjum, um er að ræða samstarfsverkefni allra sveitarfélaganna á Suðurnesjum. Markmiðið með heilsu- og forvarnavikunni er að draga úr þeim áhættuþáttum sem einstaklingar geta staðið frammi fyrir á lífsleiðinni og hlúa að verndandi þáttum með þátttöku allra íbúa sveitarfélaganna.

Vonast er til að fyrirtæki, stofnanir, félagasamtök, íþróttafélög og deildir og ýmis tómstundafélög í öllum fimm sveitarfélögunum á Suðurnesjum, taki virkan þátt í verkefninu og bjóði bæjarbúum upp á fjölbreytta og heilsutengda viðburði, tilboð á heilsusamlegum vörum, kynningum og öðru slíku, sem höfðar til sem flestra íbúa.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðum sveitarfélaganna og á vef Víkurfrétta. Hugsum um heilsuna og tökum þátt !

Leikskólinn Gefnarborg og heilsuvikan.

Leikskólinn mun taka virkan þátt í Heilsu-og forvarnavikunni í næstu viku. Á Facebook síðu leikskólans má m.a. sjá auglýsingu frá leikskólanum þar sem foreldrar eru hvattir til að hjóla eða ganga í leikskólann með börnum sínum þessa viku.

Mánaðamót.

Tíminn flýgur hratt, nú er enn og aftur komið að mánaðamótum. Haustið sígur að og jólin nálgast óðfluga. Þótt svo enn sé september, þá eru ýmsar verslanir þegar farnar að tefla fram jólavörum!

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail