38. vika 2017.

Útsvarið.

Lið Sveitarfélagsins Garðs mun eins og á síðasta hausti taka þátt í spurningakeppninni Útsvar í Sjónvarpi RUV.  Lið Garðs hefur verið valið, eftirtalin skipa liðið að þessu sinni: Jón Bergmann Heimisson, Aðalbjörn Heiðar Þorsteinsson og Elín Björk Jónasdóttir, sem tók þátt fyrir Garð á síðasta ári. Fyrsta viðureign þeirra verður við sigursælt lið Grindavíkur föstudaginn 29. september nk.  Við óskum okkar fólki góðs gengis í Útsvarinu.  Hér eru myndir af útsvarsliði Garðs við undirbúning.

Framkvæmdir við fráveitu.

Undanfarið hefur verið unnið að úrbótum á fráveitu sveitarfélagsins. Gamlar útrásir fráveitunnar við hafnarsvæðið verða aflagðar en fráveitan tengd við megin útrás út af Þorsteinsbúð. Verkinu er nú nánast lokið, verktaki er Tryggvi Einarsson og hefur verkið gengið vel. Þetta er mikilvægur áfangi í úrbótum á fráveitu sveitarfélagsins og ánægjulegt að honum sé lokið. Hér eru myndir af framkvæmdinni, þar sem m.a. má sjá hve djúpt þarf að grafa til að koma frárennslis lögnum fyrir.

Tónlistarskólinn og félagsmiðstöðin.

Unnið er að því að bæta aðstöðu tónlistarskólans, sem fær allt húsið Sæborgu til afnota en félagsmiðstöðin mun flytjast í Heiðartún 2. Með þessum aðgerðum mun tónlistarskólinn búa við mjög góða aðstöðu, en skólinn hefur verið í þröngu og alls ófullnægjandi aðstöðu í hluta hússins. Félagsmiðstöðin mun flytjast í sama hús og félagsstarf aldraðra er með aðstöðu, þar mun fara vel um kynslóðirnar og verður hluti húsnæðisins nýtanlegur fyrir bæði félagsmiðstöðina og félagsstarf aldraðra. Með þessari breytingu má segja að Heiðartún 2 verði hús kynslóðanna. Framkvæmdir standa yfir og er von til að þeim ljúki fljótlega.

Lýðheilsugöngur.

Undanfarna miðvikudaga hefur verið góð þátttaka í lýðheilsugöngum hér í Garðinum. Góðir leiðsögumenn hafa leitt göngufólk og hafa göngurnar verið með sögulegu ívafi. Hér eru myndir frá göngu í síðustu viku, þá var leiðsögumaður Magnús H Guðmundsson kennari og gengið var í blíðuveðri.

Kosning um sameiningu sveitarfélaga.

Eins og fram hefur komið hafa bæjarstjórnir Garðs og Sandgerðisbæjar ákveðið að íbúar sveitarfélaganna kjósi um hvort sveitarfélögin verða sameinuð. Kjördagur var ákveðinn þann 11. nóvember. Eftir að upp kom að alþingiskosningar verða 28. október var spurning hvort breyta eigi kjördegi sameiningarkosninga. Niðurstaðan er að kosning um sameiningu sveitarfélaganna mun fara fram þann 11. nóvember, eins og áður var ákveðið.

Víðir.

Knattspyrnuliði Víðis hefur gengið vel í 2. deildinni í sumar. Nú undir lok leiktíðarinnar var liðið í góðum færum að vinna sæti í 1. deild að ári, en ekki tókst það að þessu sinni. Síðasti leikur mótsins að þessu sinni verður á morgun, laugardag þegar lið Magna frá Grenivík kemur í heimsókn á Nesfiskvöllinn. Annað kvöld verður lokahóf Víðis í samkomuhúsinu og er að vænta mikillar gleði þar, enda full ástæða til að fagna góðu gengi í sumar.

Veðrið.

Haustið er komið, a.m.k. hafa haustlægðir með roki og rigningu gert sig heimakomnar að undanförnu. Það eru því augljós árstíðaskipti um þessar mundir þar sem haustið er að taka yfir eftir sumartíðina, enda eru nú jafndægur að hausti.

Góða helgi !

 

Facebooktwittergoogle_plusmail