Bær hafsins og norðurljósa

Bæjarstjórn Garðs hefur samþykkt stefnumótun um aukna ferðaþjónustu í Garði.  Nú er unnið að því að fylgja stefnunni eftir, vinna úr mörgum hugmyndum sem fram hafa komið og koma verkefnum til framkvæmda.  Margvísleg sóknarfæri eru í Garðinum til þess að auka ferðaþjónustu, fjölga störfum og auka tekjur af ferðaþjónustu í sveitarfélaginu.

Lega sveitarfélagsins nyrst á Reykjanesskaganum er þannig að hafið umlykur það á tvo vegu.  Sögulega séð er helsta tenging Garðsins við hafið, sjósókn og fiskvinnslu, enda eru gjöful fiskimið rétt undan landi.  Á sumardögum má fylgjast með umferð hvala við Garðskaga stutt undan landi.  Á Garðskaga eru tveir vitar sem hafa um langan tíma vísað sjófarendum siglingaleið fyrir Garðskaga.

Norðurljósin eru eftirsótt af ferðafólki, einkum erlendum ferðamönnum.  Mikil umferð ferðamanna er á Garðskaga yfir vetrartímann, í þeim tilgangi að sjá norðurljósin.  Sum kvöld skiptir fjöldi ferðamannanna hundruðum og þegar mest lætur hefur fjöldi þeirra á einu kvöldi verið nærri eitt þúsund. Garðurinn er því eftirsóttur áfangastaður ferðamanna sem leita eftir upplifun við norðurljósin.

Í stefnumótun bæjarstjórnar Garðs er lögð á það áhersla að Sveitarfélagið Garður sé bær hafsins og norðurljósa.

Gamli vitinn yst á Garðskagatá og dansandi norðurljós á stjörnubjörtum himni.
Gamli vitinn og norðurljósin
Facebooktwittergoogle_plusmail