36. vika 2017.

Bæjarstjórnarfundur.

Á miðvikudaginn var fyrsti reglulegi fundur bæjarstjórnar eftir sumarfrí frá fundum. Lagðar voru fram fundargerðir bæjarráðs af fundum þess undanfarnar vikur, einnig voru á dagskrá fundargerðir fastanefnda sveitarfélagsins og af sameiginlegum vettvangi með öðrum sveitarfélögum. Þá fór fram síðari umræða um álit og tillögu samstarfsnefndar um sameiningu sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðisbæjar. Íbúar sveitarfélaganna ákveða með atkvæðagreiðslu laugardaginn 11. nóvember hvort af sameiningu sveitarfélaganna verður. Þess má geta að fundur bæjarstjórnar hófst á hefðbundnum tíma kl. 17:30 og lauk honum 20 mínútum síðar, þannig að bæjarfulltrúar höfðu svigrúm í tíma til að koma sér fyrir framan við sjónvarpsskjái til að fylgjast með landsliði Íslands í knattspyrnu sigra Úkraínu á Laugardalsvelli.

Sameining sveitarfélaga.

Eftir fundi bæjarstjórna Garðs og Sandgerðisbæjar á miðvikudagskvöld var skýrsla KPMG, „Sameining sveitarfélaga – sviðsmyndir um mögulega framtíðarskipan sveitarfélaganna“, birt á heimasíðum sveitarfélaganna. Það kynningarefni sem gefið verður út um málið fram að kosningunum um sameiningu sveitarfélaganna þann 11. nóvember mun birtast á heimasíðunum. Íbúar eru hvattir til að kynna sér málið og taka þátt í atkvæðagreiðslunni þegar þar að kemur.

Gamli vitinn málaður.

Undanfarnar vikur hafa starfsmenn Vegagerðarinnar unnið að viðgerðum og málun gamla vitans á Garðskagatá. Gamli höfðinginn hefur þar með fengið góða andlitslyftingu og er eins og nýr!

Lýðheilsugöngur.

Hátt í 20 manns tóku þátt í lýðheilsugöngu sl. miðvikudag og var gangan að þessu sinni í umsjá Guðríðar S Brynjarsdóttur íþróttakennara. Næsta miðvikudag verður gengið af stað kl. 18:00 frá Gerðaskóla, undir fararstjórn Magnúsar H Guðmundssonar kennara. Íbúar eru hvattir til að taka þátt í þessum skemmtilegu göngutúrum um okkar næsta nágrenni. Lýðheilsugöngur eru í flestum sveitarfélögum á miðvikudögum í september, í tilefni 90 ára afmælis Ferðafélags Íslands. Nánar má finna upplýsingar um lýðheilsugöngur á heimasíðunni fi.is. Nánar um göngur í Garði á heimasíðu sveitarfélagsins, svgardur.is. Hér er mynd af gönguhópnum þegar lagt var í gönguna og önnur af þeim bræðrum Jóni og Ásgeiri Hjálmarssonum að rifja upp gamla takta af barnaleikvellinum.

Dagur læsis er í dag.

Í dag þann 8. september er alþjóðadagur læsis, en árið 1965 ákváðu Sameinuðu þjóðirnar að 8. september skyldi vera dagur læsis ár hvert. Tilgangurinn er að hvetja fólk um allan heim til lestrar, sögusagna eða ljóðalesturs, eða á annan hátt að nota sín tungumál til góðra samskipta. Í anda Sameinuðu þjóðanna eru allir hvattir til að taka virkan þátt í þessu öllu, enda er læsi forsenda fyrir svo mörgu í okkar lífi.

Veðrið.

Þessa vikuna hefur verið ágætt haustveður, en finna má að hitastig fer lækkandi enda færumst við óðum inn í hausttíðina. Þegar þetta er skrifað er bjart veður og sólskin en nokkur norðan gola með svölum vindi.

Góða helgi !

 

Facebooktwittergoogle_plusmail