35. vika 2017.

Tíminn flýgur áfram!

Eins og hendi sé veifað er kominn 1. september og enn ein vikan flogin hjá. Tíminn flýgur áfram og haustið sígur að. Nú er tími uppskerunnar og berjatínslu, vonandi uppskera sem flestir vel. Nú er einnig að renna upp tími haustlitanna í gróðrinum, fyrir mörgum er þessi árstími í uppáhaldi. Ljósaskiptin eru oft ævintýralega falleg, þegar sólin hnígur við sjóndeildarhringinn. Oft má upplifa fegurð ljósaskiptanna á Garðskaga, myndina hér að neðan tók Jóhann Ísberg á Garðskaga eitt kvöldið fyrir stuttu og þar má sjá sólina síga við sjóndeildarhringinn rétt vestan við Snæfellsjökul.

„Sjáðu jökulinn loga“

Bæjarstjórn.

Sl. mánudag var aukafundur í bæjarstjórn Garðs og var eitt mál á dagskrá fundarins, fyrri umræða um tillögu að sameiningu sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðisbæjar. Samkvæmt lögum á bæjarstjórn að taka málið til umræðu á tveimur fundum, án atkvæðagreiðslu. Síðari umræða um málið verður á fundi bæjarstjórnar á þriðjudag í næstu viku. Eftir það hefst kynning á tillögunni og ýmsum upplýsingum og gögnum sem liggja að baki. Skýrsla KPMG um málið verður birt á heimasíðu sveitarfélagsins á miðvikudag, eftir síðari umræðu um málið í bæjarstjórn. Gert er ráð fyrir að atkvæðagreiðsla meðal íbúa sveitarfélagsins um tillöguna fari fram laugardaginn 11. nóvember nk.

Verklok hjá vinnuskólanum.

Nú í vikunni lauk formlega verktíma vinnuskólans. Starfsemin hófst 15. maí og luku flokksstjórar störfum 18. ágúst. Verkstjóri vinnuskólans var Berglind Ellen Pernille Petersen, hún hefur stýrt starfinu einstaklega vel og er enn að störfum. Ásamt Berglindi hefur Einar Friðrik umhverfis-og tæknifulltrúi stýrt verkefnum sumarsins en Guðbrandur frístunda-, menningar-og lýðheilsufulltrúi hefur haldið utan um starfsmannamálin. Vinnuskólinn og þeir sem með honum hafa unnið í sumar fá bestu þakkir fyrir vel unnin störf. Hér eru nokkrar myndir frá sumrinu.

Lýðheilsugöngur Ferðafélags Íslands.

Nú í september verða lýðheilsugöngur alla miðvikudaga, en tilefnið er 90 ára afmæli Ferðafélags Íslands. Ferðafélagið hefur leitað samstarfs við sveitarfélögin í landinu um þessar göngur og tekur Sveitarfélagið Garður þátt í því. Búið er að skipuleggja gönguferðirnar í samstarfi við ýmsa aðila og eru íbúar Garðs hvattir til að taka þátt. Nánar verða göngurnar auglýstar á heimasíðu sveitarfélagsins og á Facebook og hefjast þær allar kl. 18:00. Eftirtaldir aðilar hafa tekið að sér umsjón með göngunum: 6. september, starfsfólk Íþróttamiðstöðvar. 13. september, kennarar við Gerðaskóla. 20. september, Víðismenn. 27. september, Auðarstofa og hreystihópur.

Drögum úr plastnotkun.

Við vitum öll að plastmengun er orðið alvarlegt vandamál á heimsvísu. Nú í september er sérstakt átak sem miðar að því að hvetja alla til að sleppa allri plastnotkun. Hér með eru allir hvattir til að taka þátt í þessu árverkniátaki, draga úr og helst sleppa allri notkun á plastefnum í þessum mánuði. Í framhaldinu ættum við öll að viðhalda þessu átaki og leggja okkar af mörkum til að draga úr þessari alvarlegu umhverfismengun.

Víðir.

Eftir síðasta leik Víðis er liðið í 3. sæti deildarinnar, aðeins einu stigi frá því að færast upp um deild. Á morgun, laugardag leikur Víðir gegn Tindastól á Sauðárkróki. Baráttukveðjur til Víðismanna með ósk um gott gengi í leiknum í Skagafirðinum.

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail