25. vika 2017.

Sólseturshátíð.

Þessa vikuna hefur verið mikið um að vera í Garðinum. Dagskrá Sólseturshátíðar hófst á þriðjudagskvöld með fjölskyldujóga, hápunktur hátíðarinnar verður á laugardaginn með fjölskyldudagskrá á Garðskaga. Ágæt þátttaka hefur verið á viðburðum í vikunni, enda er dagskráin fjölbreytt og höfðar til allra. Til dæmis var stór hópur sem fór í fróðleiksgöngu um bæinn með leiðsögumanninum Herði Gíslasyni á miðvikudagskvöld. Í gær, fimmtudag opnuðu listamenn í Garði sýningu að Sunnubraut 4, ungir tónlistarmenn héldu tónleika í Gerðaskóla og Golfklúbbur Suðurnesja hélt golfmót í samstarfi við sveitarfélagið þar sem var met þátttaka. Þá var mikið líf og fjör í Íþróttamiðstöðinni þar sem stór hópur hjólaði spinning fram yfir miðnætti. Dagskráin heldur áfram í dag og kvöld, með útigrilli á íþróttasvæðinu við Nesfiskvöllinn og knattspyrnuleik Víðis gegn Tindastól. Eftir leikinn verða tónleikar KK í veitingahúsinu Röst á Garðskaga og deginum lýkur með miðnæturmessu í Útskálakirkju. Á morgun verður mikil dagskrá á Garðskaga, sem mun standa fram undir nóttu.

Bærinn er óðum að klæðast hátíðarskrúða, með litríkum skreytingum í hverfunum og á morgun verða veitt verðlaun fyrir best skreyttu húsin í hverju hverfi.  Víða má finna myndir frá dagskrá hátíðarinnar, til dæmis á Facebook síðunni Sólseturshátíð í Garði. Það er líf og fjör í Garði þessa dagana, við bjóðum gesti velkomna til að njóta með okkur heimafólki .

Söguganga, Hörður Gíslason rauðklæddur leiðsögumaður.
Söguganga, Hörður Gíslason rauðklæddur leiðsögumaður.
Spinning liðið í bláu þema.
Spinning liðið í bláu þema.

Sumarhátíð leikskólans í dag.

Í dag, föstudag verður árleg sumarhátíð leikskólans Gefnarborgar. Án efa verður gleðin við völd hjá börnunum, enda ber dagskrá dagsins með sér að svo verði. Þess má geta að leikskólinn Gefnarborg er Sólblóma leikskóli og styrkir dreng í Uganda sem heitir Peter, en hann á einmitt afmæli í dag þann 23. júní. Alltaf líf og fjör á leikskólanum.

Framkvæmdir.

Ýmsum sumarverkefnum sveitarfélagsins er þegar lokið, önnur standa yfir og framundan verður mikið um að vera. Nú í vikunni lauk til dæmis framkvæmdum við malbikun Skagabrautar út á Garðskaga, einnig var Norðurljósavegur malbikaður við hótelið Lighthouse Inn. Mikill kraftur er í starfsemi vinnuskólans, enda er byggðarlagið vel hirt og snyrtilegt.

Malbikun Norðurljósavegur.
Malbikun Norðurljósavegur.
Skagabraut að Garðskaga nýmalbikuð.
Skagabraut að Garðskaga nýmalbikuð.

Hreinsun strandarinnar.

Nú á miðvikudaginn var ráðist í það verkefni að hreinsa rusl af ströndinni við Garðskaga. Verkefnið var hluti af samvinnuverkefni Nettó, Bláa hersins, Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum og fleiri aðila, sem gengur út á að hreinsa strandlengjuna með Reykjanesi. Tómas Knútsson hjá Bláa hernum stjórnaði hreinsun strandarinnar við Garðskaga eins og herforingi. Við þökkum Tómasi og öðrum þeim sem komu að verkefninu fyrir vel unnið verk.

Tómas hershöfðingi Bláa hersins á Garðskaga.
Tómas hershöfðingi Bláa hersins á Garðskaga.

Samningar.

Sveitarfélagið gerir samninga við ýmsa aðila á mörgum sviðum. Nú hafa verið gerðir samningar við Norræna félagið í Garði og Hollvini Unu í Sjólyst. Um er að ræða framlengingu á fyrri samningum um samstarf sveitarfélagsins við þessi ágætu félagasamtök. Bæjarstjórinn og Erna M Sveinbjarnardóttir formaður beggja félagasamtakanna undirrituðu samningana nú í morgun. Sveitarfélagið á gott samstarf við hin ýmsu félagasamtök í Garði, íbúunum og byggðarlaginu til heilla.

Samningar 2017

Nýr þjálfari hjá Víði.

Víðir hefur skipt um þjálfara meistaraflokks karla í knattspyrnu. Nýr þjálfari er Guðjón Árni Antoníusson, sem nú snýr aftur heim í Víði eftir að hafa leikið með Keflavík og FH mörg undanfarin ár. Guðjón er boðinn velkominn „heim“, með ósk um gott gengi. Fyrsti leikur Víðis undir stjórn Guðjóns verður í kvöld, þegar Tindastóll kemur í heimsókn.

Veðrið.

Undanfarna daga hefur verið frekar kalt í veðri með úrkomu. Lengsti dagur ársins var á miðvikudaginn, en veðrið þann dag minnti frekar á haustdag en hásumar. Vonandi verða veðurguðir garðbúum hliðhollir um helgina.

Góða helgi og gleðilega Sólseturshátíð !

 

 

Facebooktwittergoogle_plusmail