24. vika 2017.

Þjóðhátíðardagurinn 17. júní á morgun.

Á morgun þann 17. júní höldum við þjóðhátíðardaginn okkar hátíðlega um land allt. Hér í Garði verða hátíðahöldin með hefðbundnu sniði. Hátíðardagskráin hefst með hátíðarmessu í Útskálakirkju kl. 13, síðan verður skrúðganga frá kirkju og í Gerðaskóla þar sem verður fjölbreytt dagskrá í sal skólans Miðgarði. Þar mætir fjallkonan og ávarpar samkomuna, tónlistaratriði og skemmtidagskrá og hátíðarræða. Garðbúar eru hvattir til að taka virkan þátt í hátíðardagskrá þjóðhátíðardagsins. Nánari upplýsingar um hátíðardagskrána í Garði er að finna á vefsíðu sveitarfélagsins, svgardur.is. Víða um land mun væntanlega verða sungið Hæ hó jibby jei, það er kominn 17. júní o.s.frv. Gleðilega þjóðhátíð !

Íslenski fáninn

Sólseturshátíð framundan.

Í næstu viku og um næstu helgi verður bæjarhátíð garðmanna, Sólseturshátíðin. Dagskráin byrjar þriðjudaginn 20. júní og stigmagnast fram í næstu helgi. Á miðvikudag munu bæjarbúar klæða bæinn hátíðarskrúða og skreyta hverfin með sínum litum. Umhverfisnefnd sveitarfélagsins mun veita viðurkenningar fyrir best skreyttu húsin í hverju hverfi. Megin hluti dagskrárinnar verður laugardaginn 24. júní og verður í gangi dagskrá á hátíðarsvæðinu á Garðskaga frá kl. 13:30 og fram í miðnætti. Dagskrá hátíðarinnar og upplýsingar um hana má finna á Facebook síðunni Sólseturshátíð í Garði, einnig á heimasíðu sveitarfélagsins svgardur.is. Knattspyrnufélagið Víðir ber hitann og þungann af undirbúningi og framkvæmd hátíðarinnar, í samstarfi við Björgunarsveitina Ægir, sveitarfélagið, lögreglu og fleiri aðila. Mikið framundan hjá garðbúum og gestum.

Dagskrá Sólseturshátíðar 2017.

Viðurkenningar fyrir hús hverfanna.
Viðurkenningar fyrir hús hverfanna.

Leikjanámskeið, vinnuskóli o.fl.

Nú í sumarbyrjun hófst sumarstarfsemi fyrir börn og ungmenni í Garði.  Leikjanámskeið fyrir börn sem hafa lokið 1.-6. bekkjum grunnskólans stendur nú yfir, með fjölbreyttri dagskrá og góðri þátttöku. Þá er hafið námskeiðið Skólagarðar og kofabyggð fyrir börn sem hafa lokið 3.-7. bekkjum grunnskólans. Undanfarið hefur staðið yfir sundnámskeið fyrir 5, 6 og 7 ára börn og er aðsókn mikil. Einnig hefur verið boðið upp á vatnsleikfimi fyrir fullorðna í hádeginu virka daga, mikil þátttaka. Þá er vinnuskólinn í fullum gangi. Það er mikið um að vera á vegum sveitarfélagsins, fyrir börn jafnt sem fullorðna í sumar.

Myndir af börnum á leikjanámskeiði:

19030640_1909035659357988_2945892169943195158_n

19146278_1911787069082847_6326502419314933306_n

Myndir af börnum á námskeiðinu Skólagarðar og kofabyggð:

19149036_10211826312847051_4111975359286267616_n

19225183_10211826322927303_8704304530673121314_n

Myndir af sundnámskeiði barna og vatnsleikfimi fullorðinna í sundlauginni:

Sundnámskeið 2017

Vatnsleikfimi 2017

Hjóladagur á leikskólanum.

Nú í morgun komu leikskólabörn með hjólin sín í leikskólann. Mikil umferð hjóla var á aflokuðu bílastæði við leikskólann. Gleðin skein úr andlitum barnanna og þau fengu góða útrás fyrir orkuna.

IMG_2594

IMG_2593

Ferðamenn á Garðskaga.

Eins og áður hefur komið fram er Garðskagi vinsæll ferðamannastaður. Nú í vor og í sumarbyrjun hefur aukist umferð ferðafólks á Garðskaga. Samkvæmt talningu komu um 30.000 gestir á Garðskaga í maí. Veitingastaðurinn Röst hefur notið mikilla vinsælda og fær mjög góða dóma. Byggðasafnið er á sínum stað og opið alla daga. Nú í byrjun júní opnaði kaffihúsið Flösin í gamla vitanum á Garðskagatá. Nú er unnið að því að setja upp sýningar í stóra vitanum og er vonast til að þær opni fljótlega. Auk alls þessa er nokkur fjöldi sem gistir á tjaldsvæðinu. Garðskaginn er sterkur segull sem dregur til sín gesti, enda er upplifunin á svæðinu einstök.

Bæjarráð.

Í vikunni fundaði bæjarráð. Mörg mál voru á dagskrá fundarins, þar má m.a. nefna að lagt var fram skilabréf, samantekt og framkvæmdaáætlun vinnuhóps um stefnumótun í málefnum aldraðra í Garði og Sandgerðisbæ. Það mál verður til frekari umfjöllunar á næstunni. Farið var yfir framkvæmdir ársins, en þar kennir ýmissa grasa. Samþykktar voru breytingar á reglum um sérstakan húsnæðisstuðning og fjallað var um nokkrar fundargerðir nefnda. Fjölbreytt og mörg viðfangsefni bæjarráðs, að vanda.

Ljósnet í Garði.

Undanfarið hefur Míla unnið að því að tengja öll heimili í Garði við ljósnet. Tilgangur þess er að bæta fjarskipti og auka gæði internet sambanda. Nú er verkefni Mílu lokið þannig að íbúar í Garði eiga þess nú kost að búa við mun meiri gæði nettenginga en verið hefur. Nánari upplýsingar eru á heimasíðu sveitarfélagsins, svgardur.is. Garðbúar eru vel tengdir.

sandgerdi_ljosnet_3(1)

Loftmyndir – map.is/gardur.

Ótal margt má finna á Internetinu. Eitt af því er slóðin map.is/gardur, sem sveitarfélagið stendur að. Þar má finna loftmyndir af sveitarfélaginu og ýmsar upplýsingar um skipulag, lagnakerfi o.fl. Vefurinn er öllum opinn.

Veðrið.

Framan af vikunni var veðurblíða með glampandi sól. Í morgun hefur veðrið breyst, nú er komin suð-austlæg átt með rigningarskúrum og kaldara lofti. Vætan þarf ekki að koma á óvart, enda er þjóðhátíðardagurinn 17. júní á morgun. Eins og ótrúlega oft áður er von á einhverri úrkomu á þjóðhátíðardaginn.

Góða helgi og gleðilega þjóðhátíð !

Facebooktwittergoogle_plusmail