23. vika 2017.

Vinnuskólinn.

Starfsemi vinnuskólans er hafin af fullum krafti. Vinnuskólinn er mikilvægur liður í starfsemi sveitarfélagsins, enda felur hann í sér margar vinnandi hendur sem vinna að alls konar verkefnum og sjá til þess að umhirða og ásýnd bæjarins sé eins og best verður á kosið.

Bæjarstjórnarfundur.

Í vikunni var fundur í bæjarstjórn. Að venju voru mörg mál á dagskrá, fundargerðir fastanefnda sveitarfélagsins, fundargerðir nefnda og ráða þar sem sveitarfélagið á fulltrúa og svo ýmis önnur mál.

Eitt stærsta málið sem tekið var fyrir á fundinum var tillaga um skipan samstarfsnefndar um sameiningu sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðisbæjar. Var samþykkt samhljóða að skipa fulltrúa í nefndina, sem mun vinna eftir ákvæðum sveitarstjórnarlaga um sameiningu sveitarfélaga. Samstarfsnefndin á fyrir 30. júlí að fara yfir gögn og upplýsingar sem fyrir liggja um ýmsar forsendur og kynna þarf íbúunum síðar, ásamt því að skila tillögum til bæjarstjórnanna um kosningu íbúa um tillögu um sameiningu. Eftir það munu bæjarstjórnir sveitarfélaganna taka málið til umræðu á tveimur fundum og ákveða kjördag. Stefnt er að því að þetta liggi fyrir um mánaðamótin ágúst/september.

Á fundinum staðfesti bæjarstjórn afgreiðslur bæjarráðs á ýmsum málum sem fram koma í tveimur fundargerðum bæjarráðs sem voru á dagskrá bæjarstjórnar. Þá má nefna að kosið var í bæjarráð til eins árs, eins og samþykkt um stjórn sveitarfélagsins kveður á um. Fundaáætlun bæjarráðs fram í september var samþykkt og samþykktar voru breytingar á skipan nokkurra nefnda.

Í lok fundarins var samþykkt að bæjarstjórn fari í leyfi frá reglulegum fundum í sumar og var bæjarráði veitt heimild til fullnaðarafgreiðslu mála á meðan. Næsti reglulegur fundur bæjarstjórnar verður í byrjun september, en líklega þarf bæjarstjórn að koma saman áður til að fjalla um tillögur frá samstarfsnefnd um sameiningu sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðisbæjar.

Ferðamenn.

Nú í byrjun júní hefur umferð ferðafólks aukist mjög í Garðinum og beinist athygli þeirra að Garðskaga. Helsti segullinn sem dregur ferðamenn á Garðskaga eru vitarnir, en þó helst gamli vitinn á garðskagatá. Samkvæmt mælingum koma hátt í 300.000 gestir á Garðskaga á ári og er stór hluti þeirra erlendir ferðamenn. Umhverfið og náttúran á Garðskaga felur í sér einstaka upplifun fyrir þá sem þangað koma. Nú þegar nálgast hásumar og um Jónsmessuna sækja margir í að upplifa sólsetrið, sem er einstaklega fallegt og tilkomumikið þegar miðnætursólin hverfur bak við Snæfellsjökul og Snæfellsnesið. Um vetrartímann sækja margir á Garðskaga til að upplifa Norðurljósin. Þar fyrir utan una gestir sér við að njóta náttúrunnar, margir sækja í fjörurnar sitt hvoru megin við Flösina, skoða dýralífið og jafnvel sitja og horfa út á hafið.

Vitarnir og sólsetur á Garðskaga.

_JOI5071 (1)

Sjómannadagurinn.

Nú á sunnudaginn verður sjómannadagurinn haldinn hátíðlega um land allt. Víða er þessi dagur einn helsti hátíðardagurinn á árinu og í mörgum sjávarbyggðum á sjómannadagurinn djúpar og traustar rætur með hefðbundinni dagskrá. Sjómannadagurinn felur því í sér mikilvæga menningarlega hefð, ekki síður en að hann sé haldinn hátíðlegur til heiðurs sjómönnum og fjölskyldum þeirra og reyndar öllum þeim sem vinna við sjávarútveg almennt. Gleðilegan sjómannadag !

Gunnar Hámundarson á siglingu.
Mb. Gunnar Hámundarson úr Garði á siglingu.

Veðrið.

Veðrið þessa vikuna hefur að mestu einkennst af norðlægum áttum, með svölum vindi og sólskini flesta daga. Inn á milli hafa komið rigningarskúrir. Framan af vikunni hefur verið frekar kalt í veðri, en eftir því sem hefur liðið á vikuna hefur heldur hlýnað í veðri og veðurútlit fyrir komandi helgi er ágætt.

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail