22. vika 2017.

Íbúafundur um hugsanlega sameiningu sveitarfélaga.

Sl. miðvikudag var boðað til íbúafundar í Gerðaskóla, þar sem kynntar voru helstu niðurstöður í úttekt á kostum og göllum sameiningar sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðisbæjar. Mæting var ágæt, fram komu ýmsar spurningar um málið og urðu ágætar umræður. Bæjarstjórn mun í næstu viku taka ákvörðun um framhald málsins, en ef af verður má reikna með að íbúar munu taka afstöðu til málsins með kosningu næsta haust.

IMG_2517

Gerðaskóli – skólaslit.

Nú er komið að lokum skólaársins hjá nemendum og starfsfólki Gerðaskóla, en skólaslit verða í dag föstudag. Að baki er viðburðaríkur vetur, bæði í námi og félagslífi nemenda. Þessa vikuna hafa nemendur sinnt ýmsum verkefnum, sem dæmi voru allir bekkir út og suður í gær fimmtudag. Einhverjir fóru til dæmis í Húsdýragarðinn og aðrir voru í ýmiskonar útiveru og ferðum. Nemendur í 10. bekk útskrifast frá grunnskólanum í dag og við tekur spennandi tími hjá þeim, þeir fá sérstakar óskir um farsæld í framtíðinni. Nemendur Gerðaskóla fá árnaðaróskir á þessum tímamótum og starfsfólk skólans þakkir fyrir vel unnin störf á liðnu skólaári.

Vinnuskólinn.

Eins og fram hefur komið er sumarstarf vinnuskólans hafið, með tilheyrandi grasslætti og gróðurvinnu. Verk-og flokkstjórar hafa verið að undirbúa verkefni sumarsins með ungmennum í vinnuskólanum, meðal annars með fundum og yfirferð yfir fjölbreytt verkefni framundan. Hér er mynd frá fundi þeirra með Guðbrandi frístunda-, menningar-og lýðheilsufulltrúa, sem heldur utan um starfsemi vinnuskólans.

IMG_2520

Tónleikar í Garðskagavita.

Í gærkvöldi, fimmtudag voru tónleikar í Garðskagavita. Tónleikarnir voru af dagskránni Söngvaskáld á Suðurnesjum og voru hluti af dagskrá Jarðvangsviku á Suðurnesjum. Tónleikarnir tókust vel og hljómburðurinn í vitanum naut sín, en það er eftirsóknarvert meðal tónlistarmanna að flytja tónlist í vitanum þar sem hljómburður er einstakur og mikil upplifun fyrir tónleikagesti. Skemmtilegt framtak.

Hótel Ligthouse Inn í Garði.

Eins og fram hefur komið hefur nýtt hótel opnað í Garði, Hótel Lighthouse Inn. Bræðurnir Gísli, Þorsteinn og Einar Heiðarssynir standa að uppbyggingu og rekstri hótelsins, en þeir hafa síðustu ár rekið gistiheimilið Garð. Hótelið er hið glæsilegasta, hlýlegt og smekklega innréttað. Hér að neðan eru þeir bræður í afgreiðslu hótelsins. Til hamingju með nýtt og glæsilegt hótel !

Bræðurnir Einar, Þorsteinn og Gísli Heiðarssynir.
Bræðurnir Einar, Þorsteinn og Gísli Heiðarssynir.

Víðir úr leik í bikarnum !

Í vikunni fór fram stórleikur á Nesfiskvellinum í Garði, en þá tók Víðir á móti Fylki í 16 liða úrslitum bikarkeppni KSÍ, Borgunarbikarnum. Fjöldi áhorfenda mætti á völlinn í blíðskaparveðri, enda mikið í húfi. Þegar upp var staðið bar Fylkir sigurorð af Víði 5-0, en miðað við hvernig leikurinn spilaðist geta Víðismenn borið höfuðið hátt því leikur liðsins var á stórum köflum mjög góður. Framundan er leikur gegn Völsungi á Húsavík í 2. deildinni og fá Víðismenn baráttukveðjur fyrir þann leik.

Veðrið.

Þessa vikuna hefur veður verið frekar erfitt og leiðinlegt. Sunnan áttir og rigning, á köflum hefur verið hreint úrhelli. Inn á milli hefur þó rofað til og á miðvikudag var hægviðri og glampandi sól, meðal annars meðan stórleikur Víðis og Fylkis stóð yfir á Nesfiskvellinum.

Hvítasunnuhelgi framundan.

Framundan er Hvítasunnan og eflaust verða margir á ferðinni nú um helgina, enda löng helgi með frídegi á mánudaginn, annan í Hvítasunnu. Ferðalangar eru hvattir til að fara varlega í umferðinni og gæta að öryggi sínu og annarra.

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail