18. vika 2017.

Morð í Gerðaskóla.

Sl. föstudag frumsýndu nemendur Garðaskóla leikritið Morð eftir Ævar Þór Benediktsson, öðru nafni Ævar vísindamaður. Nemendum tókst vel til og var leiksýningin hin besta skemmtun. Vegna fjölda áskorana var leiksýningin endursýnd í gærkvöldi. Það eru efnilegir leikarar í hópi nemenda, aldrei að vita nema þar séu kvikmyndaleikarar framtíðarinnar. Takk fyrir frábæra leiksýningu.

Bæjarstjórnarfundur.

Bæjarstjórn Garðs fundaði í vikunni. Að vanda voru fjölmörg mál á dagskrá. Aðal mál fundarins var síðari umræða um ársreikning sveitarfélagsins fyrir árið 2016. Ársreikningurinn var samþykktur og áritaður af bæjarstjórn. Eins og fram hefur komið eru niðurstöður reikningsins ánægjulegar og jákvæðar. Efnahagslegur styrkur er góður, m.a. vegna þess að bæjarsjóður er skuldlaus. Afgangur af rekstri var meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir og fjárfestingar fjármagnaðar alfarið af skatttekjum, engin ný lán voru tekin.

Undirbúningur Vinnuskóla.

Nú styttist óðum í að vinnuskóli sumarsins hefji starfsemi. Starfsmenn sveitarfélagsins eru þessa dagana að undirbúa sumarið og skipuleggja verkefnin. Starfsemi vinnuskólans er mikilvæg, bæði fyrir starfsmenn og ekki síður sveitarfélagið og íbúa þess. Undanfarin ár hefur vinnuskólinn unnið gott verk við að sjá um að byggðarlagið sé snyrtilegt og vel hirt, enda höfum við fengið hrós fyrir það frá gestum sem sækja Garðinn heim.

Keilir 10 ára.

Í gær var haldið upp á 10 ára afmælis Keilis á Ásbrú. Þegar litið er yfir sögu skólans í 10 ár er ljóst að þeir sem að honum hafa komið hafa unnið gott og þarft verk, í raun er um þrekvirki að ræða. Það er ánægjulegt að undirtónninn hjá Keili er nýsköpun og þess sést glöggt merki í starfsemi skólans fyrr og nú. Til hamingju með áfangann nemendur og starfsfólk Keilis.

Víðir á sigurbraut.

Knattspyrnulið Víðis hefur verið að gera það gott að undanförnu. Víðir sló lið Keflavíkur út í bikarkeppni KSÍ og Víðir sigraði lið Njarðvíkur í úrslitaleik B-deildar Lengjubikarkeppninnar. Það má því segja að eins og staðan er í dag hafi Garðurinn yfirhöndina á knattspyrnusviðinu umfram Reykjanesbæ ! Íslandsmótið hefst á morgun, laugardag með heimaleik Víðis gegn Hetti frá Egilsstöðum. Víðismenn koma vel stemmdir og sigurreifir til leiks í íslandsmótinu. Áfram Víðir !

Víðir - Lengjubikar meistarar B-deild.
Víðir – Lengjubikar meistarar B-deild.

Veðrið.

Nú er vorið í algleymingi og sumarveður hefur ríkt á landinu. Það er alltaf jafn ánægjulegt að sjá hvað allt lifnar við og brosin færast yfir mannfólkið þegar svona tíð er á vorin. Allir í góðu skapi 🙂

Góða helgi.

Facebooktwittergoogle_plusmail