17. vika 2017.

Vorið.

Nú spá veðurfræðingar því að vor og hlýrra veður taki völdin upp úr komandi helgi. Veðrið undanfarna daga og vikur hefur verið alveg þokkalegt miðað við árstíma hér í Garðinum. Grasflatir og tún eru óðum að taka græna litinn og gróðurinn er almennt byrjaður að fagna vori. Verkefnin þessa dagana fela mörg í sér undirbúning fyrir sumarstörfin, til dæmis er verið að ráða starfsfólk í vinnuskóla sumarsins og skipuleggja sumarstarfið. Þá eru orðin kaflaskil hjá knattspyrnufólki, íslandsmótið hófst í gær í efstu deild kvenna og nú um komandi helgi fer af stað íslandsmótið í efstu deild karla. Þegar hefur verið leikin ein umferð í bikarkeppni KSÍ.  Allt eru þetta skýr merki um að vorið er komið, við reiknum svo með að veðurguðirnir færi okkur hlýrra veður í næstu viku.

Flugstöðin 30 ára.

Í gær, fimmtudag var haldin afmælishátíð í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli. Nú eru 30 ár liðin frá því flugstöðin var vígð og tekin í notkun. Saga flugstöðvarinnar er nokkuð merkileg og var uppbygging hennar á sínum tíma nokkuð umdeild. Í hönnunarferlinu þótti mörgum mannvirkið allt of stórt og mikið, úr varð að dregið var verulega úr stærð flugstöðvarinnar áður en bygging hófst. Síðan hafa menn þurft að stækka hana og stækka. Flugstöðin og starfsemin þar hefur reynst vel og er mikilvæg fyrir okkur íslendinga, það er í raun með ólíkindum hvernig tekist hefur að mæta þeirri gríðarlegu sprengingu í fjölda farþega sem fer um flugstöðina. Í tilefni 30 ára afmælis flugstöðvarinnar í gær var afhjúpað stórt og ótrúlega flott listaverk eftir Erró, sem er staðsett á þeim stað í flugstöðinn þar sem allir farþegar fara um á hverjum degi. Hér fyrir neðan er mynd sem tekin var af verkinu.

IMG_2445

Bæjarráð.

Fundur var í bæjarráði Garðs í vikunni. Á fundinum var meðal annars farið í saumana á niðurstöðum ársreiknings 2016 og samþykktir voru tveir viðaukar við fjárhagsáætlun 2017. Báðir viðaukarnir eru vegna tónlistarskólans, annars vegar er aukið stöðuhlutfall við tónlistarkennslu og hins vegar aukin fjárheimild vegna húsnæðismála skólans.

Frumsýning í Gerðaskóla.

Nemendur Gerðaskóla hafa að undanförnu æft leikritið Morð. Nú er komið að stóru stundinni þar sem frumsýning verður í Miðgarði í kvöld. Leiklistarlíf hefur verið líflegt í Gerðaskóla og hefur verið ánægjulegt að fylgjast með hvað nemendur og kennarar hafa lagt mikla vinnu í alls kyns uppákomur í skólanum, þar á meðal hafa verið settar upp leiksýningar undanfarna vetur.  Garðbúar eru hvattir til að mæta og njóta menningarlífsins í Gerðaskóla.

Stórleikur í kvöld.

Í kvöld er stórleikur í bikarkeppni KSÍ í knattspyrnu. Keflavík og Víðir í Garði mætast á Nettóvellinum í Keflavík kl. 19:00. Þessi nágrannalið hafa ekki att kappi í alvöru keppni frá því árið 1986, þegar Keflavík vann Víðir 1-0 á Garðvelli í bikarkeppninni. Spennan mikil fyrir leiknum og Víðir hefur harma að hefna frá því fyrir rúmum 30 árum! Það verður fróðlegt að sjá hvernig lið Víðis mun koma til leiks að þessu sinni, en liðið leikur í 2. deildinni í sumar eftir að hafa í nokkur ár verið í 3. deild. Miklar væntingar eru til Víðis fyrir sumarið og mikill hugur í víðisfólki, það verður spennandi að fylgjast með leikjum Víðis í sumar.                Áfram Víðir !

18118908_939981326142077_3271120670172602885_n

Framkvæmdir.

Að undanförnu hefur Bragi Guðmundsson byggingarverktaki og hans menn unnið að byggingu salernisálmu við hús byggðasafnsins á Garðskaga. Verkið gengur vel og er stefnt að því að taka húsnæðið í notkun í júní. Með tilkomu þess verður bætt úr salernisaðstöðu á Garðskaga, bæði fyrir gesti og gangandi sem munu hafa aðgang að salernum utan frá, eins fyrir gesti veitingahússins Röst og byggðasafnsins sem munu hafa aðgang innan frá. Hér fyrir neðan er mynd af stöðu mála í gær, fimmtudag, en búið er að steypa upp útveggina.

IMG_2447

Frídagur verkamanna 1. maí.

Nú er apríl að renna sitt skeið á enda. Næstkomandi mánudag þann 1. maí er frídagur verkamanna, sem í gegnum tíðina og þá aðallega í fyrri tíð var oft verið nefndur „baráttudagur verkalýðsins“. Víða um landið halda verkalýðsfélögin hátíðir í tilefni dagsins, en hefðir og venjur að því leyti eru þó nokkuð misjafnar eftir landsvæðum og byggðarlögum. Víða er mikið lagt upp úr hátíðarhöldunum, með ræðuhöldum og skemmtidagskrám en annars staðar er lítið eða jafnvel ekkert um að vera. Þema dagsins er þó jafnan hið sama frá ári til árs, það er baráttan fyrir betri kjörum launafólks.  Við óskum öllu launafólki fyrirfram til hamingju með daginn þann 1. maí.

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail