16. vika 2017.

Páskar að baki.

Síðustu tvær vikur hafa einkennst af hátíð Páskanna. Margir og góðir frídagar sem flestir hafa vonandi notið vel, ásamt því að njóta helgihalds páskahátíðarinnar.

Gleðilegt sumar !

Samkvæmt dagatalinu var sumardagurinn fyrsti í gær, þann 20. apríl. Sumardagurinn fyrsti hefur gjarnan jákvæðan sess í huga landsmanna, enda undirstrikar hann að komið sé að lokum vetrar og vorið framundan. Fyrstu tvo dagana í byrjun sumars að þessu sinni var ekki mjög sumarlegt, meira að segja þurfti að skafa bílrúður og sópa snjó af bílum snemma í morgun. Það er hins vegar orðið það hlýtt og milt að jörðin breytti fljótt um ásýnd í morgun og snjóinn tók fljótt upp. Vorið er framundan og vonandi verður það milt og gott.

Bæjarráð.

Fundur var í bæjarráði nú í vikunni. Þar bar hæst að samþykkt var tillaga um lausnir á húsnæðismálum tónlistarskólans, en tónlistarskólinn hefur undanfarin ár búið við mjög þrönga og ófullnægjandi húsnæðisaðstöðu. Samþykkt bæjarráðs er ánægjulegur áfangi sem miðar að því að búa vel að tónlistarskólanum.

Almannavarnanefnd á ferð.

Nú í morgun var Almannavarnanefnd Suðurnesja, utan Grindavíkur á ferð um utanverð Suðurnes. Nefndin heimsótti björgunarsveitirnar í Sandgerði, Garði og Reykjanesbæ þar sem nefndin hitti forystufólk björgunarsveitanna og kynnti sér aðstöðu og búnað sveitanna. Björgunarsveitirnar eru mjög mikilvægir hlekkir í öryggiskeðju samfélagsins og starfa náið með almannavörnum. Heimsóknir Almannavarnanefndar voru ánægjulegar og er alltaf jafn athyglisvert að sjá hvað margir einstaklingar leggja mikið af mörkum í sjálfboðavinnu á vettvangi björgunarsveitanna. Fyrir það er þakkað. Myndin hér að neðan var tekin af Almannavarnanefnd og formanni Björgunarsveitarinnar Ægis í Garði í húsnæði sveitarinnar í Garði.

IMG_2440

Ungt fólk og lýðræði.

Fulltrúar Ungmennaráðs Garðs sóttu fyrir stuttu ráðstefnuna Ungt fólk og lýðræði, sem Ungmennaráð UMFÍ hefur staðið fyrir undanfarin ár. Að þessu sinni var ráðstefnan haldin á Hótel Laugabakka í Miðfirði. Yfirskrift ráðstefnunar að þessu sinni var „Ekki bara framtíðin – ungt fólk, leiðtogar nútímans“. Það er mikilvægt fyrir ungt fólk alls staðar að af landinu að koma saman og fjalla um sín hagsmunamál og það er gott framtak hjá UMFÍ að standa að þessum árlegu ráðstefnum. Hér er mynd af fulltrúum Ungmennaráðs Garðs, ásamt góðum vinum á ráðstefnunni.

IMG_4696

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail