Molar úr Garði

Í okkar samfélagi nútímans vilja flestir hafa gott aðgengi að upplýsingum og margir hafa þörf og ástæður til að koma upplýsingum á framfæri.  Í þeim tilgangi notast margir við samfélagsmiðla á við Facebook, Twitter og fleiri slíka.  Enn aðrir senda rafræn fréttabréf á valinn hóp móttakenda og síðan eru einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir með sínar heimasíður þar sem upplýsingum er komið á framfæri.  Það má segja að gamla aðferðin, að gefa út fréttabréf í pappírsformi heyri nánast sögunni til.

Það er mikilvægt fyrir sveitarfélög og íbúa þeirra að upplýsingamiðlun sé aðgengileg og virk.  Sveitarfélagið Garður heldur úti heimasíðunni svgardur.is.  Þar koma fram margvíslegar upplýsingar um fjölmargt sem tilheyrir sveitarfélaginu sem stjórnsýslueiningu.  Á heimasíðu Garðs er komið á framfæri ýmsum fréttum og tilkynningum frá sveitarfélaginu og eiga beint erindi við íbúana.  Heimasíða sveitarfélags á hins vegar ekki að gegna hlutverki fréttamiðils, megin áherslan á að vera að koma öðrum upplýsingum og gögnum á framfæri.

Þekkt er að bæjarstjórar sendi frá sér fréttabréf á pappírsformi og nú einnig á rafrænu formi, til að koma upplýsingum á framfæri.  Bæjarstjórinn í Garði hefur hins vegar valið þá leið að halda úti bloggsíðu undir heitinu Molar úr Garði, til þess að koma á framfæri ýmsum upplýsingum, stuttum fréttum og tilkynningum og öðru sem tengist sveitarfélaginu og íbúum Garðs.   Bloggsíðan er aðgengileg á heimasíðunni svgardur.is.

Sem fyrsta umfjöllun á Molar úr Garði er ánægjulegt að segja frá því að Garðbúinn Kristín Júlla Kristjánsdóttir hlaut Edduverðlaun sl. laugardag fyrir gervi í kvikmyndinni Vonarstræti.  Ég óska Kristínu innilega til hamingju með Edduna og það er ánægjulegt fyrir bæjarstjórann að Eddan sé komin með aðsetur í Garðinum.  Kvikmyndin Vonarstræti er ein allra besta íslenska kvikmynd sem komið hefur fram á síðustu árum.  Efnistök í myndinni eru áhrifarík, myndin er einkar vel gerð á allan hátt og öllum sem að henni standa til mikils sóma.

Myndina hér að neðan tók Einar Jón forseti bæjarstjórnar Garðs af skjánum á sjónvarpinu sínu, þegar Kristín Júlla hafði tekið við Eddunni í beinni útsendingu.

Kristín Júlla með Edduna 2015
Kristín Júlla með Edduna 2015
Facebooktwittergoogle_plusmail