Ársreikningur 2016 – góðar niðurstöður.

Ársreikningur Sveitarfélagsins Garðs fyrir árið 2016 var til fyrri umræðu í bæjarstjórn þann 5. apríl. Bæjarstjórn afgreiðir reikninginn eftir síðari umræðu í byrjun maí. Samkvæmt reglum um reikningsskil sveitarfélaga skiptist ársreikningur í tvo hluta. Annars vegar er A-hluti, sem er almennur rekstur bæjarsjóðs sem er að mestu leyti fjármagnaður með skatttekjum. Hins vegar er B-hluti, sem eru fyrirtæki í eigu sveitarfélagsins og eru rekin sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar. Undir B-hluta fellur m.a. rekstur félagslegra íbúða, íbúða fyrir aldraða og fráveitu.

Niðurstöður og lykiltölur ársreikningsins bera með sér að rekstur sveitarfélagsins gekk mjög vel á árinu 2016 og eru niðurstöður rekstrar talsvert betri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Þá er ljóst að efnahagslegur styrkur sveitarfélagsins er mikill.

Rekstrarniðurstaða í samanteknum reikningi A og B-hluta er afgangur 60,9 milljónir, sem er 35,7 milljóna meiri afgangur en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun. Sem fyrr er bæjarsjóður í A-hluta skuldlaus en vaxtaberandi langtímaskuldir B-hluta eru aðeins kr. 60,4 milljónir.

Rekstrartekjur A-hluta bæjarsjóðs voru 1.243,5 milljónir, þar af voru skatttekjur 719,9 milljónir og framlög frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga 366,6 milljónir. Rekstrarniðurstaða B-hluta bæjarsjóðs var jákvæð um 58,5 milljónir, sem er 27,4 milljónum meiri afgangur en áætlun gerði ráð fyrir. Heildartekjur í samanteknum reikningi A og B-hluta voru 1.277,7 milljónir, sem er 70,3 milljónum meiri tekjur en áætlun ársins gerði ráð fyrir.

Laun og launatengd gjöld námu alls 524,6 milljónum og voru 61 stöðugildi í árslok 2016. Vöru-og þjónustukaup voru 496,8 milljónir, lífeyrisskuldbindingar jukust um 27,6 milljónir sem er 15,3 milljónum umfram áætlun.

Veltufé frá rekstri var 170,5 milljónir og var veltufjárhlutfallið 2,81. Handbært fé frá rekstri var 161,6 milljónir og hækkaði handbært fé frá fyrra ári um 121,4 milljónir, sem er 66,2 milljónum meira en áætlun ársins gerði ráð fyrir. Handbært fé í árslok 2016 var alls 457,4 milljónir.

Fjárfestingar voru 67,6 milljónir, en á móti voru seldar eignir fyrir 22 milljónir og álögð gatnagerðargjöld 14,7 milljónir. Í sjóðstreymisyfirlit kemur fram að fjárfestingar í varanlegum fjármunum voru nettó 39,8 milljónir.

Heildareignir A-hluta voru 3.040 milljónir og samtals í A og B-hluta 3.222,4 milljónir, eiginfjárhlutfall var 82,16%. Samanlagðar skuldir og skuldbindingar A og B-hluta voru 582,7 milljónir, þar af vaxtaberandi langtímaskuldir 60,4 milljónir sem fyrr segir, lífeyrisskuldbindingar 211,6 milljónir og langtíma leiguskuldbinding 111,6 milljónir.

Niðurstöður rekstrar árið 2016 og sterk efnahagsleg staða sveitarfélagsins eru mjög ánægjulegar staðreyndir, enda lýsti bæjarstjórn mikilli ánægju með útkomuna á fundi sínum við fyrri umræðu um ársreikninginn. Bæjarstjórinn er einnig ánægður með útkomuna og þakkar starfsfólki sveitarfélagsins, ásamt góðri og samstilltri bæjarstjórn fyrir þann árangur sem náðst hefur í rekstri og fjárhagslegum málefnum sveitarfélagsins.

Facebooktwittergoogle_plusmail