14. vika 2017.

Fimleikakappar úr Garði.

Um síðustu helgi slógu nokkrir efnilegir fimleikakappar úr Garði í gegn á íslandsmóti. Atli Viktor Björnsson varð íslandsmeistari í 3. þrepi karla, Magnús Orri Arnarson varði íslandsmeistaratitil sinn í frjálsum æfingum hjá Special Olympics og Sigurður Guðmundsson stóð sig vel á sínu fyrsta fimleikamóti hjá Special Olympics.  Frábær árangur hjá þessum efnilegu Garðbúum, til hamingju með það. Myndirnar hér að neðan eru fengnar af Facebook síðum foreldra.

Atli Viktor á verðlaunapalli.
Atli Viktor á verðlaunapalli.
Sigurður með verðlaunapeninginn, við hliðina á Leonard frænda sínum.
Sigurður með verðlaunapeninginn, við hliðina á Leonard frænda sínum.

Árshátíð Gerðaskóla.

Árshátíð Gerðaskóla var haldin í vikunni. Nemendur og kennarar hafa að undanförnu lagt mikla vinnu í að undirbúa árshátíðina og tókst hún mjög vel. Fjölmenni sótti árshátíðina, sem var í þremur hlutum eftir aldri nemenda. Framkoma og atriði nemendanna voru fjölbreytt og allt gekk mjög vel. Myndirnar hér að neðan eru af nemendum flytja sín atriði á árshátíðinni.

IMG_0687

IMG_0683

Bæjarstjórnarfundur.

Bæjarstjórn kom saman til fundar á miðvikudaginn. Þar bar hæst fyrri umræða um ársreikning sveitarfélagsins fyrir árið 2016. Niðurstöður ársreiknings eru mjög jákvæðar og lýsti bæjarstjórn ánægju með þær. Nánar er fjallað um ársreikninginn í molum bæjarstjóra frá því í gær. Að öðru leyti fjallaði bæjarstjórn um ýmsar fundargerðir nefnda og ráða og var samhljómur í bæjarstjórn um afgreiðslu allra mála.

Páskar framundan.

Tíminn líður hratt, allt í einu er komið að Páskahátíðinni. Grunnskólinn er farinn í páskaleyfi og margir landsmenn eru þegar lagstir í ferðalög innanlands sem utan. Næsta vika mun einkennast af því að páskahelgin verður framundan með tilheyrandi frídögum og ferðalögum, ferðalangar eru hvattir til að fara varlega í umferðinni og vonandi komast allir heilir heim úr sínum ferðalögum.

Veðrið.

Um síðustu helgi og raunar alla vikuna hafa verið miklar sviptingar í veðrinu. Sl. laugardag var dýðlegt vorveður með sól og blíðskaparveðri, síðan tók við sunnan rok og rigning á sunnudeginum. Mánudagurinn einkenndist af sunnan vindi þar sem skiptist á rigning og slydduél, að öðru leyti hafa að mestu verið suðlægar áttir með tilheyrandi vætutíð þessa vikuna. Það fer ekki milli mála að vorið er að taka völdin, a.m.k. hér á Suðurnesjunum.

Góða helgi.

Facebooktwittergoogle_plusmail