13. vika 2017.

Annir hjá nemendum Gerðaskóla.

Það er mikið um að vera hjá nemendum Gerðaskóla þessa dagana. Í síðustu viku kepptu fulltrúar skólans í Skólahreysti og stóðu sig vel.  Á sunnudaginn þann 2. apríl fer fram lokahátíð Nótunnar 2017 í Hörpu, þrátt fyrir að fulltrúar Gerðaskóla, hljómsveitin 13 nótur, hafi ekki komist í úrslit Nótunnar þá voru þau beðin um að sýna atriðið sitt aftur í Hörpu sem upphitun fyrir Nótuna. Frábært hjá krökkunum, en eins og fram hefur komið þá spila þau m.a. á hljóðfæri gerð úr skolprörum. Hópur nemenda hefur undanfarið æft leikritið Morð eftir Ævar Þór Benediktsson og verður það frumsýnt í lok apríl. Þetta leikverk er samstarfsverkefni með Þjóðleik, sem er leiklistarverkefni ungs fólks á landsbyggðinni í samstarfi við Þjóðleikhúsið.  Vitor Hugo Rodrigues Eugenio, kennari við Gerðaskóla, leikstýrir leikhópnum í Gerðaskóla.  Í næstu viku, nánar tiltekið þriðjudaginn 4. apríl verður blái dagurinn haldin hátíðlegan í tilefni af alþjóðlegum degi einhverfunnar. Þá eru allir hvattir til að klæðast bláu og foreldrar um leið hvattir til að ræða við og fræða börn sín um einhverfu.  Loks má nefna að lið Gerðaskóla keppti í gær í stóru upplestrarkeppninni sem fram fór í Grindavík og stóðu fulltrúar Gerðaskóla sig vel.  Framundan er síðan árshátíð skólans í næstu viku. Duglegir og athafnasamir nemendur í Gerðaskóla.

13 nótur
13 nótur
Lið Gerðaskóla í upplestrarkeppninni.
Lið Gerðaskóla í upplestrarkeppninni.

Bæjarráð.

Í vikunni var fundur hjá bæjarráði, á dagskrá fundarins kenndi ýmissa grasa. Lögð voru fram drög að ársreikningi 2016, sem fer til fyrri umræðu í bæjarstjórn í næstu viku. Samþykktar voru umsagnir um tvö þingmál á Alþingi, annars vegar mælt gegn samþykkt breytinga á lögum sem fela í sér afnám lágmarksútsvars og hins vegar mælt með að Alþingi samþykki tillögu um að Landhelgisgæslan verði flutt í Reykjanesbæ. Bæjarstjórinn lagði fram minnisblað um húsnæðismál og samþykkti bæjarráð að skoða kosti þess að eiga samstarf við húsnæðissjálfseignarstofnanir um fjölgun leiguíbúða í sveitarfélaginu. Lagður var fram samstarfssamningur sveitarfélagsins og Ferskra vinda vegna listahátíðarinnar Ferskir vindar sem fram fer í desember og janúar næstkomandi. Þá má nefna að ákveðið var að staðsetja rafmagnshleðslustöð fyrir rafmagnsbifreiðir við Íþróttamiðstöðina. Þá samþykkti bæjarráð starfslýsingu og starfsheiti Frístunda-, menningar-og lýðheilsufulltrúa sveitarfélagsins. Alltaf nóg um að vera hjá bæjarráði.

Framkvæmdir.

Nokkuð er um framkvæmdir í sveitarfélaginu um þessar mundir. HS Veitur hafa undanfarna mánuði unnið að endurnýjun vatnslagna í Útgarði og sér nú fyrir endan á þeim framkvæmdum. Míla hefur unnið að því að stórbæta fjarskiptasambönd í bænum. Þá eru framkvæmdir hafnar á vegum sveitarfélagsins við uppbyggingu salernishúss við byggðasafnið á Garðskaga og unnið er að lagfæringum og uppsetningu leiktækja á opnu leiksvæði barna. Framundan eru margvísleg verkefni á vegum sveitarfélagsins og verður mikið um að vera í þeim efnum á árinu. Þegar mikið er um að vera í framkvæmdum og alls kyns verkefnum, þá reynir á starfsmenn sveitarfélagsins. Þeir Jón Ben og Einar Friðrik á Umhverfis-, skipulags-og byggingarsviði hafa í mörgu að snúast og þurfa að meðhöndla alls konar gögn og upplýsingar. Myndin hér fyrir neðan ber það m.a. með sér.

Mikið að gera hjá Jóni og Einari.
Mikið að gera hjá Jóni og Einari.
Steypuvinna við salernishúsið.
Steypuvinna við salernishúsið.
Framkvæmdir á opnu leiksvæði barna.
Framkvæmdir á opnu leiksvæði barna.

Ferðaþjónustan.

Nú hillir undir að Hotel Lighthouse Inn opni, en framkvæmdir við uppbyggingu hótelsins hafa staðið yfir í allan vetur. Ferðaþjónustan á Garðskaga er í uppbyggingu og hefur verið vart við stöðuga aukningu á umferð út á Garðskaga síðustu vikur. Veitingahúsið Röst hefur notið mikilla vinsælda og stutt er í að kaffihúsið í gamla vitanum opni aftur eftir lokun í vetur. Að undanförnu hafa nokkrir ferðalangar slegið upp tjöldum og gist á Garðskaga, svo ekki sé minnst á húsbílana og Camper gistibílana. Gera má ráð fyrir að umferð ferðafólks í Garðinn aukist jafnt og þétt næstu vikur, en samkvæmt mælingum er áætlað að vel yfir 200.000 gestir komi á Garðskaga á ári. Það voru því mikil vonbrigði að umsókn um endurbætur á bílastæðum á Garðskaga hlaut ekki náð hjá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða, en mjög aðkallandi er að lagfæra aðkomu og bílastæði á Garðskaga. Margir leggja leið sína á Garðskaga til að upplifa fegurð náttúrunnar, hér fyrir neðan er mynd tekin á Garðskaga í gærkvöldi og sýnir fallegt sólsetur með Snæfellsjökul í forgrunni.

Snæfellsjökull og sólsetrið.
Snæfellsjökull og sólsetrið.

Veðrið.

Nú í vikunni hefur verið sannkallað vorveður. Augljóst er að hefðbundin vorveður eru fyrr á ferðinni en oftast áður. Einhverjir farfuglar eru komnir, fyrr en venjulega og veturinn virðist víðs fjarri þótt ennþá sé marsmánuður.

Facebooktwittergoogle_plusmail