12. vika 2017.

Nótan.

Um þessar mundir er uppskeruhátíð tónlistarskólanna í landinu.  Nemendur Tónlistarskóla Garðs og Gerðaskóla í hljómsveitinni 13 nótur tók þátt í einni af undankeppnum hátíðarinnar um síðustu helgi. Hljómsveitin spilaði á tréspil og heimatilbúin „tubulum-hljóðfæri“, en þau eru gerð úr skolprörum og voru smíðuð af nemendum fyrr í vetur. Því miður náðu 13 nótur ekki að vinna sér þátttöku á lokakvöldi Nótunnar í ár, en þau vöktu verðskuldaða athygli fyrir sviðsframkomu, góðan flutning og ekki síst fyrir hljóðfærin sem þau notuðu. Á myndinni hér að neðan má sjá nemendur Gerðaskóla við smíði hljóðfæris úr skolprörum.

Hljóðfærasmiðir að störfum.
Hljóðfærasmiðir að störfum.

Heilsueflandi samfélag.

Nú í vikunni var vinnufundur á vegum Landlæknisembættisins, þar sem fulltrúar sveitarfélaga á Suðurnesjum og stofnana þeirra mættu og tóku virkan þátt. Umfjöllunarefnið var Heilsueflandi samfélag. Hér er um að ræða athyglisvert verkefni, en nokkur sveitarfélög hafa þegar skilgreint sig sem heilsueflandi samfélög. Það er mikilvægt fyrir alla að huga að heilsunni og heilbrigðu líferni, á vinnufundinum var m.a. fjallað um það hvernig samfélögin og stofnanir sveitarfélaganna geta beitt sér í þeim efnum.

IMG_2410

Alþjóðadagur vatns í Leikskólanum Gefnarborg.

Nú í vikunni var alþjóðadagur vatns og tók leikskólinn þátt í að vekja athygli á honum. Vatn er ein megin undirstaða alls lífs og því skiptir öllu máli að hafa aðgang að hreinu og góðu vatni. Við íslendingar erum heppin að hafa opinn aðgang að hreinu og heilnæmu vatni, en því miður búa margir jarðarbúar við verri aðstæður í þeim efnum. Það er gott framtak að vekja börnin á leikskólanum til umhugsunar um vatnið og mikilvægi þess, ásamt því að börnin voru hvött til að drekka nóg af vatni.

Vatn í leikskólanum.
Vatn í leikskólanum.

Dagur Norðurlanda – Norræna félagið í Garði 10 ára.

Í gær þann 23. mars var Dagur Norðurlanda. Um þessar mundir eru 10 ár frá því að Norræna félagið í Garði var stofnað og hélt félagið afmælishátið af því tilefni í gærkvöldi. Sveitarfélagið Garður hefur átt gott samstarf við Norræna félagið, en sveitarfélagið á vinabæi í þremur hinna Norðurlandanna og hefur Norræna félagið lykilhlutverk í samskiptum við þau. Meðal skemmtiatriða á afmælishátíðinni var söngur Söngsveitarinnar Víkinga, sem flutti nokkur lög en söngsveitin fer í tónleikaferð í vor, m.a. til Nybro sem er vinabær Garðs í Svíþjóð. Erna M Sveinbjarnardóttir er formaður félagsins og Jónína Holm fór fyrir afmælisnefnd félagsins sem undirbjó afmælishátíðina.

Jónína og Erna á afmælishátíð Norræna félagsins í Garði.
Jónína og Erna á afmælishátíð Norræna félagsins í Garði.

Landsþing sveitarfélaga.

Í dag, föstudag er Landsþing sveitarfélaga. Þar mæta fulltrúar allra sveitarfélaga og fara yfir ýmis hagsmunamál sveitarfélaganna og íbúa þeirra. Samband íslenskra sveitarfélaga annast undirbúning og framkvæmd þingsins að venju, en Sambandið er mikilvægur samstarfs vettvangur sveitarfélaganna í landinu og vinnur að hagsmunamálum þeirra, m.a. gagnvart ríkisvaldinu. Að loknu Landsþingi verður aðalfundur Lánasjóðs sveitarfélaga.

Góða helgi !

 

Facebooktwittergoogle_plusmail