11. vika 2017.

Safnahelgi í Garði.

Um síðustu helgi voru Safnadagar á Suðurnesjum og voru fjögur söfn í Garði opin fyrir gestum. Það voru einkasöfn þeirra Ásgeirs Hjálmarssonar, Hilmars Foss og Helga Valdimarssonar, auk byggðasafnsins á Garðskaga. Mikil aðsókn var að öllum þessum söfnum og má áætla að alls hafi hátt í 1.000 gestir komið í öll þessi söfn um helgina. Mikil umferð var í Garðinum í tengslum við safnahelgina og tókst mjög vel til. Þeir Ásgeir, Hilmar og Helgi fá miklar þakkir fyrir að opna sín einkasöfn fyrir almenningi, það er í raun ótrúlegt hvað allir þessir aðilar hafa lagt mikið af mörkum við að koma upp sínum söfnum. Það er fjölbreytt flóra af söfnum í Garðinum.

Ásgeir við Renault árg. 1946, sem hann gerði upp frá grunni.
Ásgeir við Renault árg. 1946, sem hann gerði upp frá grunni.
Hilmar í sínu einkasafni, þar sem eru m.a. Jaguar bifreiðir.
Hilmar í sínu einkasafni, þar sem eru m.a. Jaguar bifreiðir.

Frjálsíþróttanámskeið.

Næstu þrjár vikurnar verður frjálsíþróttanámskeið fyrir börn í Íþróttamiðstöðinni. Íris Dögg Ásmundsdóttir annast námskeiðið og mættu um 60 börn á fyrstu æfingu nú í vikunni. Það verður fróðlegt að fylgjast með hvernig gengur hjá krökkunum, aldrei að vita nema í þessum hópi leynist framtíðar afreksfólk í frjálsum íþróttum.

Íris Dögg með framtíðar frjálsíþróttahetjum Garðs.
Íris Dögg með framtíðar frjálsíþróttahetjum Garðs.

Leikskólinn Gefnarborg – vika tileinkuð læsi.

Síðasta vika var tileinkuð læsi í leikskólanum, en þar er unnið markvisst með læsi alla daga. Farið var í heimsókn á bókasafnið, ásamt því að unnið er með verkefnið „Orð að heiman“ sem felur í sér að foreldrar lesa bækur fyrir börn sín heima og börnin fara síðan með orð úr viðkomandi bók í leikskólann þar sem orðið er krufið og útskýrt. Þetta er gott framtak hjá leikskólanum, enda er öllum mikilvægt að hafa gott vald á læsi.

Bætt netsamband í Garði.

Undanfarið hafa íbúar kvartað yfir slæmu netsambandi, enda kallar tækni nútímans á góð og örugg netsambönd hvort sem á við um sjónvarpssendingar eða tölvusambönd. Eftir að kvartanir komu fram og eftir fund fulltrúa sveitarfélagsins með starfsmönnum Mílu, var brugðist hratt og vel við og þessa dagana vinnur Míla að framkvæmdum við að bæta netsambönd í bænum. Á næstu vikum munu íbúar í Garði búa við betra netsamband en verið hefur. Garðbúar vilja vera vel tengdir.

Skipulagsmál.

Nú er unnið að breytingum á aðalskipulagi sveitarfélagsins og hefur matslýsing um breytingarnar verið auglýst. Þá er unnið að endurskoðun deiliskipulags Teiga-og Klapparhverfis, en gildandi deiliskipulag hverfisins var staðfest árið 2007. Þá er unnið að nýju deiliskipulagi fyrir íbúðabyggð í Útgarði. Sú breyting hefur orðið á um það bil einu og hálfu ári, að í stað þess að fjöldi íbúða stóðu ónotaðar í sveitarfélaginu hefur nánast allt laust íbúðarhúsnæði selst og er þegar kominn fram skortur á íbúðarhúsnæði. Sú vinna sem nú er í gangi við deiliskipulög í tveimur íbúðahverfum er viðleitni sveitarfélagsins til þess að mæta eftirspurn eftir íbúðalóðum, sem nú þegar er komin fram. Á næstunni má búast við að uppbygging íbúðarhúsnæðis hefjist á ný, en allmörg ár eru síðan síðast var íbúðarhús í byggingu í Garði.

Þjónustusamningur um skólaþjónustu.

Sveitarfélagið hefur undanfarin ár notið þjónustu Fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar, sem hefur veitt Gerðaskóla og leikskólanum Gefnarborg þjónustu. Þar sem fyrri samningur rann út í ársbyrjun hefur verið undirritaður nýr þjónustusamningur, sem gildir út skólaárið 2017-2018. Bæjarstjórar Garðs og Reykjanesbæjar undirrituðu samninginn í dag, að Helga Arnarssyni fræðslustjóra viðstöddum. Auk þjónustu við nemendur og skólana, miðar samningurinn að öflugu og góðu samstarfi skólanna á þjónustusvæði Fræðsluskrifstofunnar.

Magnús og Kjartan Már bæjarstjórar undirrita samninginn að Helga viðstöddum.
Magnús og Kjartan Már bæjarstjórar undirrita samninginn að Helga viðstöddum.

Veðrið.

Við höfum verið laus við hefðbundið vetrarveður nú um miðjan mars. Segja má að veðurfarið síðustu vikuna minni frekar á vortíð en vetrartíma. Í dag er glampandi sól, norðlægur andvari og hitastig nokkrar gráður yfir frostmarki.

Góða helgi.

 

 

 

 

 

 

Facebooktwittergoogle_plusmail