10. vika 2017.

Bæjarstjórnarfundur.

Í síðustu viku var fundur bæjarstjórnar Garðs. Á dagskrá voru ýmsar fundargerðir nefnda og stjórna til afgreiðslu. Segja má að þar hafi borið hæst fundargerðir Skipulags-og byggingarnefndar, þar sem fjallað er um skipulagsmál, ásamt því að samþykkt var úthlutun á lóð undir íbúðarhúsnæði. Samþykkt var tillaga að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins, þar sem helst er um að ræða breytingar á skipulagssvæðum á Miðnesheiði við Rósaselstorg. Þessi breyting á aðalskipulagi er háð því að nýtt aðalskipulag Keflavíkurflugvallar verði staðfest, en eftir ótrúlegar tafir á afgreiðslu þess máls hjá Skipulagsstofnun vísaði stofnunin staðfestingu aðalskipulags Keflavíkurflugvallar til umhverfisráðherra til staðfestingar. Í ályktun bæjarstjórnar um það mál er skorað á umhverfisráðherra að staðfesta aðalskipulag Keflavíkurflugvallar hið fyrsta, enda hafa tafir á því valdið töfum á uppbyggingu á svæðinu.  Þá fjallaði bæjarstjórn um vinnslu á deiliskipulagi á tveimur íbúðarsvæðum í sveitarfélaginu, stefnt er að því að ljúka þeirri vinnu svo fljótt sem kostur er.

Bæjarráð.

Í þessari viku var fundur í bæjarráði. Þar var m.a. fjallað um minnisblað frá félagsþjónustunni með upplýsingum um stöðu húsnæðismála. Þar kemur fram að mikill skortur er á íbúðarhúsnæði í Garði og fyrir liggja vel á annan tug umsókna um félagslegt húsnæði í sveitarfélaginu. Þá samþykkti bæjarráð drög að samningum um starfsemi í byggðasafni og um listahátíðina Ferska Vinda, sem verður haldin kringum næstu áramót.

Safnahelgi á Suðurnesjum.

Nú um komandi helgi verður Safnahelgi á Suðurnesjum, þar sem gjaldfrjálst verður í mörg söfn á svæðinu og er fólk hvatt til þess að njóta safnanna. Í Garði bjóða fjögur söfn gesti velkomna. Það er byggðasafnið á Garðskaga, einkasafn Ásgeirs Hjálmarssonar að Skagabraut 17, einkasafn Hilmars Foss að Iðngörðum 2 og ævintýragarður Helga Valdimarssonar að Urðarbraut 4. Öll þessi söfn eru mjög áhugaverð og er fólk hvatt til þess að heimsækja þau um helgina. Nánari upplýsingar um Safnahelgi á Suðurnesjum má m.a. finna á heimasíðu sveitarfélagsins, svgardur.is.

Rafrettur, böl eða blessun?

Næsta mánudag verður málþing í Fjölbrautarskóla Suðurnesja kl. 17:00, undir yfirskriftinni Rafrettur, böl eða blessun? Þar er ætlað að varpa ljósi á það hvort rafrettan sé nýr lífsstíll eða óvægin markaðssetning sem beinist einkum að ungmennum eða nýjum notendum rafretta. Málþingið er samstarfsverkefni Samsuð (Samtaka félagsmiðstöðva á Suðurnesjum) og Fjölbrautarskóla Suðurnesja. Þess má geta að hægt verður að fylgjast með málþinginu á vef Víkurfrétta, vf.is þar sem verður bein útsending. Sitt sýnist hverjum um þetta mál.

Húsnæðismál.

Mikið hefur verið fjallað um húsnæðismál að undanförnu og er víst að sú umræða mun halda áfram og líklega færast aukinn þungi í hana. Á undanliðnu einu og hálfu ári hafa nánast allar fasteignir sem hafa verið til sölu í Garði verið seldar, enda hefur íbúum fjölgað mjög á síðast liðnu ári. Nú er húsnæðisskortur orðinn áþreifanlegur og er mikil eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu. Eins og fram kemur í umfjöllun um skipulagsmál á fundi bæjarstjórnar í síðustu viku, þá er mikil vinna í gangi hjá sveitarfélaginu við að auka lóðaframboð til að mæta eftirspurn. Hér er um að ræða stórt og mikilvægt mál, sem mikil áhersla verður á hjá sveitarfélaginu á næstunni. Garðurinn er að springa út.

Nýir íbúar.

Í vikunni áttu bæjarfulltrúar og bæjarstjóri fund með stjórnendum IGS á Keflavíkurflugvelli, en IGS hefur tekið húsnæði Garðvangs á leigu hjá nýjum eigendum hússins. Á fundinum fóru fulltrúar IGS yfir það sem framundan er, en yfir 70 erlendir starfsmenn fyrirtækisins munu búa í húsinu, vera þar með lögheimili og greiða skatta og gjöld til sveitarfélagsins. Von er á fyrstu íbúunum í byrjun apríl. Á fundinum með IGS var farið yfir hvernig haldið verður utan um þennan hóp íbúa og jafnframt kom fram að um er að ræða hóp starfsmanna sem samanstendur af báðum kynjum og mun starfa við ýmis störf á vegum IGS á Keflavíkurflugvelli. Hér er um að ræða mikilvægt samstarfsverkefni sveitarfélagsins og IGS, með það að markmiði að bjóða þessa nýju íbúa velkomna og samlaga þá að samfélaginu. Þetta þýðir að íbúum sveitarfélagsins mun fjölga umtalsvert og tekjur sveitarfélagsins munu að sama skapi aukast.

Öskudagur á sér 18 bræður.

Öskudagurinn var í síðustu viku, þann dag var einmuna veðurblíða með sólskini og blíðu veðri. Samkvæmt þjóðtrúnni á Öskudagur sér 18 bræður og því má vænta þess að áfram verði veðurblíða ríkjandi, eins og verið hefur frá því á Öskudag. Að venju var mikið um að vera hjá börnunum á Öskudaginn. Þau klæddu sig upp sem alls kyns fígúrur og furðuverur, gengu í fyrirtæki og stofnanir þar sem þau sungu og fengu gott í gogginn í staðinn og í íþróttahúsinu var öskudagsskemmtun þar sem köttur var sleginn úr tunnu. Öll börnin fengu Pez kall í lok dagskrár í íþróttahúsinu. Það voru mörg glöð og ánægð börn á ferli í Garðinum þennan dag, enda alltaf spennandi að taka þátt í svona hátíðarhöldum. Hér að neðan eru nokkrar myndir frá öskudeginum í síðustu viku.

IMG_4163

IMG_4180

IMG_4170

Veðrið.

Eins og fram kemur í umfjöllun um Öskudaginn, þá hefur verið einmuna veðurblíða undanfarna daga. Það er vorblær í lofti þótt svo ekki sé komið fram í miðjan mars. Snjórinn sem þakti jörðu um daginn er bráðinn, en ennþá eru nokkrar snjóhrúgur eftir snjómokstursmenn á nokkrum stöðum. Þær hrúgur rýrna dag frá degi og er stutt í að þær snjóleifar hverfi að fullu.

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail