8. vika 2017.

Íbúafundur um sameiningarmál.

Í vikunni voru íbúar boðaðir til fundar vegna úttektar á kostum og göllum sameiningar sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðisbæjar. Mjög góð mæting var á fundinum og virk þátttaka yfir 100 íbúa sem mættu. Verkefnið heldur nú áfram og er mikið verk að vinna úr öllum þeim gögnum og upplýsingum sem safnað hefur verið saman, þar á meðal fjölmörgum ábendingum og sjónarmiðum sem fram hafa komið frá íbúunum. Kærar þakkir garðbúar fyrir virka þátttöku og áhuga á þessu verkefni. Hér að neðan eru myndir frá íbúafundinum.

Íbúafundur um sameiningu 220217

íbúafundur 220217

Bæjarráð.

Í gær, fimmtudag var fundur í bæjarráði. Margvísleg mál voru þar á dagskrá, að vanda. Meðal þeirra má nefna að samþykktur var samningur við Víði um stuðning sveitarfélagsins við tiltekna þætti í starfsemi félagsins, auk þess að samþykktur var styrkur til félagsins vegna mikils ferðakostnaðar á komandi sumri. Þá má nefna að samþykkt var að eiga samstarf við Sjónvarp Víkurfrétta, sem felur í sér stuðning sveitarfélagsins við þáttagerð og fréttaflutning af Suðurnesjum.

Margt um að vera í leikskólanum.

Það er jafnan mikið um að vera í leikskólanum og margt skemmtilegt sem þar er tekið upp á. Nú í vikunni var skiptimarkaður, þar sem foreldrar komu m.a. með fatnað sem börnin hafa vaxið upp úr en er óslitinn og vel nýtilegur fyrir minni börnin. Þetta er frábær hugmynd sem miðar að endurnýtingu og minni sóun. Í dag, föstudag er „Öfugsnúinn dagur“, þar sem öllu á að snúa á hvolf. Gaman að fylgjast með fjölbreyttu og líflegu starfi hjá leikskólanum.

Norðurljósaparadísin Garðskagi.

Nú í gærkvöldi, fimmtudag, voru góð skilyrði á Garðskaga til að sjá norðuljósin dansa á himni. Fjöldi fólks var á ferðinni til að njóta. Á svona kvöldum eru nánast öll ljós á Garðskaga slökkt, nema að sjálfsögðu vitaljósið í sjálfum Garðskagavita. Það skapar enn betri skilyrði til að sjá og njóta norðurljósanna. Myndina hér að neðan tók Kjartan Guðmundur Júlíusson í gærkvöldi.

Garðskagi 23.feb 2017

Félagsmiðstöðin Eldingin.  

Mikið er jafnan um að vera í félagsmiðstöðinni. Í vikunni var haldið diskó þar sem þemað var „brjálað hár“ og mættu krakkar í 1. – 7. bekk og skemmtu sér við leiki og dans. Myndin hér að neðan er frá diskóinu og ber með sér stemmninguna hjá krökkunum.

Eldingin.ruglað hár

Víðir.

Meistaraflokkur Víðis í knattspyrnu undirbýr sig af miklum krafti fyrir komandi sumar. Um síðustu helgi vann Víðir góðan sigur á grönnum sínum Þrótti í Vogum 4-2 í Fótbolti.net mótinu, en síðan tapaði Víðir úrslitaleik mótsins gegn Kára á Akranesi 4-1. Víðisliðið er á góðu róli í sínum undirbúningi, enda mikil tilhlökkun fyrir komandi íslandsmóti.

Unglingaráð Víðis og Reynis hafa átt gott samstarf um yngri flokka félaganna og nú hefur nýtt, öflugt og áhugasamt fólk komið inn í starf Unglingaráðs fyrir hönd Víðis. Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með þessu jákvæða og góða samstarfi félaganna, sem hefur gengið vel og almenn ánægja ríkir um.  Aðalfundur Víðis verður mánudaginn 27. febrúar í Víðishúsinu og hefst kl. 20:00.  Áfram Víðir !

Sól hækkar á lofti.

Allt í einu er febrúar að renna sitt skeið á enda og mars að taka við. Tíminn flýgur hratt, sem felur í sér að sól hækkar hratt á lofti. Daginn er farið að lengja verulega og óðum styttist í vorið. Veðurfarið hefur ekki verið í beinum takti við dagatalið undanfarnar vikur og mánuði, því flesta daga hefur verið nánast vorveður, með ekki mörgum undantekningum. Fyrr en varir verður komið vor og vonandi gott sumar í kjölfarið.

Veðrið.

Það hefur verið létt sveifla á veðrinu þessa vikuna. Flesta daga hafa verið suðlægar áttir með hlýindum og oft rigningu. Á miðvikudaginn snjóaði létt en þann snjó tók fljótt upp. Í gær fimmtudag snjóaði, eins og myndin frá Garðskaga hér að ofan ber vitni um. Í dag hefur verið varað við óveðri um allt land, þegar þetta er skrifað hefur vegum í nágrenni höfuðborgarinnar verið lokað og gefið hefur verið út að Reykjanesbraut verði lokað fyrir umferð um tíma eftir hádegi í dag. Vonandi verður þokkalegt veður um helgina.

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail