7. vika 2017.

Fundahöld vikunnar.

Þessi vika var óvenju þétt skipuð fundum hjá bæjarstjóranum. Á mánudaginn var árlegur fundur með lögreglustjóra og hans fólki, þar sem farið var yfir ýmis málefni. Þar var m.a. birt tölfræði um skráð mál hjá lögreglunni og tengjast Garði. Að venju var lítið um slík mál á síðasta ári, sem sýnir m.a. fram á hve gott og friðsælt samfélagið er í Garði. Á mánudaginn var einnig fundur með fulltrúum frá Mílu, þar sem farið var yfir fjarskiptakerfið og ástand þess í Garði. Í ljós hefur komið að þar er ýmsu ábótavant og mun Míla ráðast í tilteknar aðgerðir á næstu vikum til að koma ástandi fjarskiptanetsins í gott horf.

Þá var á mánudaginn samráðsfundur í Hljómahöllinni, sem verkefnastjórn á vegum Innanríkisráðuneytisins um eflingu sveitarstjórnarstigsins boðaði til. Markmið með störfum verkefnastjórnarinnar er að leggja fram tillögur sem stuðla að stærri, öflugri og sjálfbærum sveitarfélögum, ásamt breytingum á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Umfjöllun um þessi mál hefur verið viðvarandi um mjög langt skeið og er hvergi nærri lokið. Jafnframt er um að ræða mikilvægt mál því sveitarfélögin í landinu eru nú 74 og eru mjög mismunandi eftir stærð, bæði landfræðilega og eftir íbúafjölda og að mörgu öðru leyti. Sveitarfélögin hafa því misjafna burði til að standa almennilega að þeim verkefnum sem þeim ber að sinna, svo ekki sé talað um ef sveitarfélögin eiga að taka að sér aukin verkefni frá ríkinu á komandi árum.

Þingmenn Suðurkjördæmis komu í sína árlegu yfirferð um kjördæmið á fund okkar sveitarstjórnarfólks á Suðurnesjum. Þar fór fram umræða um hin ýmsu málefni svæðisins, auk þess sem farið var í vettvangsferð um Helguvíkurhöfn og skoðuð nýbygging hótels í Garði. Hópurinn snæddi síðan dýrindis hádegisverð í veitingahúsinu Röst á Garðskaga. Við áttum góða samveru, ásamt því að fá tækifæri til að ræða saman um margvísleg málefni og hagsmunamál íbúanna á Suðurnesjum.

Þingmenn og sveitarstjórnarmenn funda í Duus
Þingmenn og sveitarstjórnarmenn funda í Duus
Gísli Heiðarsson kynnir hótelbyggingu í Garði
Gísli Heiðarsson kynnir hótelbyggingu í Garði

Loks má nefna vetrarfund Reykjanes Jarðvangs og Markaðsstofu Reykjaness í gær, fimmtudag. Þar voru að vanda flutt góð erindi sem aðallega tengdust ferðaþjónustu. Einnig voru veittar viðurkenningar, annars vegar hlaut Johan D Jónsson þakkarverðlaun ferðaþjónustunnar fyrir vel unnin störf og framlag til uppbyggingar ferðaþjónustu á Reykjanesi, hins vegar hlutu veitingahúsið Vitinn og Rannsóknarsetur Háskólans í Sandgerði hvatningarverðlaun ferðaþjónustunnar.

Norðurljósin á Garðskaga.

Þrátt fyrir nánast stöðugar sunnanáttir að undanförnu, hefur eitt og eitt kvöld mátt sjá norðurljósin frá Garðskaga. Nú í vikunni hafa nokkur hundruð erlendra ferðamanna komið á Garðskaga til að njóta norðurljósanna. Það er áhugavert að fylgjast með þessum góðu gestum okkar upplifa norðurljósin, flestir eiga varla orð til að lýsa hrifningu sinni. Það hefur því verið erill við Garðskagavita og í veitingahúsinu Röst, þar sem ferðalangar hafa notið góðrar þjónustu. Hér eru myndir af norðurljósum sem Jóhann Ísberg tók á Garðskaga í síðustu viku.

Norðurljós og ferðamenn við gamla vitann.
Norðurljós og ferðamenn við gamla vitann.

Norðurljós 2.2.17

Sameiningarmál, íbúafundir í næstu viku.

Í næstu viku verða haldnir íbúafundir í Garði og Sandgerði, sem liður í úttekt á kostum og göllum sameiningar sveitarfélaganna. Íbúafundurinn í Garði verður miðvikudaginn 22. febrúar kl. 19:30 í Gerðaskóla, en í Sandgerði fimmtudaginn 23. febrúar kl. 17 í Vörðunni. Íbúar eru hvattir til þess að mæta vel á þessa íbúafundi og taka þannig virkan þátt í þessu verkefni. Þess má geta að íbúar hvors sveitarfélags eru velkomnir á fundina í báðum sveitarfélögunum.

Konudagurinn.

Nú er Þorri að renna sitt skeið á enda, á morgun laugardag verður Þorraþræll, sem er síðasti dagur Þorra. Konudagurinn er á sunnudaginn, við upphaf Góu. Veðurfar á Þorra hefur yfirleitt verið mun erfiðara en að þessu sinni, oft hafa verið vetrarhörkur með snjó og frostatíma, enda um hávetur. Í tilefni konudagsins er konudagskaffi á leikskólanum Gefnarborg í dag, föstudag, þar sem öllum mömmum og ömmum er boðið í heimsókn og þiggja kaffiveitingar. Þetta er skemmtilegt uppátæki hjá leikskólanum. Við karlar óskum konum til hamingju með konudaginn, svona fyrirfram 🙂 Hér er auglýsing í leikskólanum, þar sem vakin er athygli á konudagskaffinu.

Leikskóli konudagskaffi 2017

Veðrið.

Að undanförnu hefur verið vorveður, um miðjan febrúar ! Meira er ekki um það að segja.

Góða helgi og gleðilegan konudag !

Facebooktwittergoogle_plusmail