6. vika 2017.

Danskeppni Samfés.

Sl. föstudag hélt Samfés danskeppni fyrir ungmenni á efsta stigi grunnskólanna. Keppnin fór fram í félagsheimilinu á Seltjarnarnesi og tókst mjög vel, en 10 lið frá 10 félagsmiðstöðvum tók þátt. Fulltrúar félagsmiðstöðvarinnar Eldingar í Garði voru þær Halla Líf Marteinsdóttir, Ína Sigurborg Stefánsdóttir og Eliza Taylor, en þær æfa allar dans hjá Bryn Ballett Akademíu. Þær stóðu sig mjög vel og voru verðugir fulltrúar Eldingar í keppninni.

Dansarar frá Eldingu.
Dansarar frá Eldingu.

Söngvakeppni Kragans.

Í kvöld, föstudag verður söngvakeppni Kragans í íþróttahúsinu á Álftanesi. Þar munu fulltrúar félagsmiðstöðva etja kappi í söngvakeppni. Fulltrúi félagsmiðstöðvarinnar Eldingar verður Magnús Orri Arnarson og óskum við honum góðs gengis.

Kynning á bandarískum Football í Gerðaskóla.

Sl. mánudag kom ruðningsleikmaðurinn Nicholas Woods í Gerðaskóla og kynnti bandarískan ruðning (Football) fyrir nemendum í elstu bekkjum. Mikill áhugi og fjör var meðal nemendanna og greinilegt að þau nutu þess að taka þátt í þessum hressilega leik. Ekki skemmdi fyrir að framundan var stórleikurinn Super Bowl í bandarísku ruðningsdeildinni, þannig að áhuginn var eflaust meiri fyrir vikið. Þetta var skemmtilegt innlegg í skólastarfið og ekki útilokað að meðal nemenda leynist framtíðar leikmenn í bandarískum ruðningi. Myndin hér fyrir neðan er af hópnum sem spreytti sig í Football, ásamt Nicholas Woods þjálfara.

IMG_3901

Dagur leikskólans sl. mánudag.

Á mánudaginn var dagur leikskólans. Þá var mikið um að vera á Gefnarborg, þar sem börnin unnu m.a. í ýmsum verkefnum og listasmiðjum. Myndirnar hér að neðan eru fengnar af Facebook síðu leikskólans Gefnarborgar og þar má sjá dugnaðinn og áhugann hjá börnunum í listsköpuninni.

Dagur leikskólans 2017.

Dagur leikskólans 2017

Bæjarráð.

Fundur var í bæjarráði í vikunni. Ýmis mál voru á dagskrá að vanda. Þar má m.a. nefna samning við Útskálasókn um stækkun kirkjugarðsins við Útskálakirkju. Minnisblað frá bæjarstjóra um eftirlitsmyndavélar við innkomur í bæinn, en áhugi hefur verið meðal bæjarfulltrúa og íbúa á því að koma upp innkomuvöktun við bæjarmörkin. Bæjarstjóra var falið að vinna málið áfram og skila tillögum til bæjarráðs. Þá má nefna að fjallað var um drög að endurnýjuðum samningi við Fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar um þjónustu við Gerðaskóla og leikskólann Gefnarborg. Loks voru á dagskrá fundargerðir frá nokkrum nefndum og starfshópum, m.a. um atvinnu-og þróunarsvæði á Miðnesheiði, um umhverfi og uppbyggingu á svæðinu við Útskálar og fundargerð frá stýrihópi vegna úttektar á kostum og göllum sameiningar sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðisbæjar. Það kennir alltaf ýmissa grasa í dagskrá bæjarráðs.

Netsambönd í Garðinum.

Nú í vikunni varð nokkur umræða meðal garðbúa um netsambönd í bænum. Í ljós hefur komið að mikið vantar upp á að netsamband sé viðunandi, m.a. vegna truflana í sjónvarpsútsendingum og tölvusamskiptum. Fulltrúar sveitarfélagsins áttu góð samskipti við Mílu og Símann um þessi mál í vikunni, eftir helgina munu fulltrúar frá Mílu koma til fundar við okkur á bæjarskrifstofunni þar sem farið verður yfir stöðuna og aðgerðir sem framundan eru til þess að netsamband í Garðinum verði eins og vera ber. Í samfélagi nútímans skiptir gott fjarskiptasamband miklu fyrir alla.

Sameining sveitarfélaga ?

Eins og fram hefur komið er nú unnið að því að greina kosti og galla þess að sameina sveitarfélögin Garð og Sandgerðisbæ. Nú í byrjun febrúar fór fram könnun meðal íbúa sveitarfélaganna um ýmislegt sem málið varðar. Þátttaka var ágæt og þökkum við íbúum fyrir þátttökuna, en könnunin skilaði mikilvægum upplýsingum sem nýtast í verkefninu. Nú í gær og í dag vinna bæjarstjórnir sveitarfélaganna saman að því að greina drifkrafta og óvissuþætti til framtíðar og framundan eru íbúafundir þar sem leitað verður eftir frekari þátttöku íbúanna í verkefninu. Íbúafundirnir verða nánar auglýstir í næstu viku og eru íbúar hvattir til þess að mæta og leggja sitt af mörkum. Þetta er spennandi og áhugavert verkefni sem mun án efa nýtast vel til framtíðar, hvort sem af sameiningu sveitarfélaganna verður eða ekki. Það kemur allt saman í ljós síðar.

Dagur tónlistarskólans á morgun.

Á morgun, laugardaginn 11. febrúar verður dagur tónlistarskólans. Af því tilefni munu nemendur tónlistarskólans koma fram á tónleikum í Miðgarði, sal Gerðaskóla. Tónleikarnir hefjast kl. 11:00.  Garðbúar eru hvattir til að fjölmenna og njóta góðrar tónlistar.

Tónlistarskólinn Garði

Góð aðsókn að Íþróttamiðstöðinni.      

Árið 2016 voru alls um 67 þúsund komur í Íþróttamiðstöðina. Komum fjölgaði um rúmlega 6 þúsund frá árinu 2015. Mest aukning á aðsókn var í líkamsræktina, enda er öll aðstaða þar eins og best verður á kosið. Vonir standa til að aðsókn aukist enn meira í ár, ekki síst þar sem íbúar sveitarfélagsins hafa nú gjaldfrjálsan aðgang að sundlauginni. Líkamlegt atgervi garðbúa fer batnandi ár frá ári um þessar mundir.

Samningur við Víðir.

Nú í morgun undirrituðu bæjarstjóri og Guðlaug Sigurðardóttir formaður Víðis samning milli sveitarfélagsins og Knattspyrnufélagsins Víðis, sem er viðauki við gildandi samstarfssamning. Í samningnum felst annars vegar að Víðir fær fjárframlag frá sveitarfélaginu til að mæta kostnaði vegna framkvæmdastjóra félagsins og hins vegar styrkir sveitarfélagið Víðir vegna mikils ferðakostnaðar á komandi leiktíð í 2. deild, en fyrirsjáanlegt er að Víðir þarf að leggjast í mikil og kostnaðarsöm ferðalög í útileiki víða um landið í sumar. Sveitarfélagið og Víðir eiga mikið og gott samstarf sem nýtist íbúum sveitarfélagsins á margan hátt. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá mikla gleði ríkja hjá bæjarstjóra og formanni Víðis við undirritun samningsins í morgun.

IMG_3920

Álagning fasteignagjalda.

Nú er lokið álagningu fasteignagjalda þetta árið. Á heimasíðu sveitarfélagsins, svgardur.is má finna allar nánari upplýsingar varðandi álagningu fasteignagjalda.

Veðrið.

Að undanförnu hefur veðurfarið verið líkt og á öðrum árstíma en um hávetur í febrúar. Hlýindi og sunnan áttir hafa verið ríkjandi. Ennþá hafa starfsmenn sveitarfélagsins að mestu verið lausir við að munda skóflur og moksturstæki vegna snjóa.

Góða helgi !

 

 

Facebooktwittergoogle_plusmail