5. vika 2017.

Nú er tími flensunnar og ýmiskonar krankleika. Bæjarstjóri fór ekki varhluta af því í síðustu viku og er það ástæða þess að engir molar fóru í loftið fyrir viku síðan. Nú er heilsufarið komið í samt lag.

Þorrablót í Garði.

Fyrsta laugardag í Þorra var þorrablót suðurnesjamanna haldið í Íþróttamiðstöðinni í Garði. Rúmlega 600 manns mættu til að blóta Þorra, mikil og góð stemmning og skemmtilega jákvætt andrúmsloft sveif yfir borðum. Knattspyrnufélagið Víðir og Björgunarsveitin Ægir stóðu að þorrablótinu og framkvæmd þess. Þetta var í 8. skipti sem þorrablótið er haldið og mátti vel sjá hvað framkvæmdaraðilar eru í góðri æfingu við að halda svo fjölmenna og glæsilega samkomu, allur undirbúningur og framkvæmd tókst frábærlega. Kærar þakkir til Víðis og Ægis fyrir þorrablótið, sömuleiðis kærar þakkir allir sem mættu, fyrir skemmtilega samveru.

Allt var tilbúið tímanlega fyrir þorrablótið.

Rafmagnslausi dagurinn í leikskólanum.

Föstudaginn 27. janúar var rafmanglausi dagurinn í leikskólanum Gefnarborg. Þá mættu börnin með vasaljós og luktir í leikskólann, þar sem engin ljós voru kveikt þann dag. Það var mögnuð stemmning meðal barnanna í myrkrinu fram eftir morgni og eflaust hefur mörgum þeirra fundist það skrítið að engin ljós hafi verið kveikt. Þetta var sniðugt og gott framtak hjá leikskólanum, en hér að neðan eru myndir af Facebook síðu leikskólans Gefnarborgar frá rafmagnslausa deginum.

Rafmagnslausi dagurinn í leikskólanum.
Rafmagnslausi dagurinn í leikskólanum.

Minningarathöfn á Garðskaga.

Sunnudaginn 29. janúar sl. var minningarathöfn á Garðskaga, þegar þess var minnst að þann 29. janúar 1942 var Alexander Hamilton, skip US Coast Guard skotið niður og sökkt út af Garðskaga af þýskum kafbáti. 213 manns voru í áhöfn skipsins og íslenskir sjómenn björguðu flestum þeirra. 26 úr áhöfninni fórust. Fyrr í vetur var komið fyrir minningarskildi í anddyri Garðskagavita, með nöfnum þeirra sjóliða sem fórust. Landhelgisgæslan aðstoðaði við athöfnina, sem var hin hátíðlegasta. Meðal þeirra sem voru viðstaddir var fulltrúi aðstandenda þeirra sem fórust, þýskur sjóliðsforingi og fulltrúar Landhelgisgæslunnar, ásamt fleiri gestum, þ.á.m. nokkrum afkomendum íslensku sjómannanna sem björguðu þeim sem lifðu af.

Minningarathöfn.
Minningarathöfn.
Minningarskjöldur.
Minningarskjöldur.

Bæjarstjórn.

Í vikunni var fundur hjá bæjarstjórn Garðs. Að venju voru ýmsar fundargerðir nefnda, ráða og stjórna á dagskrá. Bæjarstjórn tók m.a. til afgreiðslu nokkur mál sem bæjarráð hafði áður fjallað um. Þar á meðal var skipan fulltrúa sveitarfélagsins í samstarfshóp með fulltrúum Sandgerðisbæjar og Sveitarfélagsins Voga, sem fær það verkefni að vinna að stefnu um þjónustu við aldraða í sveitarfélögunum. Þá staðfesti bæjarstjórn reglur um sérstakan húsnæðisstuðning og um fjárhagsaðstoð, sem Fjölskyldu-og velferðarnefnd hafði áður samþykkt.

Hjartamánuðurinn febrúar.

Undanfarin ár hefur Ísland tekið þátt í samstarfi alþjóða hjartasamtakanna og GoRed verkefnisins, þar sem febrúarmánuður er skilgreindur sem hjartamánuðurinn. Tilgangurinn er að vekja fólk til meiri vitundar um hjartasjúkdóma. Rauði dagurinn í ár er í dag, föstudaginn 3. febrúar og er starfsfólk sveitarfélaga og almenningur hvattur til að klæðast rauðum fatnaði til að minna á verkefnið. Garðbúar, klæðumst rauðu og tökum þátt.

Lífshlaupið.

Hið árlega lífshlaup hófst þann 1. febrúar. Lífshlaupið er heilsu-og hvatningarverkefni Íþrótta-og Ólympíusambands Íslands og höfðar til allra aldurshópa. Landsmenn eru hvattir til þess að huga að sinni daglegu hreyfingu og auka hana eins og kostur er, þ.e. í frítíma, heimilisverkum, vinnu, skóla og við val á ferðamáta. Fjölmörgir taka þátt, bæði sem einstaklingar og í liðum og nær til allra aldurshópa.  Að venju tekur lið starfsfólks á bæjarskrifstofunni í Garði þátt í lífshlaupinu, en undanfarin ár hefur okkur gengið mjög vel og flestir tekið góðan þátt í leiknum. Nú stefnum við hærra og hvetjum sem flesta að taka þátt í þessum skemmtilega leik. Skráning er á heimasíðunni lifshlaupid.is.

Lífshlaupið 2017

Allir lesa.

Föstudaginn 27. janúar hófst landsátakið Allir lesa. Þetta er lestrarlandsleikur þar sem allir eru hvattir til að skrá sig til leiks á vefinn allirlesa.is. Garðbúar eru hvattir til að skrá sig til leiks, þar sem þetta er að hluta til keppni milli sveitarfélaga. Þetta er gott tækifæri til þess að fara í bókasafnið í Gerðaskóla og fá sér góða bók til að lesa, en Garðbúar hafa gjaldfrjálsan aðgang að bókakosti bókasafnsins. Koma svo Garðbúar, tökum þátt !

Dagur leikskólans.

N.k. mánudag þann 6. febrúar verður dagur leikskólans. Að þessu sinni er lögð áhersla á að kynna leikskólakennarastarfið sem vænlegt framtíðarstarf, með sérstakri áherslu á karlmenn. Þetta verður í 10. skipti sem dagur leikskólans er haldinn hátíðlegur og verður væntanlega eitthvað skemmtilegt um að vera í leikskólanum Gefnarborg þann 6. febrúar.

Veðrið.

Veðurfarið í Garði hefur verið með ágætum að undanförnu, ekki síst ef litið er til þess að janúar hefur rétt runnið sitt skeið. Það hefur verið hlýtt í veðri og nánast enginn snjór á svæðinu. Eitt og eitt kvöld hafa sést dansandi norðurljós á himni. Þegar þetta er skrifað á föstudags morgni er hlýtt veður og rigning, snjófölin sem kom í gær er óðum að bráðna niður.

Góða helgi !

 

Facebooktwittergoogle_plusmail