3. vika 2017.

Bóndadagur og þorrablót.

Í dag, föstudaginn 20. janúar er Bóndadagur. Þar með hefst Þorrinn, sem tekur við af Mörsungi, samkvæmt fornu tímatali. Miklar hefðir eru fyrir því víða um land að halda þorrablót í Þorramánuði. Á morgun verður þorrablót Suðurnesjamanna haldið í íþróttahúsinu í Garði. Knattspyrnufélagið Víðir og Björgunarsveitin Ægir standa að þorrablótinu og reiknað er með að langt yfir 600 manns munu mæta, gæða sér á þorramat og skemmta sér saman. Til hamingju með daginn  !

Bóndadagur í leikskólanum.

Í tilefni Bóndadags bauð leikskólinn öllum pöbbum og öfum leikskólabarna í morgunmat með þorraívafi. Mæting var mjög góð, margir pabbar og afar mættu og gæddu sér á hafragraut og þorramat. Skemmtilegt framtak hjá leikskólanum og til þess fallið að viðhalda þorrahefðinni meðal barnanna.

Bæjarráð.

Í vikunni var fundur í bæjarráði. Þar var m.a. samþykkt var að skipa tvo fulltrúa sveitarfélagsins í vinnuhóp með fulltrúum Sandgerðisbæjar og Voga, sem móti tillögur um stefnu í þjónustu við aldraða. Bæjarstjóri lagði fram yfirlit yfir skatttekjur ársins 2016 og eru þær nokkuð hærri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Loks má nefna að bæjarráð samþykkti að fela bæjarstjóra að sjá til þess að unnið verði eftir vegvísi samstarfsnefndar Sambands ísl. sveitarfélaga og Félags grunnskólakennara, sem miðar að því að koma til framkvæmdar bókun við kjarasamning grunnskólakennara frá því í nóvember 2016.

Fundir á samstarfsvettvangi sveitarfélaga.

Til viðbótar við ýmis störf bæjarstjóra innan sveitarfélagsins, eru margvísleg samstarfsverkefni með öðrum sveitarfélögum á Suðurnesjum. Síðustu vikuna hafa verið nokkrir fundir vegna slíkra verkefna. Starfshópur um þróunar-og atvinnusvæði á Miðnesheiði fundaði sl. föstudag. Í gær var fundur í Svæðisskipulagsnefnd Suðurnesja og fyrr í dag var fundur í stjórn Reykjanes Jarðvangs og hjá stjórn Atvinnuþróunarfélags Suðurnesja, Heklu. Þar fyrir utan var áhugaverður fundur á vegum ISAVIA og Kadeco, um samspil sjávarútvegs og Keflavíkurflugvallar vegna útflutnings á sjávarafurðum. Þar kom fram hvað Keflavíkurflugvöllur gegnir mikilvægu hlutverki fyrir sjávarútveginn. Alltaf nóg um að vera í góðu samstarfi sveitarfélaganna á Suðurnesjum.

Veðrið.

Veðrið undanfarna daga hefur borið með sér sýnishorn af nokkrum veðurafbrigðum. Það hefur skipst á rigning og hlýindi og snjókoma með svalara veðri. Í gær, fimmtudag snjóaði en það stóð aðeins yfir í örfáar klukkustundir þar til allan snjó hafði tekið upp með hlýju veðri og rigningu. Nú undir lok janúar fela veðurspár í sér hlýindi næstu daga svo ekki þarf að búast við að mikið álag verði í snjómokstrinum hér vestast og nyrst á Reykjanesinu.

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail