2. vika 2017.

Bæjarstjórn.

Í vikunni var fundur í bæjarstjórn. Þar voru að venju mörg mál á dagskrá, fundargerðir kjörinna nefnda bæjarins auk fundargerða af sameiginlegum vettvangi sveitarfélaga. Bæjarstjórnin samþykkti tillögu bæjarstjóra um gerð húsnæðisáætlunar fyrir sveitarfélagið, en öll sveitarfélög eiga að vinna slíka áætlun samkvæmt ákvæðum nýlegra laga um húsnæðismál. Þá var samþykkt að mæla með því að sýslumaður veiti tímabundið áfengisveitingaleyfi vegna þorrablóts í Garði 21. janúar. Þorrablótsgestir ættu því að geta notið viðeigandi veiga til að skola niður gómsætum þorramat.

Skólahald komið í hefðbundinn farveg.

Eftir jólaleyfið hófst skólahald í Gerðaskóla í síðustu viku. Dagleg störf nemenda og starfsfólks Gerðaskóla er því komið í fast horf á nýjan leik. Sama er að segja um leikskólann Gefnarborg og tónlistarskólann. Þótt svo flestum þyki notalegt að fá frí frá daglegum störfum þegar þannig ber undir, þá er líka alltaf gott þegar daglegt líf fellur í sinn farveg.

Viðlagatrygging.

Í vikunni komu starfsmenn Viðlagatryggingar í heimsókn og fóru yfir ýmis mál. Fundurinn með þeim var upplýsandi og góður, ljóst er að Viðlagatrygging gegnir mikilvægu hlutverki og er ákveðinn öryggisventill ef tjón verða af náttúrunnar völdum. Ástæða er til að vekja athygli allra á þætti Viðlagatryggingar í tryggingakerfinu, það á jafnt við um opinbera aðila og allan almenning.

Heimsókn starfsmanna Viðlagatryggingar.
Heimsókn starfsmanna Viðlagatryggingar.

 

Sameiningarmál sveitarfélaga.

Eins og fram hefur komið vinna Garður og Sandgerðisbær að úttekt á kostum og göllum sameiningar sveitarfélaganna. Ráðgjafar hjá KPMG vinna að verkefninu með stýrihópi skipuðum fulltrúum sveitarfélaganna. Greiningarvinna og upplýsingaöflun er í fullum gangi, síðar í janúar verður framkvæmd netkönnun meðal íbúa þar sem leitað er eftir sjónarmiðum þeirra til ýmissa mála. Í febrúar eru áformaðir íbúafundir og vinnufundir hjá sveitarstjórnarfólki í sveitarfélögunum tveimur. Þetta er spennandi verkefni og verður fróðlegt að sjá hver framvinda þess verður þegar lengra líður á árið.

Þorrablót.

Eins og fram kemur hér að framan þá verður hið víðfræga þorrablót Suðurnesjamanna í Garðinum laugardaginn 21. janúar, en Bóndadagur í upphafi Þorra er að þessu sinni föstudaginn 20. janúar. Knattspyrnufélagið Víðir og Björgunarsveitin Ægir standa að þorrablótinu og sjá um undirbúning og framkvæmd. Þorrablótið verður að venju í íþróttahúsinu og er von á nálægt 600 gestum. Þorrablótin í Garði hafa verið vel sótt og vel heppnuð mörg undanfarin ár, myndarlega að því staðið með skemmtilegri dagskrá. Engin breyting verður á því að þessu sinni. Axel hjá Skólamat sér að vanda til þess að gómsætur þorramatur er fram borinn. Að þessu sinni mun góður nágranni annast veislustjórn, nefnilega Kjartan Már bæjarstjóri í Reykjanesbæ. Bæjarbúar og gestir eru þegar farnir að undirbúa sig fyrir þorrablótið, þess má geta að mikil aðsókn hefur verið að líkamsræktinni að undanförnu. Líklega kemur þar til annars vegar nokkurs konar endurhæfing eftir jólin og áramótin, en ekki síður uppbygging fyrir þorrablótið.

Þorrablót 2017

Víðir í Garði.

Leikmenn meistaraflokks Víðis eru byrjaðir að undirbúa komandi keppnistímabil. Eins og kunnugt er vann Víðir sér sæti í 2. deild íslandsmótsins á síðasta ári. Bryngeir Torfason var í haust ráðinn þjálfari liðsins og unnið hefur verið að samningum við leikmenn. Nú í vikunni var samið við þá Magnús Þórir Matthíasson og Unnar Má Unnarsson, báðir hafa sterk tengsl við Garðinn. Magnús Þórir er Garðmaður og lék með yngri flokkum Víðis, en hefur undanfarin ár leikið með Keflavík.  Unnar Már hefur sterk fjölskyldutengsl í Garðinn og hefur einnig leikið síðustu árin með Keflavík. Það er mikill og góður liðsstyrkur fyrir Víðir að fá þessa góðu leikmenn til liðs við sig. Þá hefur verið gengið frá samningum við Serbneska leikmenn sem hafa leikið með Víði síðustu tvö ár og koma þeir til æfinga á næstu dögum. Spennandi tími framundan hjá Víði.

Unnar Már og Magnús Þórir.
Unnar Már og Magnús Þórir.

Veðrið.

Nú í vikunni hefur flesta daga verið norðanátt með hægum vindi en svalt. Nokkuð bjart veður og fullur máninn hefur skinið á himni á kvöldin. Það hefur því að mestu verið fallegt vetrarveður en snjólaust, þar til nú undir lok vikunnar þegar snjóaði aðeins til að lita jörðina ljósari lit. Daginn er farið að lengja aftur eftir sólstöður 21. desember.

 

Facebooktwittergoogle_plusmail