1. vika 2017.

Gleðilegt nýtt ár !

Ég óska íbúum sveitarfélagsins og landsmönnum öllum gleðilegs og farsæls árs með þökk fyrir liðnu árin. Að þessu sinni var bæjarstjórinn með fjölskyldunni erlendis um jólin og áramót, það var ný upplifun og við áttum góðan tíma saman þessa daga. Hins vegar er jólahald og áramótagleðin á Íslandi eitthvað sem eru nokkuð sérstök fyrirbæri, sérstaklega á það við um gamlárskvöld. Meðan landinn fékk útrás fyrir sprengjuæði og að skjóta á loft ómældu magni flugelda sáust aðeins nokkrir slíkir á lofti þar sem við vorum stödd, en það var ekki síður tilkomumikið og skapaði ákveðna stemmningu.

Það er jafnan eitthvað spennandi við áraskipti, í lok árs er horft yfir árið sem er að líða og rifjað upp það fjölmarga sem átti sér stað á því ári.  Ef ég lít yfir árið 2016 þá var það að flestu leyti mjög gott ár, bæði í persónulega lífinu og í þeim störfum sem unnin voru. Eins og alltaf er líka eitthvað sem var síður jákvætt og hefði jafnvel betur mátt fara, en það fer í reynslubankann til að læra af. Í upphafi nýs árs er jafnan spennandi að horfa fram á veginn, hvaða verkefni eru framundan og hvað er ekki eins augljóst að verða muni.

Framundan eru mörg verkefni sem þarf að vinna að og ljúka á árinu 2017 á vettvangi sveitarfélagsins. Við munum halda áfram að byggja upp góða þjónustu sveitarfélagsins við íbúana og nokkuð verður um framkvæmdir og fjárfestingar á vegum sveitarfélagsins. Unnið er að úttekt á kostum og göllum sameiningar sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðisbæjar, í upphafi sumars mun liggja fyrir hvert framhald verður á því verkefni. Í samstarfi við önnur sveitarfélög á Suðurnesjum er unnið að mörgum spennandi verkefnum. Þar má m.a. nefna skipulagsmál og stefnumótun til framtíðar um uppbyggingu atvinnu-og þróunarsvæðis á Miðnesheiði norðan flugstöðvar. Þá má einnig nefna að unnið er að uppbyggingu ferðaþjónustu í Garði, bæði gistingu og veitingaþjónustu en einnig afþreyingu fyrir ferðafólk. Hér er aðeins stiklað á stóru og margt ekki nefnt til. Í Molum næstu vikur og mánuði verður nánar fjallað um hin fjölmörgu verkefni sem framundan eru.

Jólahúsið 2016.

Fyrir jólin valdi Umhverfisnefnd jólahúsið 2016. Íbúar sveitarfélagsins höfðu send nefndinni tilnefningar um fallega skreyttar húseignir í Garði og tók nefndin síðan afstöðu til þeirra. Að þessu sinni var Skagabraut 16 útnefnt jólahúsið. Við óskum eigendum og nágrönnum bæjarstjórans til hamingju með valið, enda er húsið og garður þess fallega skreytt og með smekklegum ljósaskreytingum sem lýsa upp húsið og næsta nágrenni. Á myndunum hér að neðan má sjá jólahúsið og þegar Brynja Kristjánsdóttir formaður Umhverfisnefndar afhenti Sverri Karlssyni eiganda hússins verðlaunagrip.

Jólahúsið 2016
Jólahúsið 2016
Verðlaun afhent.
Verðlaun afhent.

Áramótabrenna og flugeldasýning.

Að venju var áramótabrenna tendruð á gamlárskvöld ofan við íþróttasvæðið í Garði. Einnig var myndarleg flugeldasýning. Fjöldi manns var við brennuna og fylgdist með flugeldasýningunni. Björgunarsveitin Ægir og Kiwanisklúbburinn Hof önnuðust brennuna og flugeldasýninguna og er þeim þakkað fyrir frábæra framkvæmd og utanumhald þessara viðburða.

Íbúafjöldi í Garði.

Nú um áramót var íbúafjöldi í Sveitarfélaginu Garði 1.511, samkvæmt bráðabirgðatölum Þjóðskrár. Þar með fjölgaði íbúum í sveitarfélaginu um 86 á árinu 2016, eða um liðlega 6%. Nýir íbúar eru boðnir velkomnir til búsetu í sveitarfélaginu og eru hvattir til að kynna sér þá góðu þjónustu sem sveitarfélagið býður upp á.

Þrettándinn.

Í dag 6. janúar er Þrettándinn og þar með rennur jólatíminn sitt skeið á enda. Sums staðar eru mikil hátíðahöld af því tilefni, með brennum og skoteldum ásamt því að víða er hefð fyrir því að börn klæðist grímubúningum og gangi í hús í leit að einhverju gómsætu. Í kvöld verða allir jólasveinarnir komnir aftur til síns heima og hefja undirbúning fyrir næstu jól.

Veðrið.

Meðan bæjarstjórinn spókaði sig í sól og blíðu í sólarlandi um jólin og áramótin var veður rysjótt í Garðinum síðustu vikur desember og núna fyrstu vikuna á nýju ári. Miklar veðursveiflur hafa verið, skipst á hlýindi með rigningu og kaldara veður með snjókomu. Vindasamt hefur verið og er útlit fyrir framhald á þessari veðurtíð fram í næstu viku. Eftir hlýtt og gott haust erum við minnt á að nú er hávetur á Íslandi og því ekki við öðru að búast en við fáum kulda og einhvern snjó.

Góða helgi.

 

Facebooktwittergoogle_plusmail