Fjárhagsáætlun Garðs 2017.

Bæjarstjórn hefur samþykkt fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2017 og rammaáætlun fyrir árin 2018-2020.  Fjárhagsáætlun ber með sér að sveitarfélagið stendur styrkum fótum fjárhagslega og ágætt jafnvægi er í rekstri.

Rekstraráætlun.

Helstu niðurstöður rekstraráætlunar fyrir árið 2017 eru að heildartekjur verði 1.323 mkr. Skatttekjur eru áætlaðar 771 mkr., þar af útsvarstekjur 677 mkr. Áætluð framlög frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga eru 373 mkr.  Ef litið er til útgjalda, þá eru laun og launatengd gjöld áætluð að verði 577 mkr., sem er um 43% af heildartekjum. Annar rekstrarkostnaður 633 mkr., eða um 48% af heildartekjum.

Rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir og fjármagnsliði (framlegð) er áætlaður afgangur 114 mkr., sem er um 9% af heildartekjum.  Niðurstaða rekstrarreiknings eftir afskriftir og fjármagnsliði er afgangur rúmlega 29 mkr.  Ef litið er sérstaklega á A hluta rekstraráætlunar, sem er sveitarsjóðurinn sjálfur þá er áætlaður rekstrarafgangur um 36 mkr.

Gjaldskrá í þágu íbúanna.

Samhliða afgreiðslu fjárhagsáætlunar samþykkti bæjarstjórnin gjaldskrá sveitarfélagsins fyrir árið 2017. Afslættir af álögðum fasteignasköttum elli-og örorkulífeyrisþega eru rýmkaðir, þannig að fleiri munu njóta afslátta. Helstu breytingar á þjónustugjaldskránni eru þær að frá 1. janúar 2017 fá íbúar sveitarfélagsins gjaldfrjálsan aðgang að sundlauginni. Þessi breyting er m.a. í þeim tilgangi að hvetja íbúana til heilsueflingar og aukinnar aðsóknar að sundlauginni. Þá má nefna þá breytingu á gjaldskrá að frá næstu áramótum fá íbúar sveitarfélagsins gjaldfrjáls afnot af safnkosti almenningsbókasafns. Markmið með því er að efla bókmenntamenninguna og auka aðsókn að bókasafninu. Hækkunum á einstökum liðum gjaldskrár er stillt í hóf og áfram verður gjaldskrá Sveitarfélagsins Garðs fyrir einstaka þjónustuliði með því lægsta sem sveitarfélög bjóða.

Sjóðstreymi.

Samkvæmt áætlun um sjóðstreymi ársins 2017, þá er veltufé frá rekstri 129 mkr., sem er tæplega 10% af heildartekjum og handbært fé frá rekstri 124 mkr. Afborganir langtímalána verða rúmlega 7 mkr. og fjárfestingar og framkvæmdir 88,3 mkr. Fjármögnun framkvæmda er alfarið af handbæru fé frá rekstri og ekki er gert ráð fyrir lántökum.

Skuldir og skuldbindingar.

Heildarskuldir og skuldbindingar eru áætlaðar 529 mkr. í árslok 2017. Þar af eru lífeyrisskuldbindingar 203 mkr. og leiguskuldbinding 109 mkr. Sveitarsjóður í A hluta áætlunarinnar er skuldlaus, en B hluti skuldar lánastofnunum 60 mkr. Skuldahlutfallið (hlutfall heildar skulda og skuldbindinga af heildartekjum) er 40%. Þessar staðreyndir eru merki um efnahagslega sterka stöðu sveitarfélagsins.

Fjárhagsleg staða.

Það er ljóst að ef til þess kemur að sveitarfélagið þarf að ráðast í fjárfrekar framkvæmdir á næstu árum, þá getur sveitarfélagið mætt því með góðu móti. Annars vegar er til staðar handbært fé, sem er áætlað að verði um 530 mkr. í árslok 2017, auk þess sem skuldastaðan er með þeim hætti að gott svigrúm er til lántöku vegna fjárfrekra verkefna á næstu árum, ef á þarf að halda. Síðan er afkoma rekstrarins með þeim hætti að sveitarfélagið hefur fjárfestingagetu vel yfir 100 milljónir á ári, ef litið er til þess hvert handbært fé frá rekstri er áætlað.

Fjárhagsáætlun haldi.

Eitt er að reikna út fjárhagsáætlun og annað að fylgja henni eftir þannig að hún haldi. Á undanförnum árum hefur tekist vel til við að fylgja fjárhagsáætlunum. Það hefst með virku kostnaðareftirliti og reglulegri eftirfylgni með þróun rekstrarins allt árið. Það eru lykilatriði, því ef upp koma óvænt tilvik sem hafa áhrif á reksturinn þarf að vera svigrúm til að mæta því og gera nauðsynlegar ráðstafanir. Markmið bæjarstjórnar og starfsfólks sveitarfélagsins er að reksturinn sé í góðu jafnvægi og að þær áætlanir sem samþykktar eru haldi og þeim fylgt eftir. Nýsamþykkt fjárhagsáætlun og afkoma undanfarinna ára ber með sér að það hafi tekist vel og við ætlum að halda áfram á þeirri sömu braut.

Nánari upplýsingar á heimasíðu.

Fjárhagsáætlunin, gögn og upplýsingar sem henni fylgja má finna á heimasíðu sveitarfélagsins, svgardur.is. Þar má einnig finna greinargerð bæjarstjóra með fjárhagsáætlun, þar sem allar helstu upplýsingar liggja fyrir.

 

Facebooktwittergoogle_plusmail