50. vika 2016.

Molar voru í fríi í síðustu viku, en mikið hefur verið um að vera í Garði síðustu tvær vikur og er hér m.a. stiklað á stóru um það.

Jólasamkomur og sýningar.

Félagsstarf eldri borgara hélt sýningu á handverki tengdu jólum í Auðarstofu. Þar var margt til sýnis og ótrúlega fallegt handverk.  Lista-og menningarfélagið í Garði hefur haft opnar sýningar í Sunnubraut 4 nú í aðdraganda jóla. Þar sýna listamenn í Garði verk sín og eru flest þeirra til sölu. Bæjarstjóra var boðið á jólafund Kvenfélagsins Gefnar, þar sem boðið var upp á dýrindis góðan jólamat og bæjarstjórinn flutti stutta tölu. Nú um síðustu helgi var Aðventukvöld í Útskálakirkju þar sem kirkjan var þétt setin. Þar voru ýmis tónlistaratriði og annað, allt í anda aðventunnar og jólanna. Ýmislegt fleira hefur verið um að vera í Garðinum nú um aðventuna og í aðdraganda jóla. Mikil stemmning og svífandi jólaandi í Garðinum nú á aðventunni.

Sýning á jólaföndri í Auðarstofu.
Sýning á jóla handverki í Auðarstofu.

Nemendur tónlistarskólans fara víða.

Nú þegar jólin nálgast og nemendur tónlistarskólans að fara í jólafrí, þá fara þeir víða um bæinn og leika jólatónlist. Eyþór skólastjóri og hans kennarar vinna gott verk í tónlistarskólanum og það er ánægjulegt að hlusta á þeirra nemendur spila og syngja. Núna í vikunni hafa nemendur komið við á nokkrum stöðum og spilað. Þar á meðal er leikskólinn, en myndin hér að neðan er af Facebook síðu leikskólans Gefnarborgar. Í gær, fimmtudag voru jólatónleikar tónlistarskólans í Miðgarði, sal Gerðaskóla. Þar lék m.a. bjöllukór tónlistarskólans, en hann hefur nú verið endurvakin eftir nokkurra ára hlé. Fjölmenni mætti og nemendur stóðu sig með mikilli prýði. Það er dýrmætt að eiga svo góðan tónlistarskóla sem við Garðbúar búum að.

Jólatónleikar í Gefnarborg.
Jólatónleikar í Gefnarborg. Eyþór með nokkrum nemenda sinna.

Bæjarstjórn í síðustu viku, afgreiðsla fjárhagsáætlunar.

Bæjarstjórn fundaði í síðustu viku.  Þar bar hæst afgreiðsla á fjárhagsáætlun, en auk þess voru ýmsar fundargerðir nefnda og stjórna til umfjöllunar og afgreiðslu. Mikil og góð samstaða er í bæjarstjórninni um fjárhagsáætlunina, enda hefur samvinna bæjarfulltrúa og starfsfólks sveitarfélagsins verið til fyrirmyndar. Það leggur grunninn að góðum árangri. Upplýsingar um fjárhagsáætlun má nálgast á heimasíðu sveitarfélagsins, svgardur.is, einnig var umfjöllun um fjárhagsáætlunina í síðustu Molum úr Garði.

Hleðslustöð fyrir rafbíla – Stoppu-stuð !

Nú í vikunni komu starfsmenn frá Orkusölunni færandi hendi. Þeir afhentu sveitarfélaginu hleðslustöð fyrir rafmagnsbíla, en Orkusalan vinnur að því verkefni að koma upp slíkum hleðslustöðvum í öllum sveitarfélögum. Finna þarf hleðslustöðinni heppilega staðsetningu og vonandi liggur það fyrir áður en langt um líður. Þetta er athyglisvert og þarft verkefni hjá Orkusölunni og fyrir það er þakkað. Hér fyrir neðan er mynd af því þegar bæjarstjóri ásamt Einari Friðrik hjá Umhverfis-, skipulags-og byggingarsviði tóku við hleðslustöðinni úr hendi starfsmanns Orkusölunnar. Nú verður enn meira stuð í Garði !

img_2214

Jólaundirbúningur í skólunum á aðventunni.

Nú nálgast jólin óðfluga, enda langt liðið á aðventuna. Þessa vikuna og fram í þá næstu er stíf dagskrá í Gerðaskóla og leikskólanum Gefnarborg, jólaandinn svífur yfir. Alltaf skemmtileg og kærleiksrík stemmning síðustu dagana í skólunum fyrir jólafrí. Sl. miðvikudag borðuðu allir nemendur og starfsfólk Gerðaskóla saman jólamat í hádeginu. Flutt voru skemmtiatriði og sungin jólalög undir stjórn Vitors Eugenio tónlistarkennara. Hér að neðan eru myndir frá jólahádeginu í Gerðaskóla.

img_3457

img_3444

Í leikskólanum Gefnarborg er borðaður jólamatur í hádeginu í dag, föstudag. Síðar í dag verður svo jólatrésskemmtun leikskólans í Miðgarði í Gerðaskóla. Kærleikurinn og jólastemmningin svífa yfir skólabörnum og starfsfólki skólanna í Garði þessa dagana, enda styttist í að jólahátíðin gangi í garð.

Skötuhlaðborð Víðis.

Í dag, föstudag verður skötuhlaðborð Unglingaráðs Víðis í Samkomuhúsinu, bæði í hádeginu og um kvöldmatarleyti. Þetta er föst hefð í aðdraganda jóla og hefur verið mikil aðsókn undanfarin ár. Gott framtak hjá Víði að halda þessari hefð, því það er ómissandi liður í aðdraganda jóla að fá vel kæsta skötu að borða.

skotuhladbord-vidis-2016

Jólahúsið 2016.

Umhverfisnefnd stendur fyrir vali á jólahúsinu í ár. Íbúum er gefinn kostur á að tilnefna jólahúsið og koma því á framfæri á bæjarskrifstofu. Umhverfisnefndin mun síðan velja jólahúsið og afhenda eigendum þess verðlaun í næstu viku, rétt fyrir jólin. Það eru mörg hús í Garði sem eru fagurlega skreytt og mörg þeirra með miklar ljósaskreytingar. Hins vegar hefur vantað snjóinn til þess að allar þessar fallegu skreytingar njóti sín betur, kannski rætist úr því fyrir jólin. Eigendur jólahússins 2016 fá afhenta forláta verðlaunagrip sem unnin var af Ástu Óskarsdóttur og sjá má hér fyrir neðan. Gripurinn er fjörusteinn alsettur litríkum smásteinum og áletruðum skildi.  Garðbúar eru glysgjarnir nú á aðventunni.

img_2236

Jólaskákmót Samsuð og Krakkaskák.

Á morgun, laugardag verður árlegt jólaskákmót Samsuð og Krakkaskák haldið í Gerðaskóla. Mótið er fyrir alla grunnskólanemendur á Suðurnesjum, framkvæmdaraðili er Siguringi Sigurjónsson hjá Krakkaskák en Siguringi hefur kennt skák við flesta grunnskóla á Suðurnesjum. Við framkvæmd skákmótsins nýtur hann aðstoðar frá Skáksambandi Íslands. Skákmótið verður í Gerðaskóla á morgun kl. 13:00 – 16:00 og eru allir velkomnir til að fylgjast með okkar ungu skáksnillingum etja kappi.

Molar í frí fram yfir áramót.

Þar sem bæjarstjórinn fer í leyfi nú fyrir jól og fram yfir áramót koma næstu molar á nýju ári. Við óskum öllum gleðilegra jóla og þökkum samfylgdina á því ári sem nú er að líða.

Facebooktwittergoogle_plusmail