48. vika 2016.

Aðventan og jólaljósin.

Nú þegar Aðventan er hafin eru margir húseigendur að koma upp og kveikja á alls kyns ljósaskreytingum á húsum sínum. Sums staðar eru ekki einungis ljósaskreytingar á húsunum, heldur eru ljós á trjám og öðru umhverfis og við húsin. Í Garði eru húseigendur duglegir við að koma upp ljósaskreytingum og fjölgar þeim dag frá degi um þessar mundir sem kveikja á ljósaskreytingum á sínum húsum.

Ljósin kveikt á jólatrénu.

Sl. sunnudag, þann fyrsta í Aðventu voru ljósin tendruð á jólatrénu í hjarta bæjarins. Veður var hið besta og var fjölmenni mætt til að taka þátt.  Flutt var hugvekja, Bergdís Júlía Sveinsdóttir yngsti nemandi Gerðaskóla kveikti ljósin á trénu, Söngsveitin Víkingar sungu jólalög og jólasveinar mættu á staðinn. Þá sá unglingaráð Reynis / Víðis um að reiða fram heitt súkkulaði og piparkökur. Það var ánægjuleg stund sem garðbúar og gestir áttu saman á sunnudaginn við jólatréð. Auk þess var fjölskyldumessa í Útskálakirkju og Kvenfélagið Gefn hélt sinn árlega jólabasar. Aðventustemmning í Garðinum.

Fjölmenni tók þátt í að kveikja ljósin á jólatrénu.
Fjölmenni tók þátt í að kveikja ljósin á jólatrénu.

Jólastemmning í leikskólanum.

Nú í aðdraganda jólanna þarf ýmislegt að gera til að undirbúa jólahátíðina, við það skapast jólastemmning. Börnin í Leikskólanum Gefnarborg leggja sitt af mörkum og taka þátt í undirbúningi jóla. Í vikunni tóku þau til hendi og bökuðu piparkökur, sem eru ómissandi þáttur í aðdraganda jóla. Það var mikil einbeiting og áhugi hjá börnunum við piparkökubaksturinn, eins og sjá má dæmi um á myndinni hér fyrir neðan, sem var fengin á Facebook síðu leikskólans.

Einbeiting við piparkökubakstur.
Einbeiting við piparkökubakstur.

Góður gestur í Gerðaskóla.

Í byrjun vikunnar kom Þorgrímur Þráinsson rithöfundur með meiru í heimsókn í Gerðaskóla. Hann hélt fyrirlestur fyrir nemendur og ræddi við þá um lífið og tilveruna. Þorgrímur er duglegur við að fara víða og tala við nemendur grunnskólanna, þetta framtak hans er gott og lofsvert og ber að þakka honum fyrir það.

Íbúafundur.

Bæjarstjórn boðaði til íbúafundar sl. miðvikudag og var ágæt mæting íbúa á fundinn. Aðal efni fundarins var kynning á tillögu um fjárhagsáætlun næsta árs, sem verður á dagskrá bæjarstjórnar í næstu viku. Fundarmenn voru almennt ánægðir með áætlunina og fjárhagslega stöðu sveitarfélagsins. Á fundinum var einnig rætt um málefni sveitarfélagsins og fengu íbúar svör við ýmsum spurningum sem bornar voru upp. Svona fundir eru mikilvægir, bæði fyrir sveitarstjórnarfólkið og íbúana þar sem í senn koma fram upplýsingar og tækifæri gefst til umræðu um málefni sveitarfélagsins og íbúa þess.

Veðrið.

Veðurfarið að undanförnu er óvenjulegt ef tekið er mið af árstíma. Hlýindi og rigning af og til. Hitamælirinn við sundlaugina sýndi 7° hita kl. 7:00 í morgun. Það er ekki laust við að margir sakni þess að hafa snævi þakta jörð nú í byrjun Aðventu, ekki er ólíklegt að þeim hinum sömu verði að ósk sinni en ekkert slíkt virðist þó í kortunum næstu daga.

Góða helgi.

Facebooktwittergoogle_plusmail