47. vika 2016.

Aðventan gengur í garð.

Nú á sunnudaginn gengur Aðventan í garð og samkvæmt venju verður mikið um að vera í Garði þann dag.

Aðventuhátíð verður í Útskálakirkju kl. 14:00. Kvenfélagskonur í Kvenfélaginu Gefn taka þátt í messunni og kveikt verður á fyrsta aðventukertinu.

Árlegur jólabasar Kvenfélagsins Gefnar verður í Kiwanishúsinu og hefst kl. 15:00. Að venju verður þar margt í boði og allur ágóði rennur í líknarsjóð kvenfélagsins.

Loks verða tendruð ljós á jólatrénu við Gerðaveg 1. Dagskrá hefst kl. 17:00, flutt verður hugvekja og mun yngsti nemandi Gerðaskóla tendra ljósin á jólatrénu. Þá mun Söngsveitin Víkingar syngja nokkkur lög og öllum verður boðið upp á heitt súkkulaði og piparkökur, í umsjón unglingaráðs Víðis. Ekki er líklegt að snjói fram á sunnudag, en fastlega má búast við að einhverjir jólasveinar láti sjá sig.

Garðbúar og gestir eru hvattir til að taka virkan þátt í viðburðum dagsins og njóta samveru við upphaf Aðventu.

Bæjarráð.

Í vikunni var fundur hjá bæjarráði. Þar bar hæst umfjöllun um fjárhagsáætlun næsta árs og var tillögu um áætlun vísað til síðari umræðu í bæjarstjórn. Þá var lagt fram árshlutayfirlit rekstrarins fyrir tímabilið janúar – september á þessu ári og lítur það allt vel út miðað við fjárhagsáætlun. Fjallað var um tillögu um verklagsreglur félagsþjónustunnar vegna samstarfs sveitarfélaganna Garðs, Sandgerðis og Voga um félagsþjónustu. Ákveðið var að veita jákvæða umsögn til sýslumanns vegna umsóknar um rekstur heimagistingar, þá var fjallað um erindi frá Öldungaráði Suðurnesja og samþykkt bókun um svar við því. Fyrir bæjarráði lá að fjalla um úthlutunarreglur vegna byggðakvóta og var samþykkt að þær verði óbreyttar frá fyrra ári. Loks lá fyrir fundargerð 1. fundar stýrihóps sem vinnur að úttekt á kostum og göllum sameiningar Garðs og Sandgerðisbæjar. Alltaf í mörg horn að líta hjá bæjarráði.

Íbúafundur.

Bæjarráð ákvað á fundi sínum að boða til íbúafundar miðvikudaginn 30. nóvember kl. 20:00 í Gerðaskóla. Á fundinum verður farið yfir tillögu að fjárhagsáætlun fyrir næsta ár og fjallað um rekstur og fjárhag sveitarfélagsins. Íbúar Garðs eru hvattir til að mæta á íbúafundinn, kynna sér málefni sveitarfélagsins og taka þátt í umræðum um þau.

Starfsfólk félagsmiðstöðvar á faraldsfæti.

Starfsfólk félagsmiðstöðvarinnar Eldingar fór ásamt Íþrótta-og æskulýðsfulltrúa í vettvangsferð til Reykjavíkur sl. mánudag. Heimsóttar voru félagsmiðstöðvar við þrjá skóla þar sem okkar fólk kynnti sér starfsemi. Starfsmennirnir áttu góð samskipti við forstöðumenn þessara félagsmiðstöðva um starfsemi þeirra, auk þess sem aðstæður voru skoðaðar. Gott framtak hjá okkar fólki og alltaf er gott að skoða og kynna sér starfsemi hjá öðrum, til að læra af og fá nýjar hugmyndir. Það er metnaður hjá okkar fólki að hafa starfsemi félagsmiðstöðvarinnar sem blómlegasta, allt í þágu ungmenna í Garði. Á myndinni hér að neðan má sjá hópinn í einni af félagsmiðstöðvunum í höfuðborginni.

img_3123

Samstarfssamningur við Nes.

Sveitarfélagið Garður og íþróttafélagið Nes hafa átt gott samstarf undanfarin ár. Nýlega var undirritaður nýr samstarfssamningur milli sveitarfélagsins og Nes, sem m.a. felur í sér fjárhagslegan stuðning sveitarfélagsins við starfsemi Nes. Íþróttafólk frá Nes hefur staðið sig mjög vel á íþróttamótum fatlaðra og hafa m.a. keppt fyrir hönd Íslands á alþjóðlegum mótum. Bæjarstjóri og Drífa Birgitta formaður Nes undirrituðu samninginn, að viðstöddum garðmanninum Sigurði Guðmundssyni sem hefur m.a. gert garðinn frægan á knattspyrnuvöllum innanlands og erlendis undanfarin ár.

Bæjarstjóri og fulltrúar Nes.
Bæjarstjóri og fulltrúar Nes.

Veitingahúsið Röstin.

Veitingahúsið Röstin í húsi byggðasafnsins á Garðskaga hefur opnað og býður gesti velkomna. Veitingahúsið er nú opið alla daga frá morgni til kvölds og þar er boðið upp á ljúffenga rétti. Garðskagi ehf rekur veitingahúsið, en félagið hafði áður opnað og rekið kaffihús í gamla vitanum. Það er ánægjulegt að veitingastaður hafi aftur verið opnaður í Garði.

Veðrið.

Eins og verið hefur undanfarnar vikur hefur veðurfar verið frekar rysjótt þessa vikuna. Að mestu hafa verið nokkur hlýindi með suðlægum áttum og yfirleitt rigning. Inn á milli hefur vindáttin snúist í norðlægar áttir með kaldara veðri. Lítið hefur farið fyrir snjó það sem af er haustinu og fram að þessu og næstu daga er útlit fyrir áframhald á suðlægum áttum með nokkrum hlýindum. Framundan er desember mánuður og er ekki ólíklegt að styttist í einhver vetrarveður með tilheyrandi snjó og frosti.

Góða helgi !

 

 

Facebooktwittergoogle_plusmail